30.03.1921
Neðri deild: 30. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. (Jakob Möller):

Jeg þarf í rauninni ekki mörgu að svara, og sjerstaklega ekki háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), þar sem hann hefir nú tekið dagskrá sína aftur. Þó skal jeg taka það fram, að jeg get ekki, af skiljanlegum ástæðum, lagt eins mikla áherslu á það og hann, að nauðsynlegt sje, að slík mál sem þetta komi endilega frá stjórninni, enda tæpast að búast við miklum umbótum úr þeirri átt, ef að vanda lætur.

Um afstöðu háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), sem mjer skildist nú helst vera orðinn alveg á móti málinu, og háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) vil jeg geta þess, að í nefndinni ljetu þeir það ekki í ljós, að þeir ætluðu að leggjast alveg á móti frv. Háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) sagðist hins vegar mundi koma með einhverjar brtt., en annað ekki, að mjer skildist. Og vel vissu þeir það báðir, löngu áður en málið kom á dagskrá, að meiri hlutinn ætlaði að taka það til flutnings.

Þá kem jeg að ræðu háttv.3. þm. Reykv. (J. Þ.), og er jeg ekki viss um, að allir háttv. deildarmenn hafi þar getað fylgst með. Hann lagði mikla áherslu á það, að landbúnaðinum væri útvegað lán til stutts tíma, til ræktunar og annara jarðabóta, og þá sennilega án veðtryggingar.

Það liggur nú í hlutarins eðli, að þegar um veðbanka, fasteignaveðbanka, er að ræða, þá koma yfirleitt ekki til mála aðrar lánveitingar en þær, sem fasteignaveð er boðið til tryggingar fyrir. En jeg hygg nú, að háttv. þm. (J. Þ.) hafi ekki athugað frv. nógu rækilega, því að ella hefði hann verið búinn að sjá, að fyrir öllum þeim tegundum jarðabóta- eða ræktunarlána, sem hann taldi upp, er ráð gert í frv., svo framarlega sem um fasteignaveðslán er að ræða. Lánin geta verið til langs tíma eða stutts tíma, eftir því sem hver óskar. Þau geta verið stór eða smá, eftir því sem við á. í frumvarpinu er einmitt líka gert ráð fyrir lánum, sem útborgist smátt og smátt, o. s. frv.

Yfirleitt er reynt að gera ráð fyrir sem margbreytilegustum lánveitingum, og jafnvel sjerstökum lánsfjelögum, sem starfi í sambandi við bankann, sbr. 18. gr. frv.

Þá er og líka gert ráð fyrir því, að hægt sje að fá smálán til skemmri tíma, gegn lakari tryggingu, en auðvitað með hærri vöxtum.

Jeg hygg nú, að ef háttv. þm. vildu athuga frv. sjálft, og gæfu sjer tíma til að lesa athugasemdirnar, sem því fylgja, rækilega, að þá myndi þeim ekki þykja svo varhugavert að afgreiða málið þegar á þessu þingi.

Jeg skal taka það fram, að jeg, fyrir mitt leyti. hefi ekki fundið neitt atriði, sem mjer virðist þörf á að breyta. Vil þó ekki þar með segja, að útilokað sje, að jeg geti fallist á einhverjar breytingar, eða öðlast æðri og betri þekkingu við nánari athugun þessa máls.

Það, sem hæstv. fjrh. (M. G.) drap á, að landbúnaðurinn væri trygður með sjerstöku ákvæði í frv., til að hafa fyllileg not stofnunarinnar, í hlutfalli við það, sem hann legði til, þá virðist mjer þess ekki þörf, því að ríkisstjórnin hefir umsjón með stofnuninni, semur reglugerð handa henni og skipar stjórn hennar, og getur yfir höfuð haft hönd í bagga með starfsemi hennar, og ætti ekki frekari tryggingar að vera þörf, eftir því sem til hagar hjer á landi.

Við háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) erum ósammála um margt, og skal jeg ekki fara út í þá sálma nú á ný. En hann hafði ekki rjett eftir mjer um erfiðleikana á að selja vaxtabrjefin. Jeg álít, að gera megi mikið til þess að koma út brjefunum, og miklu meira en gert hefir verið. Jeg hefi ekki orðið þess var, að hann hafi bent á neina aðra tiltækilega aðferð til veðbankastofnunar en þá, sem hjer er um að ræða, sem sje að byggja algerlega á sölu bankavaxtabrjefa. Þetta er sú aðferð, sem notuð er um allan heim, og meðan ekki er bent á aðra betri, verðum við væntanlega að sætta okkur við að fara að dæmi annara þjóða.

Annars tel jeg enga þörf að fara lengra út í þetta mál nú, en held því fram, að tímarnir sjeu hentugir til þess að stofna slíkan veðbanka.