04.05.1921
Neðri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

112. mál, fiskimat

Pjetur Ottesen:

Það er síður en svo, að jeg geti gengið inn á brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), því að hún gengur í þveröfuga átt við frv. Tilgangur okkar var sá, að allur fiskur, er ganga á kaupum og sölum upp úr salti, og ætlaður til útflutnings, yrði metinn, og álitum við, að með þessu væri gerð tilraun til þess að stuðla að betri verkun á fiskinum en nú er, því að gæði fiskjarins fara mjög mikið eftir því, hvernig hann er búinn í saltið.

En verði brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) samþ., er naumast og ekki hægt að leggja annan skilning í lögin en þann, að fiskurinn skuli einungis metinn á útflutningsdegi, en fyr ekki, og er þá alveg girt fyrir gagnið, að tilgangi okkar með frv. sje náð. Það var heldur ekki meining okkar, að fiskur, sem sendur er til annara landa en Miðjarðarhafslandanna upp úr salti, óverkaður, sje metinn. Það er álit kunnugra manna, að það gæti verið beinlínis hættulegt fyrir okkur. En verði till. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) samþykt, verður eigi undan þessu komist.