02.05.1921
Neðri deild: 60. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

91. mál, fátækralög

Forsætisráðherra (J. M.):

Atvinnumálaráðherra (P. J.) er ekki við, en þetta mál heyrir undir hann, en ekki mig. En jeg hygg ekki rjett að saka stjórnina fyrir það, þótt hún hafi ekki getað snúist í því að leggja fram frv. um gagngerðar breytingar á fátækralögunum. Hún hefir búið undir þing mörg mál og stór, og væri vel, ef þingið gæti sint þeim, þó að ekki væri lengra leitað. Jeg býst við, að þeim ráðherrum, sem hafa farið með þetta mál, hafi ekki unnist tími til að athuga það sem skyldi, því að þeir hafa oftast verið of hlaðnir störfum. Og það þykir altaf viðurhlutamikið og varhugavert að skipa milliþinganefnd, nema því brýnni nauðsyn beri til.

Jeg geri varla ráð fyrir, að háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) taki þessar ástæður gildar fyrir stjórnina, frekar en svo margar aðrar, en aðrir hv. þm. ættu að vera svo sanngjarnir að sjá, að ekki er hægt að heimta af henni alt í einu.

Jeg tók því ekki illa á þinginu 1919, að fátækralögunum yrði breytt í mannúðlegri átt, og jeg er fús til að vinna að þeirri breytingu, þegar tími fæst til. En jeg býst við, að gagngerð breyting sje varhugaverð nú, eins og háttv. þm. (J. B.) líka viðurkennir. Með breytingum hans er í raun og veru allur fátækrastyrkur afnuminn, því að það, sem eftir er skilið, er í raun rjettri ekki neitt. Það er rjett hjá háttv. þm. (J. B.), að með tryggingum mætti kippa þessu í lag að mestu leyti, því að hægt er að tryggja menn gegn nærri öllum áföllum, sem hugsast geta. En það mál tekur langan tíma og þarf nákvæman undirbúning, og jeg hygg, að við verðum að halda í fátækralögin þar til þessu er komið í kring. Það geta aðrir mjer reyndari gert sjer í hugarlund þær breytingar, sem till. háttv. þm. (J. B.) mundu valda, ef þær yrðu að lögum. Ef ekki ætti að telja styrkinn fátækrastyrk, og enginn rjettindamissir væri við hann bundinn, mundu menn fara að gerast stórtækari til sveitarsjóðanna og gera háar kröfur. Jeg held, að varla geti vafi leikið á því, að svo yrði. Það er að vísu satt, að þessi missir, sem styrkurinn hefir í för með sjer, kemur hart og ómaklega niður á sumum, en svo verður um öll almenn lög. Mörgu er að vísu hægt að breyta til bóta, áhættulaust, en það verður að fara varlega í að gerbreyta jafnmikilvægum lögum. Jeg tel t. d, sjálfsagt, að breytingar hv. þm. Str. (M. P.) nái fram að ganga í aðalatriði, en till. háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) fara fram á að afnema fátækralögin, og þeim get jeg ekki fylgt. Jeg get verið háttv. þm. (J. B.) sammála um það, að sveitfestistíminn sje of langur. Meiri hluti milliþinganefndarinnar stakk upp á 5 ára tíma, og við Páll Briem amtmaður vorum mikið að velta fyrir okkur 2 ára tíma, en úr því varð þó ekkert. En jeg hefði ekkert á móti því, að tíminn yrði styttur nú, og gæti jafnvel gengið eins langt eins og háttv. þm. (J. B.). En jeg get ekki fallist á það, að það sje lagt á vald geðþótta þurfalingsins, hvaða dvalarsveit hann hefir. Það getur haft mikið að segja fyrir framfærslusveitina, að geta ráðstafað því. Þetta á að vísu að koma í veg fyrir sveitarflutning, en þegar fólkið er að þyrpast úr sveitunum í kaupstaði, álít jeg rangt að hindra, að það flytjist aftur til sveitanna, þó að það sje ekki fúst á að fara. En ef mönnum er heimilað að heimta styrk þar, sem þeir dvelja, er þessi spurning fallin úr sögunni.

Þá kann jeg ekki við, að skuldir fyrir þeginn sveitarstyrk áður en væntanleg lög koma í gildi fyrnist á 2 árum, er svo er ákveðið, að annars skuli það vera 5 ár. Það má ná því marki, sem til er ætlast, með því að meta ástæður þær, sem urðu þess valdandi, að áður þeginn styrkur var veittur. En þetta kemur mjer í raun og veru ekki við. Ef till. háttv. þm. (J. B.) ná fram að ganga, verður endurskoðunin óþarfari, því að þá eru fátækralögin að mestu pappírslög. Eins má benda á það, að bráðum kemur fram till. um tryggingar, og er það mál náskylt þessu í raun og veru. Jeg skal svo ekki segja fleira að sinni.