30.03.1921
Neðri deild: 30. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (2280)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Bjarni Jónsson:

Jeg hafði eigi ætlað að skeggræða málið að þessu sinni. Taldi sjálfsagt, að því yrði vísað orðalítið til 2. umr. Vil jeg því aðeins víkja nokkrum orðum að hinni rökstuttu dagskrá frá hv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Ætla jeg, að honum sje það jafnkunnugt og mjer, að undanfarið hafa komið fram málaleitanir um stofnun þessa, ýmist í frumvarpsformi eða þá í þingsályktunartillögu, eins og á síðasta þingi, og háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) vildi eigna sjer. Er það líka rjett, að hann kom með hana og einskorðaði hana við landbúnaðinn. en það má telja stjórninni til hróss, að hún hefir snúið till. þm. til betri vegar, með því að hirða eigi um takmörkunina, en látið rannsókn fram fara á því, hvort þess væri kostur að stofna veðbanka fyrir fasteignir landsins. Fyrir þetta á því stjórnin engar hnútur skilið frá þessum stuðningsmanni sínum. Hún hefir farið rjett að. Sje jeg það á verki Böðvars Jónssonar, að henni hefir valið vel hepnast, því að óvanalega vel er þetta verk unnið. Er það því ærið óviðeigandi að koma fram með rökstudda dagskrá við 1. umr. málsins, og eru verk þeirra Böðvars Jónssonar og þessa háttv. þm. (S. St.) ærið ólík.

Þá taldi þessi háttv. þm. (S. St.) greinargerðina altof stutta. Veit hann þá eigi, að frammi á lestrarsal liggja 2 þykk bindi um málið eftir Böðvar Jónsson? Hygg jeg að þó að hann athugaði málið til næsta þings, þá fengi hann litlar vitranir.

Er það líka sannast sagt, að hjer skortir eigi greinargerðina, því að önnur betri hefir hjer eigi áður framkomið, nema ef til vill frá milliþinganefndum, og mun þó þessi fyllilega jafnast á við þær.

Má það því einkennilegt heita, að þessi háttv. þm. (S. St.), skyldi gera það að tillögu sinni að vísa málinu aftur til nefndarinnar, því verk hennar var það aðeins að vísa þm. á fylgiskjölin, því að óþarft sýnist að krefjast þess af nefndinni, að hún færi að gera útdrátt úr þeim; virðist svo, sem þm. geti gert það sjálfir.

Sami háttv. þm. (S. St.) sagði einnig, að það hefði verið fljótræði að bera málið fram áður en stjórnin hefði athugað það. Jeg tel það fljótfærni af hv. þm. (S. St.) að halda því fram, að stjórnin hafi ekki hugsað málið, og hygg jeg, að hún kunni honum litlar þakkir fyrir þessi brigsl, því að lítinn vafa tel jeg á því, að háttv. stjórn hefir grandhugsað málið og er albúin að fylgja því.

Annars er það einkennilegt, að nokkur skuli vera svo illviljaður landbúnaðinum, að hann skuli ekki vilja leyfa þinginu að ræða frv. Þarf til þess sjerstakan illvilja, og má það undarlegt heita, að hann skuli koma frá þeim, sem ætíð hafa velferð landbúnaðarins á vörunum og þykjast vera þar með lífi og sál. Þætti mjer ekki ólíklegt, þó að kjósendunum þætti stuðningurinn nokkuð einkennilegur hjá þessum alkunna búforki, er hann gerði það fyrst að tillögu sinni að vísa málinu til nefndar, en fjekk svo nýja opinberun meðan hann talaði, og bar þá fram rökstuddu dagskrána, með það í huga að verða með því málinu að fjörlesti

Annars er það dálítið einkennilegt, að alt, sem kemur á þetta þing og fengið hefir góðan undirbúning, eins og t. d. berklavarnafrv., því á að fresta. Þetta frv. á að sæta sömu afdrifum, af því að undirbúningur þess er svo góður, jafnvel gerð tilraun að drepa það við 1. umr. Hjer eftir verður því það ráð tekið, ef menn vilja einhver nauðsynjamál feig, að láta þau fá sem bestan undirbúning.

Sparnaður þessa háttv. þm. (S. St.) í þessu máli er því falinn í því að láta vinna að lagafrv. með miklum tilkostnaði millum þinga, prenta síðan langa lagabálka og hafa þá til meðferðar þing eftir þing, án þess að gera nokkuð í málinu, aðeins til þess að veðbankinn komi ekki of fljótt að notum.

Hygg jeg nú, að þetta, sem jeg nú hefi látið ummælt, sjeu hæfileg meðmæli með dagskránni og sýni það, hvernig jeg muni greiða atkvæði um hana.