14.04.1921
Neðri deild: 43. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (2302)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. (Jakob Möller):

Meiri hl. nefndarinnar hefir ekki fundið neina ástæðu til þess að leggja fram sjerstakt nefndarálit, þar sem svo ítarleg greinargerð fylgir frv. frá höf. þess. En hjer er komið nál. frá minni hl. nefndarinnar, og ætla jeg þá að byrja á því að athuga það.

Í þessu nál. háttv. minni hl. er ekki neitt nýtt; þar er ekki annað en það, er þessir háttv. nefndarmenn (J. A. J. og P. Þ.) sögðu við 1. umr. málsins. Aðalástæðan, sem þeir færa fram móti frv., er sú, að þeir vilja ekki festa ræktunarsjóðinn í bankanum sem stofnfje. Og í öðru lagi segja þeir raunar, að frv. fari ekki í þá átt, sem þál. 1919 ætlaðist til, sem sje að stofna sjerstaka lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, sem gæti trygt landbúnaðinum hagfeldari lán en nú væri kostur á. Hv. minni hluti leggur mikla áherslu á það, að slík stofnun gæti veitt lán, sem væru ódýrari en önnur lán, bæði innanlands og utan. Þeir gera og ráð fyrir, að ef stofna ætti hagfelda lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, þá yrði ríkissjóður að borga einhvern vaxtamismun. Þetta er nú blátt áfram dauðadómur á íslenskum landbúnaði. Það er alveg óhugsandi, að landbúnaðurinn geti átt nokkra framtíðarvon, ef hann þolir ekki nokkurnveginn almenna fasteignalánsvexti, eða þá vexti, sem yfirleitt er hægt að fá lán fyrir. Og í þessu öllu kennir misskilnings hjá háttv. minni hl. Jarðræktin er eitthvað það öruggasta og arðvænlegasta fyrirtæki, sem hægt er að ráðast í hjer á landi. Það er því misskilningur, að vægari vaxtakjör þurfi að vera á þeim lánum yfirleitt, sem fengin eru í því skyni, en til annara framkvæmda, eða að jarðabætur sjeu óframkvæmanlegar, nema með styrk úr ríkissjóði á einn eða annan hátt.

Þetta er nú eiginlega aðalatriðið í nál. En tilgangur frv. er að koma upp almennri fasteignalánsstofnun, sem greiddi leið að hagkvæmari lánum en fáanleg eru í almennum viðskiftalánsstofnunum til landbúnaðar og annara fyrirtækja, gegn þeim mun lægri vöxtum, sem gera verður ráð fyrir, að tryggingarnar sjeu betri, þ. e. 1. veðrjetti í fasteignum, heldur en gerist um önnur lán, t. d. gegn persónulegum ábyrgðum og öðrum lakari tryggingum; en ekki er þó hitt síður mikils vert, að lánin fáist til hæfilega langs tíma, og er jeg raunar ekki í vafa um það, að það er aðalatriðið.

Háttv. flm. leggja sjerstaka áherslu á það, að ræktunarsjóðurinn veiti svo ódýr lán. Þetta er alveg rjett, en þegar litið er á það, hve takmarkað það fje er, sem hann hefir til útlána, þá virðist rjettara að nota sjóðinn til þess að útvega meira fje. Þannig mundi sjóðurinn sem tryggingarsjóður fyrir slíkri stofnun, sem hjer ræðir um, betur ná tilgangi sínum en eins og honum er nú hagað. Í nál. er talað um þann mikla vaxtamun, sem sje á hverju 10 þúsund króna láni úr ræktunarsjóðnum og úr veðbankanum. En þess er ekki getið, hve mörg 10 þús. kr. lán ræktunarsjóður geti veitt, eða hve miklu fleiri þúsundir Ríkisveðbankinn gæti veitt en ræktunarsjóðurinn. Á hinn bóginn geri jeg ekki ráð fyrir, að það þyki fært að ganga inn á þá braut að auka starfsfje ræktunarsjóðsins með því að taka lán handa honum, til að lána aftur út gegn lægri vöxtum en af láninu ætti að svara. Hvað væri hægt að halda slíku lengi áfram? Það getur aldrei blessast til frambúðar að vinna með slíkum tekjuhalla, sem virðist eiga að fara vaxandi ár frá ári og safnast fyrir um tíma og eilífð. Einhverntíma hlyti að koma að skuldadögunum, og þá yrðu lánþegarnir auðvitað að borga vaxtamismuninn sjálfir. Það kemur því ekki til mála, að hægt sje að auka starfsfje ræktunarsjóðsins að nokkru ráði, og halda þó sömu útlánsvöxtum og áður. Og það er í raun og veru ekkert vit í því að hafa útlánsvexti ræktunarsjóðs eins lága og þeir nú eru, þegar ríkissjóður verður að borga miklu hærri vexti af sínum lánum.

Háttv. minni hl. gerir nú ef til vill fullmikið úr því, hvað útlánsvextir veðbankans þurfi að vera háir. Skal jeg þó ekki fjölyrða um það, en jeg tel alveg sjálfsagt, að útlánsvextir hans hljóti að fylgja með almennri vaxtahækkun eða vaxtalækkun. Jeg hygg, að það sje lögmál, sem engin bankastofnun, hverju nafni sem nefnist, geti komist hjá að fylgja, beint eða óbeint. Jeg sje nú ekki betur en að eina ályktunin, sem hægt sje að draga af nál., sje sú, að hjer á landi sje ómögulegt að stofna fasteignabanka. Slíkur banki verði ekki rekinn á annan hátt en með því að selja skuldabrjef, en fyrir slík brjef sje enginn markaður hjer. En þess er hjer að gæta, að lítil reynsla er fyrir því, þar sem ekkert hefir verið gert til að selja slík brjef hjer. Þau hafa aðeins verið á boðstólum á örfáum stöðum, þ. e. í Landsbankauum og útibúum hans, svo það hefir kostað alveg sjerstaka fyrirhöfn fyrir þann, er hefir viljað ná í þau. Í öðru lagi er það, að eins og veðdeildinni er nú komið fyrir, þá hefir verið lítil hvöt fyrir stjórn hennar til þess að koma brjefum út. Og það er einmitt þess vegna, að nauðsynlegt er að skilja veðdeildina frá Landsbankanum, að hagsmunirnir rekast á.

Jeg get í raun og veru vel skilið afstöðu háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.), sem líka er bankastjóri. Jeg skil, að honum sem bankastjóra er lítið um þá samkepni, sem yrði milli þessarar stofnunar og bankans um sparifjeð í landinu. En tilgangur þeirra manna, sem fylgja frv., er einmitt sá, að fá sparisjóðsfjeð til fasteignalána, því að ef það tekst ekki, ja, þá verð jeg að játa það, að ekki er hægt að reka fasteignabanka á sama hátt hjer á landi eins og annarsstaðar. — Þetta verð jeg að láta nægja til andsvara nál.

Jeg skal svo víkja með nokkrum orðum að einstökum atriðum frv., og þá sjerstaklega að þeim breytingum, sem með því eru gerðar á núverandi fyrirkomulagi, miðað við veðdeild Landsbankans.

Það er þá fyrst, að starfsvið veðbankans er miklu víðtækara og fjölbreytilegra en veðdeildarinnar. Kemur það sjerstaklega fram í 3. og 4. lið 1. greinar. Slík lán, sem þar um ræðir, er ekki hægt að veita samkvæmt gildandi lögum um veðdeildina, t. d. lán til fjelagsfyrirtækja, áveitna, samgirðinga o. s. frv., sem ekki hafa 1. veðrjett að setja til tryggingar. En til þess að slík lán verði veitt, verður að setja sjerstök lög um, að lán þessi skuli hvíla á jörðunum, sem kvöð um vissa árlega greiðslu, sbr. 17. gr. frv. Líkt er ástatt um lán þau, er um ræðir í 4. lið, sbr. 19. gr. frv., en þau ákvæði eru sett aðallega með það fyrir augum, að bankinn geti fullnægt lánsþörfinni til grasbýlanna fyrirhuguðu, — í sambandi við þetta skal jeg benda á önnur ákvæði frv., sem sjerstaklega eiga að verða til þess að lyfta undir endurbætur á jörðum og jarðrækt. Þau eru í 14. og 15. gr. Ákvæði 14. greinar eiga að koma í veg fyrir það, að jarðir sjeu notaðar til þess að hlaða á þær lánum, án þess að þeim sje nokkuð gert til góða, og jafnframt til þess að tryggja þeim jörðum forgangsrjett að lánum, sem vel hefir verið gert við. Í 15. gr. eru ákvæði, sem fara í raun og veru alveg í sömu átt eins og brtt. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Þar er gert ráð fyrir, að hægt sje að fá lán út á jarðir, með tilliti til væntanlegra jarðabóta, þó þannig, að lánið sje ekki borgað út nema smátt og smátt, eftir því sem verkinu miðar áfram. Slík lán er ekki hægt að veita eftir núverandi fyrirkomulagi veðdeildarinnar. Eru þetta alt mikilvægar breytingar, er miða að því að greiða götu þeirra, er vilja fá lán til umbóta á jörðum sínum.

Í 6. grein er gert ráð fyrir, að bankinn geti selt fyrirfram heila flokka bankavaxtabrjefa. Þetta er ekki hægt í veðdeildinni, og er þetta til bóta, að því leyti, sem kemur til að selja brjef til útlanda.

Þá er mikilvægt atriði í 9. gr., þar sem svo er ákveðið, að vexti bankavaxtabrjefa megi ákveða í reglugerð, og hafa þá misháa innan sömu seríu. Menn eiga þá kost á að fá lán með mismunandi hætti, meiri afföllum af brjefunum, þ. e. hærri útborgun og lægri vöxtum, eða minni afföllum og hærri vöxtum, eftir því, sem best hentar í það og það skifti.

Í 12. grein er ákveðið, að lánsupphæðin megi ekki fara fram úr 3/5 hlutum af virðingarverði fasteignarinnar. Veðdeildin má aðeins lána helming virðingarverðs. Lánstíminn má, samkvæmt 20. grein, aldrei vera lengri en 45 ár. — Þessu hvorutveggja er erfitt að setja takmörk, „svo öllum líki“, og má gera ráð fyrir því, að hjer sje ekki gengið eins langt og menn hefðu vonað. En það er ríkjandi skoðun sjerfræðing., að óholt sje að lána þannig út á fasteignir, að lánin verði ævarandi kvöð á eigninni, eða svo að segja.

Um lánshæðina er ekki síður erfitt að ákveða hæfilegt takmark. Ef vaxtabrjefin eiga að vera útgengileg, verður að fara varlega í því efni, þó ekki væri til annars tillit að taka. En þó að hjer sje varlega farið í því efni, þá bætir það úr, að ákveða má lánsupphæðina með tilliti til endurbóta, sem gera á, og á það ekki aðeins við jarðeignir, heldur fasteignir allar, sbr. 15. gr. Í þessari sömu grein er leyft að lána út á veðrjett, sem kemur á eftir veðrjetti til bankans sjálfs. Veðdeildin hefir að vísu gert þetta, en það hefir tæpast verið löglegt; en ákvæðið er vitanlega nauðsynlegt og sjálfsagt.

Í sambandi við 13. gr. frv. skal jeg víkja að 6. brtt. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.); hún er á þá leið, að ákveða megi í reglugerð, að viðbótarlán til jarðræktar megi veita, án þess að nýtt mat á eigninni fari fram. Slíka breytingu þarf alls ekki, því að samkvæmt 13. gr. má einmitt setja slíkt ákvæði í reglugerð.

Þá kem jeg að 18. gr. Hún gerir ráð fyrir sambandi milli bankans og veðlánsfjelaga, sem stofnuð kunna að verða úti um land. Er með því reynt að sporna við samkepni af hálfu þeirra fjelaga við bankann.

Hjer er ekki gert ráð fyrir neinni samábyrgð. líkt og nú er í 4. fl. veðdeildarinnar, og er því rjettmætt, að greiðslur til varasjóðs sjeu hærri en gerist þegar allir lánþegar bera sameiginlega ábyrgð. Í 22. gr. er ákveðið, að um leið og lán er tekið, skuli greiða lántökugjald í varasjóð bankans, 1–3% af lánsupphæðinni. Í öðrum löndum veltur það á þessari upphæð; í Danmörku eru það t. d. 2%. Hjer hefir það ekki verið nema 1% í 4. fl. veðdeildarinnar.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) vill láta þetta gjald haldast óbreytt, og er það auðvitað álitamál, en einhversstaðar annarsstaðar sýnist þó, að gjaldi þessu verði að ná, t. d. með því að hafa árstillag til varasjóðs þeim mun hærra. En eigi virðist mjer neitt athugavert við það, þó gjald þetta sje haft jafnhátt og gerist annarsstaðar, sjerstaklega líka vegna þess, að greiðslu þess má skifta á fleiri ár. Annars eru ákvæðin í þessari grein, í 2. og 3. málsgrein, vægari en samsvarandi ákvæði í lögum 4. fl. veðdeildarinnar.

Í 23. gr. er ágætt ákvæði. Þar er sem sje skuldunaut gefinn kostur á, í stað þess að láta selja hina veðsettu eign á uppboði, að láta bankann hafa umboð til þess að selja hana, þegar honum líst best. Getur þetta orðið til hagsmuna báðum aðiljum, því að oft getur staðið svo á, að þegar ganga þarf að eigninni, þá sje erfitt um sölu, svo að eignirnar seljast jafnvel langt undir sannvirði; en samkv. þessu ákvæði er þess ekki þörf að selja eignina strax, heldur getur bankinn tekið umráð hennar, og selt hana svo þegar gott tækifæri gefst. Í sambandi við þetta vil jeg geta um það ákvæði, sem heimilar bankanum að innleysa ekki þegar í stað bankavaxtabrjef fyrir allri lánsupphæð þeirri, sem hvílir á eign, sem hann verður að taka við. Má bankinn, þegar svo á stendur, láta hvíla eins mikið á veðinu áfram eins og hæst hefir verið boðið í það á uppboði, eða að minsta kosti 1/3, virðingarverðsins.

Getur þetta verið mjög þýðingarmikið fyrir bankann á erfiðum tímum, þegar hann þarf að ganga að mörgum, að þurfa þá ekki að leysa inn brjef fyrir öllum lánsupphæðum.

Í 28. gr. er annað gott ákvæði. Samkvæmt núgildandi veðdeildarlögum er því svo fyrir komið, að þegar borgaðar eru aukaafborganir af lánum, þá verður veðdeildin að draga inn bankavaxtabrjef fyrir þeim upphæðum jafnframt: en nú er, samkvæmt ákvæðum greinarinnar, bankanum sparað starfsfje, þar sem hann þarf ekki að innleysa brjef fyrir slíkar greiðslur, heldur má hann verja þeim til nýrra útlána þann tíma, sem eftir er af lánstíma þess flokks, sem lánin eru í.

Í 29. gr. er ákvæði um það, hvernig bankinn fer með laust fje sitt. Getur hann veitt aukalán af varasjóði, en þó eru þessi lán bundin þeim takmörkunum, að aukalánið og aðallánið til samans mega ekki fara fram úr 3/5 hlutum virðingarverðs þeirrar eignar, sem að veði er, og ennfremur skulu aukalánin endurgreidd á eigi lengri tíma en 5 árum. Er þetta ákvæði mjög hagkvæmt, því oft mundu menn eigi fá svo mikið lán, sem þeir þyrftu, og gefst þeim þá hjer kostur á viðbótarláni, þótt til skemmri tíma sje.

Þá kem jeg að 35. gr. Þar er ákvæðið um happvinningabrjefin, sem líkleg eru til þess að ljetta mikið fyrir sölu vaxtabrjefanna. Er hjer vakin sjerstök hvöt hjá mönnum, með voninni um að græða stóra fjárupphæð áhættulaust. Er hjer að vísu um nokkurskonar „Lotterí“ að ræða, en fjenu er þó ekki á glæ kastað, því enda þótt menn hljóti engan vinning, þá fá þeir samt fje sitt seinna með fullum vöxtum.

Er þessi aðferð ókunn hjer, en hefir lengi verið reynd annarsstaðar og gefist vel, t. d. í aðalfasteignabanka Frakka.

Þá hefi jeg farið í gegnum helstu breytingarnar, sem frv. gerir á núverandi fyrirkomulagi veðdeildarinnar. Má af þessu sjá, að starfssvið bankans er ólíku víðtækara en veðdeildarinnar, og miklu líklegra, að bankinn geti orðið að miklu meiri notum vegna þess. En aðalatriðið er þó, að með þessu er veðlánsstofnunin gerð að sjálfstæðri stofnun.

Þá vildi jeg leyfa mjer að víkja nokkrum orðum að brtt. þeim, sem hafa fram komið, og ætla jeg þá fyrst að snúa mjer að brtt. háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) og 1. þm. N.-M. (Þorst. J.), um það, að láta lán til jarðabóta ganga fyrir öðrum lánum. Þessa breytingu tel jeg ekki til bóta, því að framkvæmd slíkra ákvæða veltur í raun og veru algerlega á þeim, sem veitir stofnuninni forstöðu, og hversu hug hans í því er varið. Þykir mjer ósennilegt, að svona ákvæði mundu hafa mikil áhrif á hann. Hins vegar gætu svona ákvæði, ef þau sýndust vilhöll, orðið til þess að spilla fyrir bankanum hjá öðrum en þeim, sem þennan atvinnuveg stunda. Jeg held því, að þetta sje fremur til skemda en bóta. Hins vegar efast jeg ekki um, að forstöðumenn bankans muni oftast hafa tilhneigingu til þess að láta jarðræktina sitja í fyrirrúmi, sökum hinnar miklu þýðingar hennar.

Þá vildi jeg fara nokkrum orðum um brtt. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), sem, þó með nokkru öðru móti sjeu, fara samt að miklu leyti í sömu áttina. Hann leggur til, að stofnuð verði sjerstök deild við bankann, jarðræktardeild, sem veiti einvörðungu lán til jarðræktar, og ætlar henni ræktunarsjóðinn til tryggingar. Þessi deild á svo að gefa út sjerstök brjef, sem svari til þeirra lána, er hún kann að veita. Er í raun og veru með þessu fyrirkomulagi deildin gerð að sjerstökum banka, og þar því algerlega farið í bága við þá hugmynd þess manns, sem frv. samdi, að stofnunin væri aðeins ein fyrir alt landið, eða öll fasteignaveðslán, hverrar tegundar sem væru. Er hjer, með brtt. þessari, verið að stofna til samkepni um sölu bankavaxtabrjefa milli deildarinnar og bankans. Sje nú athugað, hver stofnunin hafi meiri líkindi fyrir því að geta selt brjef sín, þá dylst það eigi, að jarðræktardeildin stendur þar mun ver að vígi.

Brtt. gerir sem sje ráð fyrir því, að deildin geti lánað út á 2. veðrjett, en það er ekkert tekið fram, hvaða eða hverskonar veðskuldir það megi vera, sem á 1. veðrjetti hvíla, sem helst þyrfti þó að vera, því það skiftir auðvitað miklu máli. Af þessu hlýtur auðvitað að leiða, að brjef deildarinnar verða ver trygð en bankavaxtabrjef bankans sjálfs, og því eðlilega ver seljanleg, og jarðræktardeildin þess vegna fyrir borð borin. Það gæti raunar hugsast, að bankastjórnin legði meira kapp á að selja þessi brjef en hin, en gerði hún það, þá er það auðvitað jafnframt gefið, að bankastjórnin mundi láta sjer annast um jarðræktarlánin, enda þótt deildin væri eigi, og hún því af þessum sökum óþörf.

Enn er þess að gæta, að þessi deild er eigi nema lítill hluti bankans, aðeins 1/4, og gæti það eitt með öðru stuðlað að því, að deildarinnar gæti ekkert í samanburði við aðalbankann.

Af öllu þessu er það auðsætt, að till. mundi ekki ná tilgangi sínum, heldur vinna þveröfugt við ætlun sína.

Enn ber að gæta þess, að tilgangi þessara brtt., að gera það kleift að fá fje til jarðabóta, er eins vel náð með frumvarpinu sjálfu, því að í 15. gr. þess er veitt heimild til þess að veita jarðabótalán með sömu tryggingu og farið er fram á í brtt., en án þess þó, að gildi bankavaxtabrjefanna rýrni, sökum þess, að eftir frv. er útgáfa bankavaxtabrjefanna sameiginleg fyrir allar tegundir lána, í stað þess, að hún er sjerstök fyrir jarðræktardeildina samkvæmt brtt.

Þá eru enn nokkrar brtt. frá þessum sama háttv. þm. (J. Þ.) bæði í sambandi við þessa aðalbrtt. hans, og einnig henni óháðar. Fæ jeg eigi heldur sjeð, að þær sjeu til bóta. Reikningshald og bókfærsla við bankann mundi samkvæmt þeim verða erfiðari og kostnaðarsamari, og eigi fæ jeg heldur sjeð, að það skifti nokkru máli, hvort bankinn borgar ríkissjóði fulla vexti af stofnfje sínu eða eigi, þareð ríkið á auðvitað stofnsjóðinn og allan bankann. Það sýnist því einu gilda, hvort renturnar fara beint í ríkissjóð eða varasjóð bankans.

Á einstakar brtt. hefi jeg minst að nokkru áður, og þykir mjer eigi hlýða að geta þeirra nánar fyr en flutningsmenn þeirra hafa gert glögga grein þeirra.