13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2043 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

105. mál, einkasala á áfengi

Magnús Pjetursson:

Jeg hafði búist við því, að þeir háttv. nefndarmenn, sem ritað hafa undir nál. með fyrirvara, mundu taka til máls, en fyrst þeir ekki hafa kvatt sjer hljóðs, ætla jeg að segja nokkur orð. Jeg vil þá strax lýsa því yfir, að jeg mun greiða atkvæði með þessu frv., þótt mjer finnist því hafa verið spilt til muna í hv. Ed. Því að feginn hefði jeg verið, ef stjórnarfrv. hefði gengið fram, þótt jeg annars sje á móti allri ríkiseinkasölu. En með þessu frv. er jeg þó, af því, að hjer eru engin nýmæli á ferðinni, þar sem á þessum vörum hefir verið einkasala frá ómunatíð; læknar hafa ekki haft leyfi til að panta sjer lyf, heldur hefir alt slíkt verið í höndum lyfjabúða. En eins og háttv. frsm. (P. O.) og hæstv. forsrh. (J. M.) tóku fram, þá átti þetta frv. að tryggja læknum það, að þeir fengju góðar vörur. Nú er það ekki eins gott, þótt mikil bót sje að því, að þarna er maður með nægum tíma og sjerþekkingu, og það ríkissjóði alveg að kostnaðarlausu. Jeg geri líka ráð fyrir því, að þetta sje mjög til bóta þeirri eftirlitsvöntun, sem verið hefir með áfengissölu.

Inn í frv. hefir svo verið bætt grein (2. gr.), sem landlæknir hafði ætlað að láta koma fram sem sjerstakt frv., um það, hve mikið áfengi megi láta til lækna. Jeg heyrði ekki umr. um þessa gr. í hv. Ed., og vildi því spyrja hæstv. forsrh. (J. M.), hvort ekki sje til þess ætlast, að þessar reglur verði settar eftir tillögum landlæknis, en ekki ríkisstjórnar. Jeg spyr af því, að jeg hefi gert mjer þá hugmynd, að þessar reglur yrðu samdar á þann hátt, að landlæknir spyrðist fyrir um það meðal lækna, hversu mikið áfengi þeir hefðu notað á ári hverju, og úr því yrði svo búið til einskonar „normal kvantum“ (i. e. meðalsnaps!), sem þeim skyldi úthluta á ári hverju. Svo hafði að minsta kosti landlæknir hugsað sjer þetta.

Jeg hefi ekki komið fram með neinar brtt. við 2. gr., en þó er þar eitt atriði, sem jeg tel óhugsandi, að komið geti til framkvæmda. Jeg tel það sem sje óhugsandi, að með nokkurri sanngirni verði ákveðið, hve mikið áfengi lyfjabúðir megi fá. Það er ekki hægt að fara eftir þeirri notkun vínanda, sem verið hefir þar, þar sem allir hjeraðlæknar eiga eftirleiðis að fá öll sín lyf úr lyfjabúðum. Eina ráðið, sem að haldi gæti komið, væri að fyrirskipa, að þeir hjeldu svonefndan „laboratoriumjournal“, sem svo eftirlitsmaðurinn fengi að sjá og rannsaka.

Enn er eitt atriði í þessu frv., sem gleður mig, sem bæði jeg og læknafjelagið höfum óskað, að væri fyrir löngu komið á, en það er ákvæðið, sem losar hjeraðslækna úti um land alveg við iðnaðaráfengið. Mjer hefir ávalt fundist, að ekki væri nema rjett, að lögreglustjórar hefðu þetta mál alveg með höndum, enda hefir það ávalt verið hjá þeim, að því leyti, að þeir hafa gefið út áfengisbækurnar. Og þá gæti komið í ljós, hversu mikið er hrúkað af læknum til lækninga og lyfja, og hversu mikið af iðnaðarmönnum; þá fyrst er hægt að tala um það, hversu læknar fari með sitt umboð.