07.03.1921
Efri deild: 16. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

32. mál, friðun rjúpna

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Nefndin hefir fallist á frv., það sem það nær, en kemur fram með breytingu við það, sem getur um á þskj. 94.

Eins og kunnugt er, þá er friðun rjúpna frá 1. febr. til 20. sept. árlega, og auk þess sjöunda hvert ár, miðað við almanaksárið, en þetta fanst nefndinni miður heppilegt, af sömu ástæðum og bent var á hjer í hv. deild við 1. umr. Það er bæði óeðlilegt, og nær auk þess ekki markmiði sínu, því að með því móti eru rjúpur aldrei friðaðar heilan vetur. Það er bæði eðlilegra og álitlegra til góðs árangurs, að friðunarárið sje fastbundið við þann tíma, sem brtt. nefndarinnar fer fram á.

Það komu, með rjettu, fram raddir um það við 1. umr., að rjúpum mundi hafa fækkað mjög á síðastliðnu ári, bæði af völdum manna og náttúrunnar, og er því fremur ástæða til að ganga svo frá frv. þessu, að friðunarlögin komi að sem bestum notum. Brtt. má einnig telja það til gildis, að verði hún samþ., ljettir það eftirlitið með því, að lögum þessum sje hlýtt, og þó að eftirlitið kunni að vera talið röggsamlegt nú, getur það sjálfsagt staðið til bóta.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni, en mælist til þess, fyrir hönd nefndarinnar, að frv. nái fram að ganga, með brtt., og verði svo vísað til 3. umr.