19.04.1921
Efri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2021 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

105. mál, einkasala á áfengi

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg er að sjálfsögðu þakklátur háttv. nefnd fyrir það, að hún hefir fallist á fyrri tillögu mína, enda er jeg ekki í vafa um, að það er til mikilla bóta. Jeg skal þó um leið taka það fram gagnvart brtt. háttv. þm. G.-K. (B. K.), að jeg er henni samþykkur og mun greiða henni atkvæði mitt. Eins og jeg hefi tekið fram áður, þá er mest um vert, að samræmið verði sem best í þessum lögum, og eftirlitið eftir því. Þess vegna tel jeg öll ákvæði vera til bóta, sem miða að því að gera reglugerðina sem skýrasta og aðhaldið sem allra best. Það er spursmál, hvort nægilega mikið er tekið fram í þessari brtt. minni. Það er spursmál, hvort ekki væri rjett að setja líka í lögin ákvæði um það, að suðuvökva eigi að skamta eftir föstum reglum, jafnhneykslanlega og með hann hefir verið farið á þessu landi; sama er að segja um áfengi til iðnaðar. En nú liggur engin brtt. fyrir þess efnis, og skal jeg því ekki ræða þetta meira að sinni.

Að því er snertir það, að háttv. nefnd hefir lagt á móti brtt. minni við 7. gr. frv., þá skal jeg ganga inn á, að það væri hægt að orða hana betur. Það má vera, að álagningin á suðuvökva verði með því móti of há, enda mætti breyta því. — En hvað snertir iðnaðaráfengið, þá er það skoðun mín, að ekki sje rjett að slá þar af kröfunum. Mjer er fullkunnugt um, að þar fer ekki alt til iðnaðar, sem ætlað er — nema þá til þeirra sjerstöku iðnrekenda, sem kallaðir eru ,,timburmenn“ — og ætti landinu ekki að verða neinn skaði, þótt sú grein iðnaðar legðist niður.

Þar sem annars háttv. nefnd hefir talað svo vel um 2. lið brtt. minnar, og yfirleitt farið mjúkum höndum um till., þá vil jeg láta koma hæversku í móti, taka síðari brtt. aftur og leita samninga við nefndina um hana til 3. umr.