15.04.1921
Efri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2017 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

105. mál, einkasala á áfengi

Frsm. (Halldór Steinsson):

Það var aðeins stutt athugasemd. Háttv. 2. þm. S.M. (S. H. K.) fann að því, að nefndin færði ekki nægar ástæður fyrir frumvarpi þessu. Jeg færði þær fram í ræðu minni og skal taka þær. upp aftur. Aðaltilgangur frv. frá nefndarinnar sjónarmiði er fyrst og fremst betra eftirlit með lyfjabúðum, og ennfremur að afla ríkissjóði tekna umfram það, sem nú er, af áfengi því, sem heimilt er eftir bannlögunum að flytja til landsins. Jafnframt gerir nefndin ráð fyrir, að koma megi í veg fyrir, að áfengi verði flutt til landsins á ólögmætan hátt. Þetta kom fram í ræðu hæstv. forsrh. (J. M.). er hann lagði frv. um einkasölu á lyfjum fyrir þingið. Háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) tók fram, hve hugsunarháttur þingsins viðvíkjandi launum og starfi umsjónarmanns áfengiskaupa hefði breyst síðan á þinginu 1909. En hinn fyrirhugaði áfengisstjóri þessa frv. gefur enga bendingu í þá átt. Hjer er um alt annað starf og yfirgripsmeira að ræða en starf umsjónarmanns áfengiskaupanna hefir verið.

Jeg get verið þakklátur háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) fyrir ummæli hans um reglugerðir þær, sem gefnar hafa verið út um áfengi, og sjerstaklega hina síðustu, því að hún er hið mesta skriffinsku „produkt“, sem hugsanlegt er, að nokkur stjórnarskrifstofa geti látið frá sjer fara.

Hvað viðvíkur því, að nefndin hefir ekki lagt til, að væntanlegur forstöðumaður þessarar verslunar hefði lyfjatilbúning á hendi, þá vil jeg upplýsa það, að það ákvæði má setja í reglugerðir, sem stjórnarráðið setur samkvæmt lögum þessum, þó það sje ekki tekið fram í frv. sjálfu. Hæstv. forsrh. (J. M.) spurði, hvort nefndin hefði leitað álits landlæknis um þetta mál. Það hefir nefndin gert, og jeg veit ekki betur en hann geti felt sig við, hvernig nefndin hefir afgreitt það.