19.04.1921
Efri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

105. mál, einkasala á áfengi

Sigurður Eggerz:

Jeg býst við, að jeg muni tala hjer fyrir daufum eyrum, en ekki mun jeg láta það hindra mig frá að láta uppi skoðun mína.

Því hefir verið haldið fram, að þetta frv. gæti orðið stuðningur fyrir bannlögin. Ef svo væri, mundi það vega þungt á vogaskálunum hjá mjer, og ef til vill fá mig til að greiða þessu frv. atkvæði mitt. En jeg sje ekki, á hvern hátt þetta frv. getur orðið að nýrri vernd fyrir bannlögin.

1. gr. ákveður, að enginn nema ríkisstjórnin megi flytja inn áfengi. Samkvæmt bannlögunum má enginn flytja inn áfengi, nema gegnum umsjónarmann áfengiskaupa. En þessi maður er starfsmaður ríkisins, svo ákvæðið um þetta er eins í báðum þessum lögum; nafnið á manninum, sem hefir starfið á hendi fyrir ríkisstjórnina, verður aðeins annað.

Í 2. gr. stendur, að áfengi það, sem ríkisstjórnin flytur inn, selji hún aðeins lyfsölum, læknum og öðrum þeim, sem bannlögin heimila. Sú aðalbreyting, sem lögin gera, er sú, að ríkissjóður hefir nú söluna á hendi, og verður því að leggja fram fje í því skyni. Og er óneitanlega merkilegt, að stjórnin skuli bera fram frv. eins og þessi einkasölufrv. á slíkum tímum, sem nú eru, þegar svo er ástatt, að stjórnin getur ekki, þótt hún fegin vildi, yfirfært 20 til 30 krónur. Þegar svo er ástatt, virðist ekki fært að auka útgjöld og erfiðleika landssjóðs að óþörfu.

Forsætisráðherra (J. M.) sagði við 1. umr., að annarsstaðar, þar sem bannlög væru, væri sjerstakur maður skipaður til þess að hafa eftirlit með, að þau væru haldin. En í frumvarpinu sjálfu er engin áhersla lögð á, að maður sá, sem þar er gert ráð fyrir að skipaður verði, gæti haft slíkt eftirlit, heldur aðeins lögð áhersla á eftirlit með lyfsölubúðum landsins. í frv. felst engin trygging fyrir því, að bannlögin verði betur haldin.

Aðalatriðið fyrir læknana hjer í deildinni veit jeg muni vera það að fá mann með lyfsalaprófi til að hafa eftirlit með lyfjabúðunum. Eftirlit með lyfjabúðunum hefir landlæknir haft til þessa. Landlæknisembættinu á nú áð skifta, samkvæmt þessu frv. Með öðrum orðum, setja á stofn nýtt embætti til að hafa eftirlit með lyfjabúðum. En jeg spyr, hefir landið ráð á að fjölga embættum, algerlega að óþörfu? Vill nokkur í alvöru halda því fram, að sá maður, sem trúað er fyrir eftirliti með læknum landsins, geti ekki líka haft eftirlit með lyfjabúðunum? Og hvernig hefir þetta verið hingað til? Síðan landlæknisembættið var stofnað, hefir þetta eftirlit fylgt því. Og engar kvartanir hafa komið fram, að brostið hafi á þekkingu í þessu efni hjá landlækni. Og þó hægt væri að fá meiri fagmann, þá hefir þjóðin ekki ráð á því. Það er að vísu sagt, að kostnaðinn eigi að taka af ágóðanum af lyfjasölunni. En hvaðan á sá ágóði að koma? Ekki á að leggja á lyfin. Ekki kemur fjeð þaðan. En hvaðan á það þá að koma? Jú, það á að koma frá því, sem græðist á sölunni á spíritus. Á hann á að leggja 25–75%. miðað við verð hans, að meðtöldum tolli. En nú er stefnan sú, að reyna að stemma stigu fyrir, að önnur eins ógengd af spíritus verði notuð til iðnaðar hjer eftir eins og hingað til, því það hefir upplýst, að iðnaðurinn sjálfur notar ekki neina örlítinn hluta þess áfengis, sem til iðnaðar hefir verið veitt. Jeg geri því ráð fyrir, að sala iðnaðarspírituss muni stórum minka. En af því leiðir aftur, að það gjald, sem á hann er lagt í frv., nægir ekki til að standast kostnað þann, sem af frumvarpinu hlýtur að leiða. Að því, er að öðru leyti snertir þann spíritus, sem beint þarf að brúka til iðnaðar, þá mótmæli jeg því, að rjettmætt sje að leggja hærri skatt á hann. Annarsstaðar er hráefnum hlíft við háum sköttum. Aðrar þjóðir vernda iðnað sinn eftir megni. Hjer virðist ekki vera mikil tilhneiging til þess. Jeg sje því ekki ástæðu til að leggja hærri skatt á iðnaðarspíritus en nú á sjer stað.

Jeg sje ekki, að bannlögunum sje veitt nokkur vernd með þessu frv. Jeg sje heldur enga þörf á að ljetta eftirliti lyfjabúða af landlækni. Hjer er farið fram á stofnun nýs, óþarfs embættis. Og ekki er einu orði minst á, hvaða laun þessi maður eigi að hafa. — Jeg hlýt því að verða á móti frv., ef jeg ekki heyri alvarlegri ástæður fyrir þörf þess en hingað til hafa verið fram færðar; og jeg býst ekki við, að hægt verði að láta mig heyra þær í þessari deild.