02.05.1921
Neðri deild: 60. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2002 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

91. mál, fátækralög

Jón Baldvinsson:

Það mátti auðvitað búast við andmælum gegn brtt., enda játa jeg, að hjer er um gagngerða breytingu að ræða. Raunar komu þau ekki svo mjög fram í ræðu hæstv. forsrh. (J. M.), sem mjer virtist taka vel í mál mitt, miklu betur en jeg hafði búist við, eftir orðum hans um þál. frá 1917, þar sem skorað er á ríkisstjórnina að. leggja fyrir þingið breytingar á fátækral. í svipaða átt og þessa. En þótt búast mætti við andmælum, þá held jeg þó, að þetta mál hafi fullan rjett á sjer og hljóti að eiga talsvert fylgi í þinginu, því að brtt. mínar eru í samræmi við áskorun þingsins 1917 til stjórnarinnar, um breytingu á þessum lögum.

Háttv. andmælendur hafa sagt, að brtt. mínar krefðust breytinga á ákvæðunum um sveitfesti. Mjer hafði nú skilist á nokkrum háttv. þingmönnum, að þeir ætluðu að flytja till. í þessa átt, og því kemur ekkert slíkt frá mjer.

Sumt hið sama kom nú fram í ræðum háttv. þm. Barð (H. K.) og háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), t. d. út af e-liðnum, að menn gæti skort atvinnu, af því að fjelag þeirra ákvæði þeim hærra kaup en fáanlegt væri. Jeg vildi skjóta því til hv. þingmanna, hvort þeim sje ekki kunnugt um, hvernig kaup verkamanna er ákveðið. Það er miðað við dýrtíðina, og hefir aldrei verið hærra en svo, að menn rjett gætu lifað af því. Og það væri þó ekki mikil sanngirni í því, að sveitarstjórn ljeti þá vinna fyrir minna en þeir gætu lifað fyrir.

Jeg er hræddur um, að sagan, sem hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) kom með um manninn, sem gat fengið vinnu fyrir 1 kr. um kl.st., en ekki mátti vinna fyrir minna en 2% –3 kr. um kl.st., vegna kauptaxta fjelags síns, sje talsvert orðum aukin. Það getur vel verið, að háttv. þm. (S. St.) hafi heyrt þetta einhversstaðar, en jeg fullyrði, að það getur ekki verið fótur fyrir því, að nokkurt fjelag hjer hafi bannað nokkrum manni að vinna almenna dagvinnu nema fyrir svo hátt kaup, sem hann nefndi. Það getur vel verið, að það hafi munað nokkrum aurum á kl.st., hugsanlega t. d. 20 aurum og í allra hæsta lagi 48 aurum á kl.st., því alment kaup er nú 1,20 á klst. og var fyrir 20. apríl 1 kr. 48. Það hefir því verið lagt talsvert á þessa sögusögn í meðförunum, ef annars nokkuð er til í henni.

En kaupið er miðað við vöruverð, og þá er tæpast ástæða til þess að setja það niður vegna sveitarstjórnarinnar, því að það er einmitt hún, sem hefir hagnað af þessu fyrirkomulagi; annars mundi margur maðurinn fyr komast á sveitina en ella. Og því síður væri ástæða til að setja kaupið niður fyrir stutta vinnu hjá einstökum mönnum, og sem þá yrði ef til vill til þess, að kaup yrði alment sett niður. Og þó að þetta yrði jafnvel til þess, að einn og einn maður hætti við að láta vinna einhver smáviðvik, og menn færu á mis við þá vinnu, þá er það ekki lengi að vinnast upp aftur, þegar vinnan kemur. 20–48 aurum hærra kaup á kl.st. yfir aðalstarfstíma ársins vegur meira en það á móti einhverri smáígripavinnu á vinnuleysistímunum, sem gæti haft í för með sjer almenna lækkun á vinnukaupi.

Ef þær stofnanir væru til hjá sveitarfjelögunum, er veittu mönnum stöðuga vinnu um hávetur í atvinnuskorti og slæmu árferði, þá gæti jeg hugsað mjer, að vinna fengist fyrir lægra verð, með sjerstökum samningum. En á slíkum stofnunum yrði að vera gott skipulag, ef að haldi ætti að koma.

Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) bjóst við því, að ef brtt. mínar yrðu samþyktar, þá mundi það mjög draga úr sjálfsbjargarhvöt einstaklinganna. Um þetta eru nú skiftar skoðanir. Það getur miklu fremur dregið úr sjálfsbjargarhvöt margra, ef allir menn álíta þá, sem fengið hafa sveitarstyrk, minni menn eftir en áður; en þó sjerstaklega, ef þeir menn, er af ýmsum orsökum verða að leita á náðir sveitarinnar, fara sjálfir að álíta sig minni menn. En ef breyting yrði á þessu, í þá átt, sem brtt. mínar ganga, þá gætu menn vel haldið áfram að bjarga sjer, þótt þeir yrðu um tíma að leita styrks, sjerstaklega ef þeir hjeldu rjettindum sínum áfram.

Það er mikill munur á því, hvernig menn fara með efni sín; jeg skal síst neita því. En í mörgum atriðum er það svo, að þessum mönnum er það ekki sjálfrátt, er þeir verða að leita styrks. Vanheilsa, slys og mörg óviðráðanleg óhöpp eru þess valdandi. Og jeg held ekki, að það sje rjett, að það sje mest vegna leti, ráðleysis og ómensku, að svo fer fyrir mörgum. En til þess, að sjálfsbjargarhvötin rjenaði ekki, þá yrði að ganga svo frá öllu, að þeir mistu ekki alveg móðinn við það að verða styrkþegar.

Að lokum vil jeg geta þess til skýringar, að liðurinn 2.a. er miðaður við 1. gr. brtt. minnar, en ekki við 1. gr. frv. þess, sem fyrir liggur og brtt. annars eru miðaðar við.