30.03.1921
Neðri deild: 30. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2091 í B-deild Alþingistíðinda. (2284)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Sigurður Stefánsson:

Við umræðurnar hjer hefir afstaða nefndarinnar að ýmsu leyti skýrst. Eins og málið var lagt fram í upphafi, virtist nefndin hafa gengið frá því til fullnustu þá. En þar sem málið er svo stórt og annir miklar á þingi, þótti mjer ekki rjett, að hrapað verði að undirbúningi þess, og þess vegna kom jeg með dagskrána, að jeg áleit, að málið gæti ekki orðið afgreitt á þessu þingi, eins og sakir standa. En til þess rak mig enginn „illvilji“ í málsins garð, eins og háttv. þm. Dala. (B. J.) hjelt fram, eða „illvilji“ í garð landbúnaðarins. Þau ummæli kenna bæði illvilja og heimsku frá hans hálfu í þessu máli. Og þótt jeg virði þann háttv. þingmann ekki svars frekar, mun jeg óhræddur geta beðið dóms á því, hvor okkar hafi meira gert fyrir íslenskan landbúnað, í orði og verki, jeg eða hann. Hins vegar get jeg að þessu sinni gert það ýmsum háttv. þingmönnum til geðs, sem viturlegar og sanngjarnar hafa talað en háttv. þm. Dala. (B. J.), að biðja hæstv. forseta þess, að dagskrá mín komi ekki til atkvæða nú, þótt jeg sje á þeirri skoðun, eins og háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.), að tíminn til slíkrar bankastofnunar sje ekki sem heppilegastur nú, þó hugmyndin sje annars góð, sje henni í framkvæmdinni haldið innan þeirra takmarka, sem áskoranir fyrri þinga hafa sett. Jeg tel mjög tvísýnt, að þessi bankastofnun verði landbúnaðinum að nokkru verulegu gagni með því fyrirkomulagi, sem henni er ætlað með frv.