15.04.1921
Efri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (2209)

105. mál, einkasala á áfengi

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg skal taka það fram, að þó að háttv. frsm. lyfjasölunefndar (H. St.) fari ekki sem hlýlegustum orðum um brtt. mínar, þá skal jeg ekki fara neitt út í það mál nú, þar sem þetta er 1. umr. Og jeg ætla að geyma allar deilur um mál þetta þangað til á rjettum tíma.

Það hefir brugðið svo einkennilega við, að frv. um einkasölu á lyfjum hefir alls ekki verið rætt. En hvers vegna nefndin vill ekki hafa einkasölu, vita menn ekki, því hún kemur ekki fram með neinar ástæður fyrir því, en það hefði þó óneitanlega verið æskilegra, að greinargerð fylgdi, sem færði ástæður fyrir þessu. Nefndin heldur því fram, að menn með lyfjasöluprófi eigi að hafa eftirlit með afhending lyfja. Sjálfur hefi jeg tilhneigingu til að fylgja nefndinni að málum, og vil því ekki ásaka hana; en mjer þykir rjett að benda á, hversu hugsunarhátturinn hefir breyst síðan að bannlögin voru sett 1909. Þá var það mikið deiluefni. hvað umsjónarmaðurinn með áfengisskömtuninni ætti að hafa mikið kaup, og komu menn sjer loksins saman um 6OO kr. á ári Nú mundi þetta ekki þykja höfðinglega boðið. Hjer er gert ráð fyrir allvel launuðu starfi. Á þessu sjest hve hugsunarhátturinn breytist. Frá mínu sjónarmiði á að leggja aðaláhersluna á reglugerðina og hvernig henni er framfylgt. Hvernig er ástatt í því tilliti nú? Við læknar höfum tvær reglugerðir að fara eftir, aðra um sölu á áfengi til iðnaðar, frá 1916, hina frá 1920.

Óhætt er að fullyrða, að algerlega hafi mistekist framkvæmd þessarar reglugerðar frá 1916. Það hefir gengið svo, að bækur þær, sem láta átti út áfengið eftir, hafa verið virtar að vettugi, en í stað þess gengið seðlar frá lögreglustjórunum með stimpli sýslumannsembættisins á. Frá sumum þeirra hefir áfengið flóð út um hjeraðið, einkum ef læknirinn var íhaldssamur um þá greiðvikni að hjálpa um einhverja hressingu, og það er drjúgur sopi, sem jeg, sem einn af hjeraðslæknum landsins, hefi orðið að láta úti á þennan hátt. Í þessari reglugerð er og mælt svo fyrir, að sýslumenn skuli bera sig saman við læknana um það, sem leyft er að láta úti í þessu skyni. Jeg hefi nú haft þrjá sýslumenn síðan umrædd reglugerð var gefin út, en enginn þeirra hefir komið til mín eða óskað eftir samanburði á því, hve mikið jeg hefi látið úti og hvað mikið þeir hafi gefið út seðla fyrir. Og jeg veit heldur ekki til, að nokkur skýrsla hafi verið send til landsstjórnarinnar um, hve mikið hafi verið látið úti af áfengi til iðnaðar. Með þessu eftirlitsleysi slepti landsstjórnin algerlega beislinu fram af lögreglustjórunum, og því hefir líka farið sem farið hefir.

Árið 1920 fáum við aðra reglugerð, sem er óviðeigandi og óviðunandi fyrir það, hve hún eykur geipilega skriffinskuna. Þar er heimtað af læknum að innfæra öll þau meðul, er þeir gefa lyfseðil fyrir, ef í þeim er meira en 21/4% af vínanda. Það er mjög einkennilegt, að ef læknir gefur út lyfseðil, t. d. uppá syrupus codeieus fortior, sem í er 4% af vínanda, og látin úti venjuleg 50 gr. í einu, — það er hóstameðal, mikið notað, en annars eitur, — að hann skuli skyldur til að rita fyrst tvíritaðan lyfseðil upp á meðalið, síðan innfæra þetta í áfengisbók, og senda síðan Hagstofunni mánaðarlega útdrátt úr þeirri bók. Þessi fyrirmæli eru óhafandi. Það er lítið gagn í því að setja fína „toppfígúru“ yfir áfengissöluna, nema betra eftirlit fáist með því, og það hygg jeg fáist með brtt. þeirri, er jeg hefi borið fram um skömtun á áfenginu.

Jeg endurtek það, og jeg margtek það, að það er eftirlitið, sem alt er undir komið, ef sæmilega á að fara.

Það er nú svo, að undanfarið hafa myndast nokkurskonar áfengisbæli kringum lyfjabúðirnar, og það er nauðsynlegt að setja tryggari ákvæði um áfengissöluna og skyldur lækna og lyfsala í því efni.

Á síðastliðnu dýrtíðarári hefir verið flutt út um landið frá einni lyfjabúðinni heilmikið af vanilledropum. Hvort þeir hafa verið fluttir inn tolllaust eða ekki, veit jeg eigi,en svona hefir það gengið, að þegar bannaður hefir verið innflutningur á nauðsynjavörum, þá hafa menn drukkið sig augafulla um hásláttinn í vanilledropum. Þessu þarf að ráða bót á. Og það er ekkert gagn að því að setja yfirmann yfir áfengissöluna, ef hann getur ekki tekið alvarlega í taumana með þetta.

Það veltur ekki á því að gefa út margar og strangar reglugerðir, heldur hvernig reglugerðirnar eru framkvæmdar.

Eitt er enn vert að taka til athugunar í þessu sambandi, og það er, að síðan við fengum dýralæknana, lítur út fyrir, að gengið hafi merkilegur kúafaraldur yfir landið, því kýrnar hafa gerst svo óskiljanlega drykkfeldar. Og þeim nægir ekkert smáræði; þær virðast þurfa 5 lítra af spíritus til þess að hressa sig á, jafnvel hver einasta kýr á heimilinu. Jeg held það væri mjög æskilegt, ef hægt yrði að venja kýrnar af þessu „fylliríi“; það er ekki holt landbúnaði okkar, að þær venjist á þetta óhóf, og það hlýtur að verða þung byrði á landbúnaðinum, að kýrnar verða svona þurftarfrekar á þetta góðgæti. Best væri held jeg að taka þar ráð í tíma og venja kýrnar sem fyrst af þessu; jeg held þær mundu fljótt læra að sætta sig við töðuna, eins og hingað til.

Viðvíkjandi frv. sjálfu vil jeg benda nefndinni á það, að mjer finst álitamál, hvort áfengisstjóri, sem einnig á að vera lyfsali, ætti ekki að búa til „tinktúrur“ og lík lyf, sem sjerstaklega eru ætluð læknum, og sem þeir eru ekki vanir að búa til sjálfir. Þessum lyfjastjóra, sem einkum er ætlað að hafa eftirlit með innflutningi lyfja til landsins, mætti líka fela þetta á hendur. Mjer finst rjettast, að þessi lyf væru búin til í landinu sjálfu. Gæti af því orðið talsverður gróði fyrir landið, að láta þennan mann hafa tilbúning þessara lyfja með höndum. Sama er að segja um það, að samkvæmt frv. er ætlast til, að bannað verði að búa til ilmvötn hjer á landi, en jeg sje ekki, hvers vegna ekki mætti búa til ilmvötn hjer, ef landinu gæti orðið það til hagsbóta. Ef tilbúningur ilmvatna væri í höndum eftirlitsmanns áfengissölunnar, þá tel jeg, að sæmileg trygging væri fyrir því, að ekki hlytist skaði af.

Þar sem þetta er 1. umr. málsins, mun jeg ekki fara fleiri orðum um það, og geyma að ræða um brtt. mínar til 2. umr.