03.05.1921
Efri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2035 í B-deild Alþingistíðinda. (2228)

105. mál, einkasala á áfengi

Sigurður Eggerz:

Jeg er þakklátur hæstv. forsrh. (J. M.) fyrir það, að hann játaði hreinskilnislega, að þetta frv. væri lítil bót fyrir bannlögin, og vitanlega þýddi það í hans munni, að það væri engin bót fyrir þau.

Það er satt, eins og jeg hefi margtekið fram, þá er þetta engin vernd fyrir bannlögin, af þeirri ástæðu, að maður sá, er fyrir þessa áfengisverslun verður settur, hefir ekkert vald til þess að styrkja bannlögin, því að hann er skyldugur að afgreiða vínpantanir, hvort heldur honum þykir þær rjettar eða rangar.

Þá sagði hæstv. forsrh. (J. M.), að bannmenn myndu verða glaðir, ef minna yrði flutt inn af áfengi en nú. Já, vitanlega, en jeg tók það skýrt fram, að innflutningurinn minkaði ekki vegna þessa frv., heldur ef heilbrigt almenningsálit í þessu máli sigraði hjá þjóðinni..

Þá kem jeg að þriðja atriðinu, sem er eftirlitið með lyfjabúðunum. Jeg skal aðeins um það atriði segja, að jeg hefi ekki heyrt neina frambærilega ástæðu fyrir því, að sá maður, sem fær væri um að gegna landlæknisembætti, gæti ekki einnig haft þetta eftirlit. Landlæknir hefir auðvitað rannsóknarstofuna hjer í Reykjavík sjer við hlið, og getur því látið rannsaka lyfin, ef á þarf að halda, og hið sama yrði hinn nýi lyfjaeftirlitsherra að gera.

Svo er eitt atriði enn í þessu máli, og það er það, að ef þessi maður á stöðugt að vera á ferðalögum, til að líta eftir lyfjabúðum, þá getur hann alls ekki hugsað um sitt brennivínsburgeisstarf, og verður þá að hafa annan mann í sinn stað.

Þá getur og það komið til greina, að þó þessi maður sje sjerlega góður sjerfræðingur í lyfjafræði, og því tilvalinn til að líta eftir lyfjabúðunum, þá sje hann samt enginn „business“-maður, og því ómögulegur til þess að gera góð innkaup. Það er því enginn efi á því, að það rekur að skiftingu þessa embættis aftur, og get jeg því alveg eins búist við, að farið verði fram á það á næsta þingi, og þá sagt, að það þurfi að hafa „fagmann“ við eftirlit lyfjabúðanna, en aftur þurfi að fá reglulega vanan brennivínsburgeis til þess að standa fyrir vínkaupunum.

Ef til vill vill hv. deild, sem orðin er dáleidd af þessu frumvarpi, koma því strax í þetta nýja horf, til þess að gleðja þjóðina enn meira, og mætti þá taka það þegar út af dagskrá og breyta því. Því jeg býst eigi við, að hún gangi inn á það, sem rjettast er, og það er það, að láta þetta mál deyja drotni sínum.