02.05.1921
Neðri deild: 60. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2004 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

91. mál, fátækralög

Jón Sigurðsson:

Það eru aðeins örfá orð. Jeg gat eigi stilt mig um að minnast á eitt atriði, sem gengið hefir verið fram hjá í umr., en sem sýnir þó ljóst, hvað mál þetta er fljóthugsað.

Í fljótu bragði virðist e-liðurinn vera sanngjarn, skoðaður einn út af fyrir sig. Þar er sem sje gert ráð fyrir, að styrkur sje veittur sökum atvinnuskorts, þegar sveitar- eða bæjarfjelag getur ekki veitt styrkþurfandi fjölskyldumanni atvinnu. En sje þessi liður borinn saman við a-lið 2. gr., þá er ekki laust við að útkoman verði dálítið bogin.

Gerum ráð fyrir að maður dvelji hjer í Reykjavík, sem á framfærslusveit einhversstaðar úti á landi og er styrks þurfandi. Sveitarfjelagið getur ekki fengið hann fluttan heim, ef hann samþykkir eigi flutninginn, samkv. brtt. hv. 2. þm. Reykv. (J. B.), og engin von er til, að bæjarfjelagið hjer útvegi honum atvinnu, því að hann er ekki þess handbendi, og auk þess mætti svo vera, að það hefði ekki atvinnu nema handa sínum þurfalingum.

Einnig er það að athuga við e-lið, að menn geta orðið atvinnulausir sökum aðgerða eða ákvæða einhvers fjelags, sem þeir eru í og verða að beygja sig undir. Væri það óneitanlega talsvert hart, að Sveitareða bæjarfjelag legði mönnum styrk fyrir atvinnuskort af þessum sökum, enda þótt í raun og veru væri um næga atvinnu og sæmilega borgaða að ræða. Mörg af ákvæðunum í brtt. hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) eru þannig vaxin, að þau mundu bókstaflega verða til niðurdreps fyrir heil sveitarfjelög, ef þau yrðu að lögum.

Mjer virðist því þessar tillögur svo fljóthugsaðar, að rjettara sje að láta þær ekki ná fram að ganga.