30.03.1921
Neðri deild: 30. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2057 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. (Jakob Möller):

Jeg ætla að taka það strax fram, að jeg ætla ekki að verða langorður í þetta sinn. Þetta frv. er í raun og veru ekkert nýtt mál; það er fram komið eftir eindregnar og endurteknar áskoranir þing eftir þing.

Málið hefir svo verið undirbúið þannig, að maður hefir verið sendur utan, til að rannsaka fyrirkomulagið í öðrum löndum og gera tillögur um það til þingsins.

Meiningin var sú, að stjórnin flytti frv., og að það varð ekki, er af því, að ekki vanst tími til þess, að stjórnin gæti athugað frv. svo rækilega fyrir þing, sem henni þótti þurfa, en ekki af því, að hún væri málinu mótfallin.

Þess vegna var peningamálanefndin beðin að taka frv. til flutnings, og þótti það sjálfsagt, að minsta kosti að láta málið koma til umræðu, af þeirri ástæðu, að á undanförnum þingum hefir verið lagt kapp á málið.

Það hefir verið svo mikið rætt um það á fyrri þingum, hve mikil nauðsyn væri á því að koma upp reglulegum fasteignabanka hjer á landi, að óþarft er nú að orðlengja um þá þörf, eða um örðugleika þá, sem á því eru að fá hentug lán út á fasteignir.

Þar við bætist, að þetta frv., sem hjer liggur fyrir, fer í raun og veru ekki í þá átt að benda á neinar nýjar og áður óþektar leiðir út úr vandræðunum. Má vera, að það valdi einhverjum vonbrigðum, ef menn hafa búist við öðru. Maður sá, sem rannsókn málsins var falin, hefir sem sje komist að þeirri niðurstöðu, að byggja verði á þeim grundvelli, sem þegar hefir verið lagður með veðdeildum Landsbankans, að dæmi annara þjóða. Fasteignabankar um heim allan starfa þannig, að þeir útvega sjer fje til útlána með því að selja vaxtabrjef, aðallega innanlands, hver í sínu landi, og ná þannig til þessara þarfa sparifje þjóðarinnar. Sömu aðferð verður vitanlega að nota hjer.

Það verður að minsta kosti ekki um það deilt, að þetta sje líklegasta leiðin. Það er fyrirsjáanlega ófær leið að afla nægilegs fjár til fasteignalána með beinum lántökum innanlands eða utan. Slík lán yrði þá að taka sem ríkislán, eins og að vísu hefir verið gert hjer. En það mætti þá eins gera í sambandi við fasteignabankann, þó að hann yrði stofnaður, eins og hjer er gert ráð fyrir, þannig, að ríkissjóður keypti heila flokka vaxtabrjefa bankans, ef erfiðleikar yrðu á að selja þau öðrum.

Eins og jeg sagði áðan, þá er ekki um neinar nýjar leiðir að ræða. Aðaltilgangur frv. er að gera veðdeild Landsbankans að sjerstakri stofnun, skilja hana frá Landsbankanum, auka hana og endurbæta og gera úr henni „Ríkisveðbanka Íslands“. Þetta kann mönnum máske ekki að virðast vera mikilsvert eða mjög aðkallandi. En peningamálanefndinni fanst þetta einmitt mjög þýðingarmikið atriði. Þó var nefndin ekki öll sammála um frv. Einn nefndarmanna var mótfallinn því, að frv. væri flutt, og mun aðalástæðan til þess sú, að hann álítur ekki tímabært að gera þessa breytingu nú, en hins vegar geti veðdeild Landsbankans ófráskilin í bráðina gert hið sama gagn eins og þessi fyrirhugaði fasteignabanki. En meiri hluti nefndarinnar telur samband bankans og veðdeildarinnar óheppilegt, heldur því fram, að því sambandi beri að slíta hið bráðasta. Landsbankinn hefir svo gerólíkum störfum að sinna, og dagleg störf bankans gera svo miklar kröfur til stjórnar bankans, að veðdeildin hlýtur að verða útundan.

Veðbanki krefst aftur á móti af sinni stjórn, að hún sje vakin og sofin í starfinu, sjerstaklega í byrjun. Og það geta allir sjeð, hvað það starf muni vera mikið, þurfi og geti verið mikið, ef verulega rækt á að leggja við það að fá almenning til þess að leggja fje sitt í vaxtabrjefin, sjerstaklega í byrjun, auk þess, sem þarf til þess að geta fengið yfirlit yfir þær fasteignir, sem sækja um lán, eða hafa áður fengið lán.

Þá er og á það að líta, að í raun og veru er bankinn og veðdeildin eða fasteignabankinn keppinautar, því að þeir hljóta báðir að sækjast eftir að ná undir sig sparifje almennings. — Það verður að gera ráð fyrir, að veðbanki byggi aðallega eða eingöngu á því að fá rekstrarfje af sparifje manna. Almennir viðskiftabankar sækjast auðvitað líka mjög eftir því. Og allir vita, að einmitt sparisjóðsfjeð er aðalrekstrarfje Landsbankans, og er því auðsætt, að bankastjórninni hlýtur að vera það lítið áhugamál að fá menn einmitt til þess að kaupa vaxtabrjef veðdeildarinnar, heldur en að leggja fje sitt í sparisjóð bankans. Það er á hinn bóginn ekki saman berandi, hvort heppilegra sje, að veðbanki eða almennur viðskiftabanki fái sparifje manna til ávöxtunar. Almennur viðskiftabanki á miklu hægra með að afla sjer rekstrarfjár, vegna þess, að hann lánar fje út aðeins til stutts tíma og getur greitt hærri vexti heldur en veðbankinn.

Nú, það má nú gera ráð fyrir því, að menn muni segja, að þessu máli liggi ekki á á þessu þingi. En jeg sje á hinn bóginn enga ástæðu til að bíða, heldur þvert á móti get búist við því, að biðin verði til skaða, því að það er margreynt, að á slíkum fjárkrepputímabilum eins og vjer nú lifum á, þegar enginn veit í raun og veru hvaða fyrirtækjum má treysta, þá eru menn fúsari en ella til að koma fje sínu á vöxtu, með því að kaupa örugg verðbrjef, sem fullkomin trygging er fyrir. Þess vegna þarf veðbankinn að vera viðbúinn að nota sjer þá tilhneigingu, sem kann að koma fram hjá þeim, er fjeð hafa. Ef því er slegið á frest, þá getur þessi alda verið gengin hjá, áður en bankinn kemst á stofn, og byrjunin orðið erfiðari fyrir bragðið. Og auk þess, sem jeg áður hefi sagt um aðalbreytinguna frá núverandi fyrirkomulagi, að skilja veðdeild Landsbankans frá bankanum, þá eru jafnframt í frv. gerðar ýmsar mikilvægar breytingar á fyrirkomulaginu, og verksviðið verður eftir því víðtækara en verksvið veðdeildarinnar, og því fremur ástæða til þess að flýta fyrir málinu, sem líkur eru meiri til þess, að hinn fyrirhugaði banki geti betur fullnægt þeim kröfum, sem til slíkrar stofnunar eru gerðar, heldur en veðdeildin.

Það er nauðsynlegt, þegar stofna á slík fyrirtæki, að hugsa sjer verksviðið þannig, að það get í orðið til frambúðar, svo að ekki þurfi að gera breytingar á aðalatriðunum á verksviði bankans í neinni nálægri framtíð. Og samkvæmt því er starfssvið bankans markað í 1. gr. frv. Jeg skal að þessu sinni aðeins benda á það, að í 2 liðunum er gert ráð fyrir lánveitingum til fyrirtækja, sem ekki verður lánað til samkvæmt lögum veðdeildarinnar. Þó að lítið hafi verið gert að slíkum fyrirtækjum enn, þá er þörfin fyrir slíkar lánveitingar fyrirsjáanleg, jafnvel í stórum stíl, í nánustu framtíð. En aðalatriðið, sem um er að ræða, er það að afla rekstrarfjárins. Og það, sem fyrst og fremst verður að líta á í því sambandi, er það, að menn aðeins hugsa um sinn hag, og fjárins verður því ekki aflað, nema menn sannfærist um það, að þeim sje hagur í því að leggja fje sitt einmitt í þetta fyrirtæki, fremur en önnur. Og í sambandi við þetta skal jeg aðeins benda á eitt nýmæli í frv. þessu, sem líklegt er til þess að gera mönnum ljúfara að leggja fje í bankann. Það er útgáfa happvinningabrjefanna, sem bankanum er heimiluð. Háttv. þingmenn þurfa ekki að óttast, að hjer sje um neina ósæmilega fjárglæfra að ræða!

Það er getið um það í greinargerðinni, sem frv. fylgir, að þessi aðferð hafi verið viðhöfð í Frakklandi um tugi ára og gefist þar vel.

Það er mjög líklegt, að þessi aðferð reynist einnig vel hjer til þess að fá menn til að leggja fje sitt í stofnunina, og þá ekki síst einmitt fyrst í stað, meðan menn eru að venjast því að ávaxta fje sitt á þennan hátt og kynnast stofnuninni.

Það er öll byrjun erfið, en þegar fyrstu erfiðleikarnir eru yfirstignir og menn eru farnir að kynnast stofnuninni, má búast við, að það gangi greiðara að fá fje til starfrækslu hennar. Það er að vísu svo, að veðdeildarbrjef hafa verið hjer á boðstólum fyrir almenning um alllangan tíma, en salan tekist illa. Almenningur kýs heldur að hafa fje sitt á vöxtum með sparisjóðskjörum en að kaupa þau. En það hefir líka bókstaflega ekkert verið gert til að fá menn til að kaupa þessi brjef. Þess vegna verður ekkert ráðið af þeirri reynslu. En það þarf vafalaust að leggja allmikla vinnu í það að fá almenning til að ávaxta fje sitt á þennan hátt. Og það tel jeg vera eitt af því, sem mest rekur á eftir því, að veðdeildin verði skilin frá Landsbankanum. Og það hefir ekki aðeins þá þýðingu að fá fje til fasteignalána, heldur á það líka að verða til þess að fá fólkið til að „geyma vel fengins fjár“. Er mjög líklegt, að happvinningabrjefin reynist vel í því efni, eins og þau hafa reynst vel annarsstaðar.

Jeg ætla ekki að fara út í einstök atriði frv. á þessu stigi málsins; það á ekki við, enda skal jeg játa það, að jeg er ekki við því búinn. Að þessu sinni ætlaði jeg aðeins að gera grein fyrir aðalefni frv., í sambandi við það ástand, sem nú er.

Nefndin gerir að sjálfsögðu ráð fyrir því að hafa málið til athugunar áfram, og mun áskilja sjer rjett til að koma með breytingartillögur við einstök atriði þess, að minsta kosti sá hluti nefndarinnar, sem ekki vildi fallast á að taka frv. til flutnings. En þó að nefndin hafi ekki látið fylgja frv. neitt ítarlegt nefndarálit, þá sjer hún ekki ástæðu til þess, að frv. verði beinlínis vísað til hennar aftur, eða neinnar annarar nefndar, og það því síður, sem frammi á lestrarsalnum liggur ítarleg greinargerð og athugasemdir við það, eftir höf. frumvarpsins. Geri jeg ekki ráð fyrir, að nefndin þykist hafa þar neinu við að bæta, málinu til skýringar. En það er þó, eins og áður er sagt, alt til athugunar til næstu umræðu.

Jeg vænti þess því, að að þessu sinni þurfi ekki að verða frekari umræður um málið, og að því verði vísað til 2. umr.