29.03.1921
Efri deild: 29. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

34. mál, landsreikningar 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (M.G.):

Jeg á dálítið erfitt með að skilja, að fylgja þurfi greinargerð sú, er háttv. frsm. (S. F.) talar um, því að vitanlega fer hjer fram endurskoðun, sem við aðra slíka reikningsfærslu. Sje jeg ekki betur en að hjer standi líkt á og um marga aðra sjóði, svo sem Ræktunarsjóð og kirkjujarðasjóð, en þar er slíkrar greinargerðar ekki krafist. Býst jeg ekki við, að við þetta ynnist annað en fyrirhöfnin, og gæti auk þess auðveldlega orðið til að valda ruglingi.

Hvað snertir færslu skipanna, þá er þar að eins beitt reglu, sem altaf hefir verið fylgt. Jeg get annars fallist á, að rjettara væri að færa skipin niður, en þó vildi jeg gjarna fá að vita, hvaða reglu háttv. nefnd hefir hugsað sjer að fylgt yrði í því efni. Að vísu eru skipin nú bókfærð með lægra verði en þau voru keypt fyrir, en þó býst jeg ekki við, að hægt væri nú að selja þau fyrir bókfært verð, enda er þess ekki að vænta, eins og nú er ástatt.

Jeg skal því að síðustu endurtaka það, að jeg hefi ekkert á móti því, að skipin verði færð niður, en þætti að eins gott að fá vitneskju um, eftir hvaða reglu menn hafa hugsað sjer það.