16.04.1921
Neðri deild: 45. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2137 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Stefán Stefánsson:

Flestir háttv. þm. hafa sjálfsagt orðið þess varir. hve umkvartanir bænda undanfarin ár hafa verið háværar, út af því að geta ekki fengið lán í bönkunum, sem mættu standa um nokkur ár, eða með öðrum orðum samsvöruðu atvinnurekstri þeirra. Bankarnir lána aðallega til mjög skamms tíma, en bændur þurfa á löngum lánum að halda; önnur lán koma þeim að litlu liði. Óskir þeirra hafa því gengið í þá átt, að komið væri á fót lánsstofnun, er sniðin væri við þeirra þarfir. Jeg hygg því, að það hafi glatt margan bóndann, er hann frjetti, að nú lægi fyrir Alþingi frv. um fasteignabanka, sem ætti að verða stoð þeirra og stytta.

En þegar jeg fór að athuga frv., þá sýndist mjer svo miklir annmarkar á því gagnvart bændastjettinni, að hún hefði þaðan lítils trausts að vænta. Sló sú hugsun mig, að mest af fjenu mundi fara til bygginga í kaupstöðum og kauptúnum, og þá einkum til húsabygginga í Reykjavík, þar sem bankinn verður þar, og íbúum þess kaupstaðar því hægust heimatökin.

Með öðrum orðum, mjer virtist mundi verða að nokkru leyti sama ástandið áfram og bændur sömu olnbogabörn fyrir kaupstaðarbúum og áður. Jeg hygg, að flestum háttv. deildarmönnum hafi dottið eitthvað líkt í hug og mjer, enda eru þegar komnar fram breytingartillögur frá nokkrum þm„ sem bera það fyllilega með sjer.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) flytur tillögur, sem eiga að miða að því að tryggja bændum lán til jarðræktar, og ræður til, að sjerstök deild verði stofnuð við bankann, er nefnist „Jarðræktardeild Ríkisveð banka Íslands“. Á tilgangur hennar að vera sá að veita lán aðeins til jarðræktar, sem trygð sjeu með veði í þeirri fasteign, sem láninu er varið til jarðræktar á, eða trygð á annan hátt.

Ætlast hann til, að bankinn gefi út og selji sjerstök bankavaxtabrjef fyrir þeim upphæðum, sem bankinn ver til slíkra lána. Jeg get nú ekki sjeð, að þessi skifting á bankanum leiði til meiri útlána til sveitabænda eða landbúnaðarins, miklu fremur virðist mjer, að skiftingin geti orðið þess valdandi, að verðbrjef bankans seljist ver, eða þessarar deildar, þegar ekki standa á bak við þau allar þær tryggingar, sem bankinn hefir. En það yrði auðsjáanlega til þess, að útlánsfje deildarinnar yrði að því skapi minna. Af þessum ástæðum get jeg því ekki fallist á þær brtt. háttv. þm., sem að skiftingunni lúta.

Háttv. þm. Mýra (P. Þ.) neitaði því ekki, að það sjerstaka reikningshald, sem af þessu leiddi fyrir bankann, mundi fremur auka fyrirhöfnina með reikningshaldið, en vildi þó styðja að stofnun sjerstakrar deildar, en sagði hins vegar ekki beinlínis um það, hver áhrif skiftingin mundi hafa á sölu bankavaxtabrjefanna, ef hún kæmist á. Allar tryggingarnar, sem nefndar eru í 7. gr., hljóta að vera öruggasta og sjálfsagðasta skilyrðið fyrir því, að brjefin seljist. Mín afstaða gagnvart þessum tillögum er því aðallega af ótta við það, að brjefin muni ekki selja.st, ef tryggingarfje sjóðsins skiftist. Og ef brjefin ekki seljast, þá er ekki meira fje til en nú. Þetta er nú mín skoðun á brtt. háttv. 3. þm. Reykv. (.T. Þ.).

Þá er það brtt. á þskj. 258 frá hv. 1. þm. Árn. (E.E.) og hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.). Mjer geðjast betur að henni, því að hún ætlast ekki til, að það verði nein sjerstök deild, en nokkurt aðhald að bankastjórunum, að láta jarðabótalán sitja fyrir En hún fer líka of skamt, því að hún á aðeins við jarðræktarlán, en það eru fleiri lán, sem landbúnaðurinn þarf, bæði til jarðakaupa, rekstrarkostnaðar, bæja- og húsabygginga í sveitum. Þessi lán til landbúnaðarins er mest um vert. Það er öllum kunnugt, að bændur þessi síðustu ár hafa lítið eða ekkert bygt nema það, sem allra nauðsynlegast hefir verið. Þeir hafa ekki treyst sjer til þess, en fjöldi bænda mun byggja bæina upp af nýju, er byggingarefni fellur, ef þeir fengju þá hentug lán. Þessu legg jeg mest upp úr. Þess vegna hefi jeg og 1. þm. Rang. (Gunn. S.) komið með brtt. á þskj. 320. Hún veitir bankastjóranum það aðhald, sem hægt er með breytingum á frv., en ef gengið er lengra, þá yrði eiginlega frv. algerlega fært í annað form. Að kveða harðar að orði en gert er í tillögu okkar, hygg jeg að naumast sje gerlegt, því stjórn bankans hefir þar sannarlega mjög verulegt aðhald.

Það gladdi mig að heyra undirtektir hæstv. atvrh. (P. J.) undir þessa tillögu. Jeg þykist vita, að hann hafi allmikið hugsað um þetta atriði, þó hann hafi ekki gert brtt. við frv.

Jeg hefi svo ekki fleiri orð að segja um tillöguna, en það eitt er víst, að hún er fram komin af velvild til landbúnaðarins, og mjer þótti vafasamt, hvort það reyndist heppilegt að ganga lengra í þessu falli.

Jeg teldi það slælega að verið af þessu þingi, ef það treysti sjer ekki til að samþykkja þetta frv. með þessari meginbreytingu. Sumir hafa sett það fyrir sig, að það væri illa undirbúið. En að hverju leyti? Ætli það tæki miklum breytingum til batnaðar, þó að það yrði hjer til meðferðar þing eftir þing? Sá maður, sem það hefir samið, hefir undirbúið það svo rækilega, að ekki er að búast við, að gerðar verði stórar umbætur á því, þó að því verði frestað. En ef það er til þess að fá fullvissu fyrir að brjefin seljist, þá hugsa jeg að menn megi lengi bíða, því það sjá menn fyrst fyllilega. þegar til þess kemur.

Jeg mun því greiða atkvæði með frv., í fullu trausti þess, að alt verði gert til að selja bankavaxtabrjefin, og að það takist.