13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2041 í B-deild Alþingistíðinda. (2237)

105. mál, einkasala á áfengi

Forsætisráðherra (J. M.):

Eins og hv. þm. vita, þá átti þetta frv. í háttv. Ed. heima í lyfjasölunefnd, og var athugað í sambandi við það mál. Nú áleit háttv. Ed. ekki heppilegt, að ríkið tæki að sjer lyfjasöluna, en hinsvegar var það álit háttv. deildar, að nauðsynlegt væri að fá sjerstakt eftirlit með lyfjabúðum. Þær væru nú orðnar svo margar, að margfalt meira eftirlit þyrfti með þeim nú en áður. Og deildin áleit, að til þessa eftirlits þyrfti mann, sem væri sjerfræðingur í þessari fræðigrein. Það er ekki hægt að ætlast til þess af landlækni, að hann geti haft þetta umsvifamikla starf með höndum, að minsta kosti þyrfti hann þá beinlínis að vera lyfjafræðingur. Um hitt var aftur á móti ágreiningur, hvað mikla þýðingu þetta hefði fyrir eftirlitið með bannlögunum. Og jeg álít það geta haft mikla þýðingu, ekki síst í þá átt, að koma því svo fyrir, að iðnaðaráfengið verði ekki eins misbrúkað og verið hefir. Og sá kostur er við þessa ráðstöfun, að hún er ríkissjóði með öllu að kostnaðarlausu.

Það er engin áhersla á það lögð, hvort ríkissjóður hafi nokkurn hag af þessu fyrirkomulagi, þótt svo kunni að verða eitthvað, en tryggilegt er það, að læknaáfengið verður ekki dýrara en það er nú, nema síður væri.

Jeg vona svo, að háttv. deild taki þessu máli vel, og leyfi því að ganga fram.