30.03.1921
Neðri deild: 30. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (2279)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Eiríkur Einarsson:

Það var upphaflega ekki ætlun mín að ræða málið við 1. umr. þess, en vegna framkominna ummæla ýmsra háttv. þm. leyfi jeg mjer að gera örfáar athugasemdir.

Það var tilætlun meiri hl. peningamálanefndar að reifa svo málið að þessu sinni, að það gengi umræðulítið til 2. umræðu; en út af því hefir nú brugðið, og verður því að fara nánar út í málið en ástæða hefði ella til orðið. Einhver hv. þm. gat þess, að málið kæmi undirbúningslítið frá nefndinni, og auk þess væri það einkennilegt, að svo virtist sem nefndin bæri frv. fram óklofin, en þegar til kastanna kæmi, væri að minsta kosti einn nefndarmanna á móti því.

Það er rjett, að nefndin kom fram sem óklofin, en það stafaði af því, að einn háttv. nefndarmanna, háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) gerði ekki ágreining fyr en á síðustu stundu, og álitum við því eigi saka, þótt frv. væri borið fram í nafni peningamálanefndar óskiftrar, ef það gæti orðið til þess að flýta fyrir því, og vitandi, að þessum háttv. þm. stóð sú leið opin að gera sínar athugasemdir við frv. samtímis og það var framborið, og ná með því sama árangri eins og hann hefði náð með því að skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara.

Annars eru þetta lítilháttar formsatriði, og eigi til þess að fjölyrða um, enda er líka þessi háttv. nefndarmaður búinn að koma fram með athugasemdir sínar og leiðrjettingar. Hvað því viðvíkur, að greinargerð frv. sje stutt, þá er því til að svara, að fyrir mjer vakti, að það væri nokkurskonar formleg skylda peningamálanefndar að bera frv. fram, en hins vegar væri það eigi verkefni hennar að semja langa greinargerð, þareð málið hefir fengið rækilegan undirbúning og mjög fullkomna greinargerð frá hendi manns þess, sem unnið hefir að frv. og falið var að gera það af hæstv. stjórn. Hefir hann unnið að því undir hennar handleiðslu og í hennar anda, svo að frá henni má sjálfsagt vænta mikils trausts í þessu máli, þó að henni, sökum þess hvað málið varð síðbúið, auðnaðist eigi að bera það fram, og það yrði því hlutskifti peningamálanefndar að gera það.

Einn hv. þm. taldi rjettast að vísa málinu aftur til peningamálanefndar. Þetta er misskilningur, því að málið er enn hjá nefndinni til athugunar og breytinga, ef svo sýnist, og skal jeg taka það fram þegar, að jeg mun gera brtt. við einstök atriði frv., sem jeg felli mig eigi við, þó jeg hins vegar sje frv. yfirleitt eindregið fylgjandi og vilji, að það nái fram að ganga nú í öllum aðalatriðum.

Um það atriði, hvort heppilegra muni að bankarnir sjeu tveir, annar fyrir landbúnaðinn og hinn fyrir húseignir í kaupstöðum, þá er það auðvitað álitamál. Hefði jeg talið að mörgu leyti ákjósanlegra, að þeir væru tveir, en á því eru þó örðugleikar, og reynslan hefir orðið sú í Svíþjóð, þar sem því var þannig fyrirkomið, að slíkir bankar hafa orðið hver öðrum hættulegir keppinautar, og sama gæti orðið uppi á teningnum hjer, enda þótt, eins og jeg hefi áður tekið fram, það væri að ýmsu leyti ákjósanlegra, að landbúnaðurinn hefði sinn sjerstaka banka.

Að þessu sinni vil jeg eigi fara að ræða efni frv. Aðeins vildi jeg biðja háttv. þm. að hugsa sig um tvisvar, áður en þeir gera út af við frv., því aðaltilgangur þess er sá að koma á fót öruggri og öflugri lánsstofnun, sem lánaði fje gegn veði í fasteignum og hefði sjerstaklega landbúnaðinn fyrir augum. Eitt af þeim kvalræðum, sem landbúnaðurinn á nú við að stríða, eru lánskjörin, sem nú er um að ræða. Ekki um annað að ræða hjá leiguliðum o. fl. en sjálfskuldarábyrgðarlán, eða þá það, sem er enn verra, víxillán, og þau eigi nema til stutts tíma og með erfiðum vaxtakjörum. Hjer er um heiðarlega og lofsverða viðleitni að ræða, að lengja lánstímann og lækka vextina, með því að sameina smáar og dreifðar lánsstofnanir. Er þetta eitt svo þýðingarmikið, að tæpast má dragast.

Af þessum ástæðum er jeg á móti hinni rökstuddu dagskrá um að vísa málinu til stjórnarinnar. Stjórninni hlýtur nú þegar að vera málið vel kunnugt, því að hún hefir unnið að því og falið manni að rannsaka samskonar fasteignalánsstofnanir í öðrum löndum, og síðan hefir hún að sjálfsögðu fylgst vel með málinu og verið vakandi, og því engin hætta á því, að þingið komi að tómum kofunum hjá stjórninni þar. Hins vegar er þetta mál svo mikils vert að það borgaði sig vel, að 30–10 smáfrumvörpum, sem liggja fyrir þessu þingi, og mörg hver eiga þangað ekkert erindi, væri slátrað tafarlaust, svo tími ynnist til að beita kröftunum sem best að þessu nauðsynjamáli, — ef það annars kynni að þykja of dýrt að lengja þingtímann til þess að ráða því til lykta.