21.02.1921
Efri deild: 5. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

32. mál, friðun rjúpna

Forsætisráðherra (J.M.):

Eins og kunnugt er, er rjúpan alfriðuð frá 1. febr. til 20. sept. ár hvert, og auk þess hina tíma ársins sjöunda hvert ár. samkv. 1. nr. 59. 10. nóv. 1913. Fyrsta árið, sem þær voru alfriðaðar, var árið 1915, og ættu þær þá að vera aftur friðaðar árið 1922. Nú í haust frjettist það úr öllum áttum, eða að minsta kosti frjetti jeg það víða að. af Suðurlandi, Vesturlandi og Norðurlandi, að varla sæist rjúpa.

Af Austurlandi hafði jeg að vísu engar frjettir um þetta, en ganga mátti að því vísu, að líkt ástatt væri þar. Um fækkun rjúpunnar má eflaust mikið kenna mikilli veiði veturinn 1918–19, en aðalástæðan er þó óvenjumiklir snjóar og hörkur tvo undanfarna vetur. Það er talið, að nokkuð mundi rjúpan hafa og fallið veturinn 1918–19, en það lítur svo út, sem hún hafi svo að segja gerfallið síðastl. vetur. Því var það, að það ráð var tekið í haust að gera rjúpuna alfriðaða þá þegar með bráðabirgðalögum frá þeim tíma sem lögin komu út, eða frá 26. nóv. f. á. til friðunarársins 1922.

Jeg vona, að háttv. deild sje mjer samdóma um, að rjett hafi verið að gera það sem gert var, og að friðuninni beri að halda til loka þessa árs. Jeg er hræddur um, að svo hefði farið, ef þetta hefði ekki verið tekið til bragðs, að gengið hefði verið allvasklega fram í því að reyna að ná í þær fáu rjúpur, sem eftir eru, og mjer er ekki grunlaust um, að eitthvað hafi verið reynt til þess, þrátt fyrir friðunina. En sjálfsagt hefir það verið í miklu minna mæli en annars hefði verið. Það er sennilegt, að þessi sjerstaka friðun og þessi mildi vetur geri það að verkum, að rjúpunni fjölgi fljótt aftur, og það gæti farið svo, að ekki sýndist þörf að halda friðuninni lengur en til hausts 1922, en það sæist þá þegar næsta vetur, og mætti láta þingið 1922 um það.

Jeg skal vekja athygli á því, að sektarákvæði þessa frv. eru nokkru harðari en ákvæði hinna almennu fuglafriðunarlaga. Það er auðvitað á valdi hinnar háttv. deildar, hvort frv. þetta skuli fara í nefnd, en varla ætti að vera þörf á því.