16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1985 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

91. mál, fátækralög

Forsætisráðherra (J. M.):

Það má vera, að háttv. flm. (M. P.) hafi rjett fyrir sjer í því, að þessi tala — 2 — sje of lág eins og nú standa sakir, og þurfi að breyta því í samræmi við kröfur tímans. Jeg vil heldur ekki fordæma það, að sjúklingatalan sje ótakmörkuð, en þó er þetta kostnaður, sem eðlilegast er, að hvíli á sveitarfjelögunum. Útgjöld ríkissjóðs til þessa hafa farið langt fram úr því, sem gert var ráð fyrir, þegar ákvæðið var sett, og getur því verið varhugavert að hækka það enn meir. Það er nýlega búið að ljetta af sveitarsjóðum þungri byrði — barnakennaralaununum — og nú er farið fram á að ljetta af þeim annari. Þessi stefna er ekki heppileg, og er ekki rjett að gefa henni of mikið undir fótinn.

Þetta atriði heyrir reyndar undir fjármálaráðherra, og það getur verið, að jeg hafi staðið hjer upp til að verja afkvæmi mitt, því jeg var við samning þessara laga riðinn. Í raun og veru er mjer þetta óviðkomandi, en jeg hefi hugsað mikið um það á sínum tíma, þegar lögin voru samin, og þess vegna hefi jeg hjer lýst skoðun minni.