30.03.1921
Neðri deild: 30. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg varð ekki lítið hissa, þegar jeg sá, að þessu frv. hafði verið útbýtt og tekið aftur á dagskrá. Mjer var ekki kunnugt um, að peningamálanefndin hefði tekið afstöðu til frv., og því fremur varð jeg hissa, sem meiri hluta nefndarinnar er kunnugt um, að jeg er ekki fylgjandi frv. eins og það er. Mjer kom það líka ennþá kynlegar fyrir, að það var tekið út af dagskrá í gær til þess að ákveða flutning á því, og hefir þá meiri hlutinn, eða 3 menn úr nefndinni, tekið það til fósturs.

Ef jeg hefði búist við því, að það kæmi svona alt í einu frá nefndinni, mundi jeg hafa skrifað greinargerð fyrir áliti mínu og látið hana fylgja því; en því var ekki að heilsa. Mjer finst þetta því alleinkennilegur flutningur, og er nefndinni lítt þakklátur fyrir það. Jeg vil þó taka það fram, að þetta er ekki meint til háttv. frsm. (Jak. M.), því að það mun hafa komið honum jafnóvart og mjer, að málið var tekið á dagskrá í fyrradag. Jeg vildi svo leyfa mjer að fara örfáum orðum um frv. og aðalstefnur þess. Jeg skal þá byrja á því, að frv. er samið af manni, sem unnið hefir að því með alúð í heilt ár og gefið góða skýrslu um starf sitt, og þá einkum um tilhögun á slíkum veðlánsstofnunum erlendis, enda er aðalgalli frv. sá, að algerlega er farið eftir erlendum fyrirmyndum, en lítið reynt að laga eftir okkar þörfum og staðháttum.

En það er ekki alveg eins ástatt hjá okkur og í útlöndum, þar sem altaf er nóg fje fyrir hendi og altaf hægt að selja verðbrjef.

Jeg get ómögulega fallist á það, sem hv. frsm. (Jak. M.) heldur fram, að tíminn til stofnunar bankanum sje heppilegur einmitt nú. Vegna fjárhagsörðugleika almennings getur ekki verið um það að ræða, að fólk festi sparifje sitt í verðbrjefum. Fáir eru þeir, sem geta lifað á aflafje sínu einu saman, og þykir gott, ef spariskildingarnir hrökkva til að greiða mismuninn. Það er því mjög ólíklegt, að fólk festi spariskildingana í verðbrjefum, og það því fremur, sem sparifje landsmanna hlýtur að minka að mun á þessu ári.

Þá er og rjett að athuga það, að mikill fjöldi þeirra manna, sem áttu stærri fjárhæðir í sparisjóði, hafa ráðist í fyrirtæki, sem nú standa höllum fótum, og fullvíst í fjölmörgum tilfellum, að þessir menn eru að tapa eða búnir að tapa miklu eða öllu sparifje sínu.

Jafnvel þó þessar upphæðir sjeu ennþá á sparisjóðskonto, þá eru þær bundnar til tryggingar framleiðslulánum, og ganga til greiðslu á tapi þegar minst varir.

Hvar er það sparifje, sem menn hafa nú umfram daglegar þarfir, ef atvinnuleysi verður, þó ekki sje nema um lítinn tíma?

Svo munu menn og sannfærast um, hve óheppilegt er að stofna veðbanka meðan vextir eru svona háir af innlánsfje, þar sem menn fá 5–51/2% og jafnvel 6% af 6 mánaða innlánsskírteini. Það má nærri geta, hvort menn færu þá að kaupa veðbrjef til 25–30 ára, nema þau gefi þá svo miklu hærri vexti en nú er af innlánsfje í bönkum. Jeg sje ekki betur en með því að stofna veðbanka yrðu menn að setja vextina svo háa, að stórt óhagræði yrði fyrir landsmenn. Veðbrjefin mundu ekki seljast, nema þau gæfu 61/2% eða þau væru seld með afföllum. Ef þau væru upp á 51/4% og væru seld á 90% af ákvæðisverði, þá bæri alt að sama brunni, hvort þeir borguðu 10% afföll af láninu eða borguðu 1/2–3/4 hærri vexti árlega.

Háttv. frsm. (Jak. M.) segir aðaltilgang með þessu frv. vera að aðskilja veðdeildina frá Landsbankanum og að meiri hl. peningamálanefndar finnist þetta þýðingarmesta atriði frv.

Þetta mun rjett vera, þó ótrúlegt sje.

Hefir háttv. meiri hl. þá ekki athugað, að þetta mætti verða á einfaldari og kostnaðarminni hátt?

Jeg vil geta þess, í sambandi við þál. 1919, að þá var skorað á stjórnina að koma upp lánsstofnun, sem væri sjerstaklega fyrir landbúnaðinn. Allir vita, að alveg sjerstök þörf er á handhægum löngum og ódýrum lánum, til þess að efla ræktun landsins. En stjórnin hefir tekið skrefið fyllra, svo sem sjá má af greinargerð frv., og gefið þeim manni, er frv. samdi. umboð til að rannsaka og gera tillögur um veðbanka fyrir alla atvinnuvegi, húsabyggingar o. fl. Jeg er ekki á móti því, að bankinn yrði jafnframt fyrir húsabyggingar og aðrar framkvæmdir, en hitt vil jeg undirstrika, að jeg tel heppilegra, að landbúnaðurinn fái sjerstaka deild í bankanum, og þá einkum til jarðræktarlána.

Þeir sjóðir, sem eiga að hverfa inn í þennan banka, eru aðallega til þess að styðja landbúnaðinn, og eru þau lán ódýr, það sem þau ná. En sjóðirnir eru ekki í handbæru fje; þeir eru bundnir í útlánum, og þess vegna þyrfti að afla bankanum, eða jarðræktardeildinni, rekstrarfjár. Það er ætlast til, að svo verði gert með sölu bankavaxtabrjefa, en þau brjef mundu lítið seljast nú, og ekki nema með háum vöxtum eða miklum afföllum. Lán bankans yrðu þess vegna mun dýrari en sjóðanna nú.

Ræktunarsjóðurinn er eingöngu ætlaður til landbúnaðarlána, og er sama að segja um kirkjujarðasjóð. Hann er til þess að lána þeim fje, sem keypt hafa jarðir af ríkinu, og þá vitanlega í því skyni, að þeir rækti jarðirnar. Þessi sjóður er, þegar bundinn í bankavaxtabrjefum, og jafnóðum og eitthvað er afborgað, er það fest á sama hátt. Viðlagasjóður er að mestu leyti fyrir sýslu-, bæjar- og hreppsfjelög, og væri óviðkunnanlegt að binda hann í veðbanka, því altaf má gera ráð fyrir, að stjórn og þingi berist lánbeiðni frá sýslum, kaupstöðum og hreppum, og verður þá að bregðast skjótt við. Það getur hver og einn sagt sjer sjálfur, að þessum lánþiggjendum er enginn hagur í því að fá bankavaxtabrjef, nema því aðeins, að hægt sje að koma þeim í peninga. Það þarf að vera markaður fyrir brjefin, en jeg óttast, að svo verði ekki, eftir því útliti, sem nú er. Það má þess vegna ekki festa viðlagasjóð í veðbanka, fyr en vissa eða miklar líkur eru fyrir því, að brjefin geti selst.

Eins og nú standa sakir, lánar ræktunarsjóður út með 4%, og kirkjujarðasjóður hefir sömu vexti, eða 1/2% hærri. Ef þessir sjóðir yrðu lagðir undir veðbanka, yrðu vextir að hækka upp í 6% eða 61/2%. Af þeim ástæðum verð jeg að telja breytinguna óheppilega, og þykist hafa fært full rök fyrir því, að vaxtabrjefin mundu seljast lítt eða ekki. Nú eru sjerstakir tímar, háir vextir og lítið um peninga, og þess vegna getur ekki selst nema örlítið af brjefum. Það er rjett að láta þessa breytingu bíða, þar til eðlilegir tímar og eðlilegir vextir eru aftur á komnir. Þá verður hægt að selja brjefin með skynsamlegum vöxtum; en það eitt tel jeg skynsamlega fasteignavexti, sem ekki eru hærri en 5%.

Þá má eins á það líta, hvort ekki mundi heppilegra að stofna þennan banka með erlendu láni, og taka fremur tapið af vöxtunum heldur en að leggja þessa sjóði undir bankann og fá af þeim vaxtatap 2%, eða sem nemur yfir 70 þús. kr. á ári í tapi fyrir ríkissjóð. Væri ekki ráðlegra að taka lán erlendis, sem svarar 2–3 milj. kr. til þessarar bankastofnunar? Ríkissjóður greiðir í vaxtatap 70–75 þús. kr. árlega í 10 ár, ef sjóðirnir eru teknir, eins og ráð er gert fyrir í þessu frv. Af 2–3 milj. kr. erlendu láni mundi hann greiða vaxtamismun, sem þó ekki næmi meiru, þó útlánsvextir veðbankans væru settir lægra en sýnilegt er, að þeir verða með hinu fyrirhugaða fyrirkomulagi. En þá væri um leið greitt úr erlenda gjaldeyrisskortinum að talsverðum mun, og þar með náð tveim takmörkum, aukinn erlendur gjaldeyrir og komið í veg fyrir að festa innlendan gjaldeyri, sem síst er of mikill nú.

Háttv. frsm. (Jak. M.) hjelt, að hægt mundi að selja brjefin innanlands, en um það verð jeg að efast. Jeg veit það, að þegar ríkislánið var boðið út í vor, var gerð mikil tilraun til þess fyrir vestan að fá menn til að leggja fram fje; allir helstu peningamenn voru til þess hvattir, en þeir vildu ekki láta fjeð, bjuggust við að þurfa á því að halda sjálfir. Þetta kom líka á daginn; fjeð, sem þá var laust, er nú annaðhvort fast í fyrirtækjum eða tapað að nokkru leyti.

Þá vil jeg benda á eitt atriði enn, sem ekki mælir með stofnun veðbankans. Rekstrarkostnaður sjóðanna er mjög lítill, eins og fyrirkomulag þeirra er nú, líklega um 2000 kr.; en hvað verður rekstrarkostnaður veðbankans, sem þó verslar með sama fje? Sennilega tífalt meiri.

Jeg verð þess vegna að vera á móti stofnun veðbanka, og það aðallega af þremur ástæðum, sem jeg hefi tekið fram, en vil nú undirstrika.

Fyrsta ástæðan er sú, að ekki er útlit fyrir, að hægt verði að selja brjefin. Önnur ástæðan sú, að útlánsvextir hljóta að hækka mikið frá því, sem vextir sjóðanna nú eru; og þriðja ástæðan er sú, að fyrirkomulag og stjórn bankans eykur kostnað frá því, sem nú er, en hvorki starfsfje nje hagræði fyrir lánþega. Á þetta síðasta atriði legg jeg enga aðaláherslu, þó ekki megi ganga fram hjá því með öllu. En hin atriðin gera úrslitin.

Jeg hefi, að jeg vona, fært full rök fyrir því, að vaxtabrjefin munu seljast lítt eða alls ekki. Það dugir ekki að benda á aðrar þjóðir, til þess að reyna að hnekkja þessu, því að þar er öðruvísi ástatt. Þar er mikið af stóreignamönnum, sem geta lifað af vöxtunum af eignum sínum eingöngu, og eru því fegnir að geta sett fje sitt í trygg bankavaxtabrjef, eða önnur verðbrjef með ákveðnum vöxtum. Aðallega eru þetta fulltíða menn, sem vilja gjarnan draga sig út úr viðskiftalífinu. Atvinnufyrirtæki eru ótrygg, og því hættulegt að leggja fje í þau, og þá kjósa þeir heldur bankavaxtabrjefin. En hjer er öðru máli að gegna. Við eigum enga slíka stórefnamenn, og sparisjóðsinneign manna getur varla kallast annað en spariskildingur, sem altaf þarf að grípa til öðru hvoru, og menn þora því ekki að binda í bankavaxtabrjefum.