16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

91. mál, fátækralög

Flm. (Magnús Pjetursson):

Mjer er óhætt að taka undir með háttvirtum framsögumanni síðasta máls, að það muni ekki verða vinsælt hjá áheyrendum að hefja langar umræður um þessi mál. Jeg ætla því aðeins að láta nokkur orð fylgja þessu frv., um leið og jeg legg það fram fyrir hv. deild. Það er ekki fyrirferðarmikið á pappírnum, og eins og háttv. deildarmönnum er kunnugt, þá hafa á undanförnum þingum komið fram uppástungur um breytingu á fátækralöggjöfinni. Það er ekki lengra síðan en 1917, að hjer í deildinni var tillaga samþykt og afgreidd til stjórnarinnar, um að endurskoða fátækralöggjöf vora, og var í þeirri tillögu sjerstaklega bent á ýmsa agnúa. Hún mætti að vísu nokkurri mótspyrnu frá þáverandi og núverandi forsætisráðherra (J. M.), og má telja líklegt, að það, meðal annars, valdi því, að enginn árangur hefir af þeirri tillögu orðið.

Það er að vísu áreiðanlega margt í þessari löggjöf þjóðarinnar, sem er orðið á eftir tímanum. Þrátt fyrir það, hefi jeg ekki sjeð sjer fært, að þessu sinni að taka til breytinga önnur atriði en þetta frv. ræðir um, enda eru þau eitt af stærstu göllum fátækralaganna, eins og nú standa sakir.

Allir háttv. þingdm. munu kannast við, að stjórnin hefir borið fram frv. um breytingu á þessum lögum. Frv. stjórnarinnar hefir að vísu ekki verið lagt fram í þessari deild. En háttv. þingdm. munu hafa lesið það. Frv. þetta fjallar um sömu atriði og mitt frumvarp, en á þann hátt, að mjer finst það hvorki fugl nje fiskur, og síst bæta það, sem bæta þarf. Jeg hefi því reynt að benda á betri bætur en stjórnin hefir reynt að gera.

Það er skýr stefnumunur milli frv. míns og frv. stjórnarinnar. Eins og menn vita, er meðlag ríkissjóðs fyrir hvern þurfaling, sem lagður er á sjúkrahús eftir læknisráði, ákveðið í krónutali. Frumvarp stjórnarinnar heldur við krónutalið, en hækkar það að vísu, vegna verðfalls peninga. Þetta álít jeg, að taki ekki tali. Reynslan hefir sýnt, að aðferð þessi er óheppileg; með reikulu verðgildi peninga þyrfti að breyta þessari upphæð á hverju þingi, ef rjettlátt ætti að vera. Meðlagið á að ákveða þannig, að hlutfallið milli þess, er ríkissjóður og sveitarsjóðir leggja af mörkum, sje altaf eins, og hefir þessi skoðun mín orðið þess valdandi, að jeg ber fram frv. þetta.

En þegar farið er að taka til athugunar þessar greinar fátækralaganna, kemur það í ljós, að gallarnir eru fleiri meinlegir og ekki viðunandi. Jeg vil í því sambandi benda á það ákvæði 77. gr., að ríkissjóður skuli aldrei kosta fleiri en tvo sjúklinga á ári fyrir sama sveitarfjelagið. Ef fleiri þurfalingar liggja á sjúkrahúsum, verður sveitarfjelagið að sjá um þá sjálft að öllu leyti. Með öðrum orðum: þegar eitthvert sveitarfjelag er einkum illa statt í þessu efni, og þyrfti helst hjálpar með, þá er því alveg neitað um stuðning ríkissjóðs. Þessu verður að kippa í lag; meðlagið verður að ná til allra.

Þá er að benda á það atriði, sem margir munu telja mikilvægast í frv. mínu, enda er þar farið fram á nýja stefnu í löggjöf vorri. Það hefir áður verið á það minst, þó ekki hafi það komið til framkvæmda, og það nú síðast frá berklaveikisnefndinni. Jeg á við ákvæðið um, að láta ekki sjúkdóma valda rjettindamissi, enda þótt þeir geri það að verkum, að maðurinn verði efnalega ósjálfstæður. Ákvæðið í frv. mínu er að vísu ekki nógu víðtækt, og það getur orðið álitamál, hvort rjett sje að koma með svona smábætur á þetta gamla fat, fátækralöggjöfina, þar sem svo mikilla umbóta væri þörf, en þó getur þetta frv. orðið til þess að ryðja þessari nýju stefnu braut, og er full ástæða til að athuga það vendilega.

Jeg vil ekki tefja umr. lengur, og vænti þess, að háttv. deild sýni máli þessu fult rjettlæti og samþykki það til 2. umr. og allsherjarnefndar.