02.05.1921
Neðri deild: 60. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1964 í B-deild Alþingistíðinda. (2124)

112. mál, fiskimat

Frsm. (Einar Þorgilsson):

Oss má öllum vera það ljóst, hve afarmikils virði það er fyrir hvert ríki, að framleiðsla þess nái áliti á heimsmarkaðinum.

Vjer Íslendingar höfum orðið fyrir því happi, að eftir að lög voru hjer sett um fiskimat 1909, þá hefir íslenskur fiskur verið einna fremstur á saltfiskmarkaði heimsins. Af þessu höfum hjer haft ómetanlegt gagn. En eins og það var hnoss fyrir oss að öðlast þetta, eins ættum vjer og að setja metnað vorn í að reyna að halda þessu ágæti.

Á síðastliðnu ári hefir íslenskur saltfiskur ekki reynst eins vel á Spaníu og undanfarin ár. Er ekki gott að segja, hverjar ástæður muni til þess liggja. En að líkindum má þó telja höfuðástæðuna þá, sem hingað hefir borist með tímans straumi, og skal jeg á hana drepa fáum orðum.

Þegar fiskimatslögin voru samin 1909, þá var þar eingöngu um að ræða verkaðan fisk til útflutnings. Þá átti sjer varla stað, að seldur væri óverkaður fiskur. En síðan hafa staðhættir breyst svo, með vexti í þessari atvinnugrein, að nú er fluttur út fiskur í salti, óverkaður, og einnig seldur manna milli hjer innanlands í stórum stíl.

Það er og aðgæsluvert í þessu sambandi, að á síðustu árum hefir útvegurinn breyst þannig, að fiskiskipin, eða þó einkum vjelbátarnir, grannsalta fiskinn og selja hann síðan, er þeir koma að landi, hverjum sem hafa vill. En þessi grannsöltun á fiskinum hefir leitt í ljós óvandvirkni, því að þegar svo er að farið, að handbrögð, hreinlæti og söltun eru ekki í góðu lagi í fyrstu, þá er mikið verra að verka fiskinn vel á eftir, og oft nær ómögulegt, svo að vel sje.

Það, að fiskurinn hefir tapað áliti á heimsmarkaðinum, mun því stafa af þessari umgetnu ástæðu, að menn grannsalta nú fiskinn og veita honum ekki svo góð handbrögð sem skyldi, en ekki hitt, að flokkunin sje óvandlegri en áður, því að það hefir einmitt sýnt sig, að hin síðustu árin hefir meira fallið til II. og III. flokks en undanfarið.

Til þessa kunna að liggja fleiri ástæður, en þessi mun þó vera hin helsta.

Lagabreytingin, sem hjer um ræðir, er nú í því fólgin, að óverkaður saltfiskur, jafnt sem verkaður, skuli framvegis verða metinu, áður en hann er út fluttur. Og að fiskur, sem seldur er innanlands, skuli einnig metinn. Er þetta til þess gert, að framleiðandinn beri nokkra ábyrgð á vörunni, þótt ekki flytji hann hana sjálfur út.

Jeg býst við, að háttv. þm. sjeu mjer sammála í því, að alt sje til þess gerandi, að vjer getum framvegis haldið góðu áliti á þessari vöru á heimsmarkaðinum. Megum vjer og við því búast, að hliðstæð ríki í þessari atvinnugrein muni gera alt til þess að keppa við oss í þessu efni.

Jeg býst fastlega við, að háttv. þm. verði ekki á móti því, að þessi breyting nái fram að ganga og í lögin að festast.