29.04.1921
Neðri deild: 58. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1986 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

91. mál, fátækralög

Frsm. (Einar Þorgilsson):

Frv. á þskj. 137, frá háttv. þm. Str. (M. P.), sem er frv. til laga um breyting á fátækralögum 10. nóv. 1905, hefir allsherjarnefnd haft til meðferðar og gert við það nokkrar smávægilegar breytingar. Ekki er það af því, að nefndin geti ekki fallist á stefnu þess. En henni þótti varhugavert að takmarka alls ekki tölu þeirra sjúklinga, er nytu sjúkrahússvistar úr hverju bæjar- eða sveitarfjelagi í einu. Nefndinni þótti rjettara að takmarka töluna svo, að ekki fleiri en fjórir í einu úr hverju sveitar- eða bæjarfjelagi yrðu sjúkrahússvistar aðnjótandi. Þá hefir nefndin einnig lækkað hámarkið fyrir kostnaði hvers bæjar- eða sveitarfjelags úr 600 kr. niður í 400 kr., en heldur sjer annars við, að fiamfærslusveit skuli greiða 2/5 meðlagskostnaðarins, þar til að þessu hámarki er komið. Þá hefir nefndin og lagt það til, að þeir sjúklingar, sem sjúkrahúsvistar njóta, en ekki njóta styrks af ríkissjóði, skuli einskis rjettar missa, þó sjúkdómskostnaður þeirra sje að öllu leyti greiddur af bæjar- eða sveitarsjóðum, og að sá styrkur skuli ekki teljast sveitarstyrkur.

Nefndin leggur því til, að frv. verði samþ. með þessum breytingum, að sjúklingatalan verði takmörkuð þannig, að ekki fleiri en 4 sjúklingar á ‘ári úr hverju bæjar- eða sveitarfjelagi verði kostaðir á sjúkrahúsi af ríkissjóði, en að kostnaður við sjúkdómslegu og læknishjálp hvers eins þeirra verði aldrei hærri en kr. 400 — en annars miðað við 2/5 kostnaðarins, og að öðru leyti eins og brtt. í áliti nefndarinnar tilgreina.

Að því er snertir brtt. á þskj. 406, frá háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.), þá hefir nefndin ekki tekið afstöðu til þeirra enn. Mjer er þó óhætt að segja það, að nefndin muni ekki geta aðhylst þær. Jeg fyrir mitt leyti gæti verið háttv. flm. (J. B.) samferða um a., b. og d. liðina, en lengra getum við ekki átt samleið. Annars sýnir nefndin best með atkv. sínum, hverja afstöðu hún tekur til þessara brtt.