16.04.1921
Neðri deild: 45. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2131 í B-deild Alþingistíðinda. (2311)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Mjer finst stjórnin hafa fengið óþarfa ákúrur hjá háttv. þm. fyrir skilning þann, sem hún hefir lagt í þál. frá 1919 um að hrinda máli þessu áleiðis.

Þó að jeg ætti ekki sæti í stjórninni þá, vil jeg þó segja það, að mjer virðist stjórnin eigi engar ákúrur skilið fyrir það, hvernig hún ljet sendimann sinn haga störfunum. Það var í alla staði rjett og nauðsynlegt að athuga veðbankamálið sem allra víðtækast. Enda hefir sendimaður stjórnarinnar gert þetta, og mönnum ber saman um, að hann hafi leyst þetta trúnaðarstarf sitt vel af hendi, því jeg get ekki sjeð, að aðferð hans við undirbúning þessa máls þurfi að koma í bága við hag landbúnaðarins. Hitt er annað mál, að till. sendimanns ná lengra en til landbúnaðarins eins, af því hann miðar sig við, að veðbanki sje einungis einn að svo stöddu, og taki við veðdeildinni.

Þegar mál þetta kom til 1. umr., taldi jeg það ekki nauðsynlegt, að málið kæmist gegnum þingið nú til fullnaðarafgreiðslu, ef það hins vegar fengi þá meðferð, sem hægt væri, og að ráða mætti því til fullra lykta á næsta þingi, vel undirbúnu. En þrátt fyrir þetta, er jeg samt ekki á sömu skoðun og háttv. minni hl. um það, að alls engin not gætu orðið að svona stofnun nú um ófyrirsjáanlegan tíma. Því eins og kunnugt er, er þessum banka ætlað að starfrækja núverandi veðdeild, og þó þar sje ekki um nýtt verkefni að ræða, mundi það sjálfsagt gera starfsemi veðdeildarinnar líflegri og betri, ef árferðið verður ekki því óhagstæðara í öllum peningamálum, og þá er heldur ekki hægt viðgerðar hvort sem er. Hjer er gert ráð fyrir ýmsum þeim breytingum á lögum og reglum veðdeildarinnar, sem jeg hefi trú á, að verði til bóta. Einnig mundi það örfá og bæta starfsemina, að sjerstakur forstjóri verður fyrir þessum málum, og þyrfti eigi að hafa hugann verulega á öðru, því vitanlega hefir veðdeildin verið höfð nokkuð í hjáverkum hjá Landsbankanum að undanförnu. Er það ekki sagt stjórn hans til ámælis. Því það er eðlilegt, að víxlabanki geti ekki sint mjög mikið slíkum málum.

Eins og fleiri finn jeg það aðallega að frv., að hvergi er í rauninni trygður sá aðaltilgangur bankans að styrkja landbúnaðinn aðallega. Hins vegar hefi jeg ekki haft tíma til þess að sökkva mjer nægilega í málið og brtt. þær, sem fram eru komnar, til þess að jeg þori algerlega að taka afstöðu. Þó virðist mjer brtt. á þskj. 258 alveg ófullnægjandi. Þar á móti finst mjer ýmislegt gott í brtt. á þskj. 290, frá háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), þó jeg hafi ekki getað borið það fullkomlega saman, hvernig þær falla inn í frv. að öðru leyti. Mjer virðist það jafnvel dálítið vafamál um deildaskiftinguna, sem þar er gert ráð fyrir, þó tilgangurinn sje annars sá sami og jeg hafði hugsað mjer. Um brtt. á þskj. 320, frá þeim háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) og fleirum, finst mjer dálítið svipað og um brtt. á þskj. 258, nema hvað hún er ákveðnari, og mun jeg, að svo komnu, helst hallast að henni. Yfirleitt vona jeg, að nefndin taki þetta aftur til athugunar, og verður þá til 3. umr. hægt að skapa sjer rökstuddari skoðanir á þessu í einstökum atriðum.

Í sambandi við það, sem annars hefir verið talað um veðdeildina, vildi jeg benda á það, hvað veðdeildin hafi hjálpað mönnum hlutfallslega lítið til þess að eignast ábýli sín; hún hefir meira styrkt húsabyggingar í kaupstöðum. Þá hefir í sambandi við þjóðjarðasöluna verið talað ekki lítið um það að efla sjálfsábúðina. 1905 og 1907 voru samþykt lög um sölu opinberra eigna til ábúendanna, einmitt í þeim tilgangi fyrst og fremst að hjálpa við sjálfsábúðinni. En nú stendur einmitt, þrátt fyrir þetta, svo á, að mikill fjöldi jarða er í leiguábúð, líka þó einstakir menn eigi þær. En það er áreiðanlega ekki síður, heldur miklu fremur, þörf á því að koma slíkum jörðum í sjálfsábúð heldur en opinberum eignum. Og til þess að greiða fyrir því, ætti stofnun eins og sú, sem hjer er um að ræða, ekki síst að vera hjálpleg.

Það hefir ætíð verið talið mikilsvert að skapa hvatir hjá mönnum til jarðræktar og umbóta á jörðum yfir höfuð. Hefir þjóðjarðasalan verið talin besta hvöt í þeim efnum; með öðrum orðum sjálfsábúðin. Hygg jeg, að þó að ræktunarsjóðnum sje varið til jarðræktar, þá muni það skamt hrökkva, og því vera þörf á, að meira sje varið til hennar af fje bankans og meira að gert. Jeg skal eigi segja neitt um það, hvort hægt sje eða heppilegt að hafa ákvæði í frv., sem færi í þessa átt, enda þótt mjer sýndist, að þess væri þörf, en hitt taldi jeg sjálfsagt, að þetta kæmi fram við umræðurnar.

Jeg hefi eigi komið fram með brtt. við frv. sökum þess, að jeg hefi ekki haft tíma til þess að undirbúa slíkt. Jeg tel það sjálfsagt, sökum þess, hve bankinn hefir litlu úr að spila meðan hann er að komast á laggirnar, að fara varlega í allan rekstrarkostnað við hann, og er því fyllilega samþykkur frv., að rjett sje að hafa einungis 1 bankastjóra í byrjun, og 2 af bankastjórum Landsbankans honum til aðstoðar sem meðstjórnendur. Hins vegar sýnist mjer ástæðulaust að borga meðstjórnendum þetta starf sjerstaklega, því fyrirhöfn þeirra eykst að litlum eða engum mun frá því, sem nú er við veðdeildina, og auk þess eru þeir sæmilega launaðir. Væri svona varlega í farið með stjórnarkostnaðinn, og auk þess lítill annar tilkostnaður til starfsmanna við bankann, þá hygg jeg, að enginn þurfi mjög að óttast kostnaðargrýluna.