16.04.1921
Neðri deild: 45. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2140 í B-deild Alþingistíðinda. (2314)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. (Jakob Möller):

Það er nú margt og mikið búið að tala um þetta mál, en mig langar þó til að tefja háttv. deild ofurlítið.

Það eru þó raunar fá orð, í svo löngum umræðum, sem þarf að svara.

Háttv. frsm. minni hlutans (J. A. J.) vill láta fresta stofnun fasteignabankans. En samkvæmt forsendum hans í nál. minni hl., þá virðist það ekki vera nein „frestun“, sem fyrir honum vakir, heldur ætlast hann til þess, að horfið sje algerlega frá því að stofna veðbanka á þessum grundvelli, og vill beinlínis láta fella frv., og þar með að vísu fresta, að það komi til framkvæmda um fyrirsjáanlegan tíma!

Hann segir í ástæðunum, að bankavaxtabrjefin seljist, en byggir í ræðum sínum á óseljanleik þeirra.

Meiri hl. byggir á því, að það sje hægt að selja slík brjef hjer á landi eins og annarsstaðar, og bendir á sjerstaka aðferð til að fá menn til að kaupa þau. Sú aðferð hefir verið reynd í öðrum löndum og gefist þar vel. Ef háttv. minni hluti ætlar að fá menn til þess að fallast á þá kenningu, að Ísland sje í þessum efnum undantekning frá almennri reglu, þannig að hjer geti engan veginn átt við sama fyrirkomulag á fasteignabanka eins og í öðrum löndum, vegna þess, að bankavaxtabrjef sjeu óseljanleg hjer, þá verður hann að gæta þess, að sönnunarskyldan hvílir á honum.

Háttv. frsm. minni hl. (J. A. J.) gat þess, að útbú Landsbankans á Ísafirði hefði gert talsvert til að koma bankavaxtabrjefunum út, og tekist það svo, að þar hafi selst meira en annarsstaðar, að tiltölu. Það er sönnun þess, hvaða þýðingu það hefir, að eitthvað sje gert til að selja þau. — Meiri hl. byggir á því, að með því að stofna sjerstakan veðbanka sje einmitt unnið að því, að meira verði gert til að selja vaxtabrjefin. Og einmitt með þetta fyrir augum er í frv. gert ráð fyrir umboðsskrifstofum úti um landið. Að starf slíkra umboðsskrifstofa muni ekki verða til ónýtis, má einmitt ráða af því, sem háttv. frsm. minni hl. (J. A. J.) sagði um bankavaxtabrjefasöluna á Ísafirði. Ef háttv. frsm. minni hl. hefir getað selt meira en gert hefir verið annarsstaðar, þá má gera ráð fyrir því, að mörgum svo áhugasömum mönnum, dreifðum út um land alt og algerlega óháðum hinum bönkunum, mundi verða mikið ágengt í þessum efnum.

Það var alls ekki tilgangurinn að móðga háttv. frsm. (J. A. J.), er jeg sagði, að það, að hann liti svo óhýrt til þessa máls, mundi ef til vill stafa af því, að hann einmitt veitir forstöðu bankastofnun, er fæst við almenna bankastarfsemi. Ef svo væri, sem jeg gat til, þá finst mjer það bera vott um lofsverða umhyggju hv. þm. (J. A. J.) fyrir stofnuninni, sem hann ber ábyrgð á.

Þá verð jeg að leiðrjetta misskilning, sem kom fram hjá sama háttv. þm. (J. A. J.) á því, sem jeg sagði um sölu bankavaxtabrjefa til útlanda. Þótt aðallega sje bygt á sölu þessara bankavaxtabrjefa innanlands, þá er ekki þar með sagt, að alls ekki sje gert ráð fyrir því, að markaður geti orðið fyrir þau erlendis. Það er svo alstaðar í öðrum löndum, að aðalmarkaður vaxtabrjefa slíkra stofnana er innanlands. Verður að gera ráð fyrir því, að eins verði hjer. En þó má gera ráð fyrir einhverri sölu til útlanda í framtíðinni, þegar stofnunin er kunn orðin, og það er einmitt í frv. gert ráð fyrir þessu, því að heimildin til að selja heila flokka fyrir fram er auðvitað gefin með sölu til útlanda fyrir augum.

Í raun og veru þarf jeg ekki að svara háttv. frsm. (J. A. J.) fleiru. Það gildir einu, hvort vextirnir af skuldabrjefum stofnsjóðanna ganga beint til bankans til að standast kostnaðinn, eða þeir eru greiddir til ríkissjóðs, og hann leggur bankanum svo aftur fje, til að standa straum af rekstrinum. Bæði sjóðirnir og bankinn eru og verða eign ríkisins, og spurningin er því aðeins um það, í hvorn vasann eigi að láta þetta fje. Ef bankann á að stofna, þá er óhjákvæmilegt að greiða rekstrarkostnað hans. Jeg get ekki fallist á það, að það sje á nokkurn hátt heppilegra að leggja bankanum árlega einhvern styrk í fjárlögum, og síst yrði það fremur til að ávinna honum traust. — Spursmálið um þessa vexti getur því aldrei orðið neitt höfuðatriði, og ekki neitt sjálfstætt atriði, ef að öðru leyti verður talið rjett að stofna bankann.

Háttv. þm. Mýra (P. Þ.) er ekki alveg sammála háttv. frsm. (J. A. J.). Hann þvertekur ekki fyrir, að komið geti til mála að stofna veðbanka á fyrirsjáanlegum tíma, en álítur, að það sje ekki rannsakað, og sjerstaklega horfir hann í það að leggja ræktunarsjóðinn í bankann. En hann gerir þó ráð fyrir, að þessi stofnun verði einhverntíma í náinni framtíð tímabær. Hann segir hins vegar, að bankinn verði pappírsgagn fyrst um sinn, og þess vegna vill hann fresta framkvæmdunum. En það er hætt við því, að sú ástæða til frestunar verði altaf fyrir hendi, þegar til á að taka. Það, að bankinn verði aðallega „pappírsgagn“ fyrst í stað, verður aldrei umflúið, hvað lengi sem frestað verður stofnun hans. Hvers vegna á þá að draga stofnun hans von úr viti? Ef háttv. þingmaður ekki hugsaði sjer, að þetta gæti lagast, og að aldrei kæmi sá tími, að bankinn yrði annað en pappírsgagn, þá væri það eðlilegt, að hann vildi fresta.

Viðvíkjandi því, að 4. fl. veðdeildarinnar hafi ekki getað starfað neitt að ráði undanfarin ár, þá er þess að gæta, að samkvæmt lögum veðdeildarinnar verður vöxtunum ekki breytt. Brjefin eru því óseljanleg nú, þar sem sparisjóðsvextir og vextir af föstum innlánum eru jafnvel töluvert hærri en vextir af brjefunum. En þessu þarf að breyta. Vextir af fasteignalánum verða að vera breytilegir, eins og aðrir vextir. Og í frv. er einmitt gert ráð fyrir því, að bankinn geti gefið út brjef með mismunandi vöxtum.

Mönnum er sárt um og bera kvíðboga fyrir því, að landbúnaðurinn verði hafður útundan, eða verði ekki látinn sitja í fyrirrúmi fyrir öðrum atvinnuvegum. — Það kom greinilega fram hjá háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), að hann hefir ekki gert sjer ljóst, af hverju sá ótti helst ætti að geta stafað.

Jeg vil því benda á það, að vissulega má gera ráð fyrir því, að landbúnaðurinn verði ver settur, meðan veðdeildin er í sambandi við almennan viðskiftabanka; að bankastjórnin liti minna á hag hinna aðkomnu, stopulu viðskiftamanna en hinna föstu viðskiftavina bankans. Þessir föstu viðskiftavinir bankans hafa oft margvísleg viðskifti með höndum, og það getur oft komið sjer vel, bæði fyrir þá og bankann, að geta flutt þunglamaleg viðskiftalán úr bankanum yfir í veðdeildina. Þannig er hætt við því, að veðdeildin sje oft og einatt notuð til að ljetta af bankanum, og minna tillit tekið til þess, hver „verðugastur“ er, og sjerstaklega þá einmitt hætt við, að landbúnaðurinn verði útundan. — Og einmitt af þessu, meðal annars, hve mjög það getur verið freistandi fyrir bankann að misbrúka veðdeildina, ætti mönnum að geta skilist, að þetta samband sje óheppilegt.

Jeg vil taka það fram, að jeg get fyrir mitt leyti alls ekki fallist á rökfærslu þeirra manna, er halda því fram, að landbúnaðurinn eigi sjerstaklega að hafa forgangsrjett að lánum úr veðbankanum, vegna þess að ræktunarsjóðurinn og kirkjujarðasjóðurinn verða lagðir til bankans. Eins og þessir sjóðir sjeu sjereign landbúnaðarins! Þeir eru sameiginleg eign alls landsins, þó að þeir hafi verið notaðir eingöngu til að styrkja landbúnaðinn, og hann hafi sölsað þá undir sig. Kirkjujarðir og þjóðjarðir eru sameign alls landsins, og þá einnig andvirði þeirra, þegar þær eru seldar, og ætti því öll þjóðin að njóta sjóða þessara jafnt.

Hvað því viðvíkur, að jarðræktarlán verði látin ganga fyrir, þá tel jeg þó hins vegar engan vafa á, að það verði gert. Jeg verð að líta svo á, að slík fyrirtæki sjeu einhver hin þörfustu, seni til mála getur komið, að bankinn eigi að veita fje til, og ber þá af þeirri ástæðu að sjálfsögðu að láta þau sitja fyrir. Það verður að gera ráð fyrir því, að bankanum verði altaf stjórnað af skynsamlegu viti, og það má gera ráð fyrir því, að stjórn bankans verði að minsta kosti ekki hliðhollari öðrum atvinnugreinum en landbúnaðinum. En hvað sem því liði, þá yrði nú eftirsjónin að þessum umræddu sjóðum ekki mikil. Þess ber að gæta, að sjóðirnir eru nú algerlega útlánaðir. Til útlána framvegis verður því aðeins það, sem borgast af gömlu lánunum. Það fje verður vitanlega ekki að engu, þó að sjóðirnir hverfi undir veðbankann, en alveg víst má telja, að því verði eingöngu varið til landbúnaðarlána. — Hins vegar er um það að ræða að nota þessa óhandbæru sjóði til þess að afla handbærs fjár til nýrra lánveitinga til allskonar þjóðþrifafyrirtækja, og er þá að athuga, hvernig það fje fæst. Það verður að fást frá öllum stjettum, ekki eingöngu frá bændastjettinni. En ef bankinn yrði fyrirfram stimplaður sem eingöngu eða fyrst og fremst „lánsstofnun fyrir landbúnaðinn“, þá gæti það orðið til þess, að aðrar stjettir legðu síður fje sitt í vaxtabrjef bankans. (Fjrh.: Þm. vill eðlilega draga taum kjördæmis síns). Jeg þakka hæstvirtum fjármálaráðherra „komplimentin“. En afstaða mín í þessu máli stjórnast ekki að neinu leyti af hreppapólitík. Jeg hefi það eitt fyrir augum, að þessi fyrirhugaða stofnun verði sem styrkust og megi sem mest gagn vinna öllum stjettum. Ef jeg vildi landbúnaðinum ilt og hugsaði aðeins um kjördæmi mitt, þá mundi jeg sennilega hallast að till. háttv. samþm. míns, 3. þm. Reykv. (J. Þ.), um tvískiftingu bankans, án þess að jeg þar með vilji gefa í skyn, að slíkt vaki fyrir honum. Fyrir mjer vakir ekki nein togstreita. heldur vil jeg stofna fasteignabanka fyrir alt landið, og draga ekki taum annars helmings þjóðarinnar, á hins kostnað, að neinu leyti. Ef vakinn yrði stjettarígur í sambandi við þetta mál, mætti svo fara, að bankastofnun þessi yrði svo óvinsæl, að hún yrði að engum notum fyrir neinn; ekkert annað en „pappírsgagn“.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) taldi æskilegra, að stofnanirnar væru 2, en ekki 1. Jeg get skilið þessa skoðun eftir till. hans, sem er í samræmi við þær. En höf. frv. hefir þótt þessi leið óheppileg, og er jeg honum þar sammála. Jeg held, að 2 keppandi stofnanir hlytu að spilla hvor fyrir annari, t. d. við sölu brjefa. Það er hætt við að minsta kosti önnur stofnunin, ef ekki báðar, biðu hnekki við þessa tilhögun, enda kemur það fram í till. háttv. þingmanns, að hann hefir haft grun um, að svo yrði.

Sami háttv. þm. (J. Þ.) sagði, að veðdeildin hefði orðið landbúnaðinum að litlu gagni. Ef til vill hefir hann gert of lítið úr því gagni, sem landbúnaðurinn hefir haft af veðdeildinni, en ekki er ólíklegt, að það hefði mátt verða meira. Jeg hefi nú bent á það, af hverju þetta muni stafa, sem sje sambandinu við Landsbankann. En hinu hefi jeg ekki haldið fram, og jeg býst ekki við, að háttv. þm. (J. Þ.) geri það heldur, að um vísvitandi tilhneigingu bankastjórnarinnar í þá átt að láta landbúnaðinn sitja á hakanum hafi verið að ræða.

Veðdeildin og Landsbankinn, sem er almennur viðskiftabanki, eru svo ólíkar stofnanir, að ekki er eðlilegt að hafa þær undir sömu stjórn. Alt öðru máli er að gegna um sameiginlega fasteignalánsstofnun fyrir sveitir og kaupstaði. Og hvað jarðræktarbrjefimum viðvíkur, þá geta þau eins verið sjerstök, þó að stjórn bankans sje ein. Jarðræktarlán verða veitt til skemri tíma, og er eðlilegt, að brjefin verði, samkvæmt því, útgefin til skemri tíma en önnur brjef bankans.

Þá hjelt háttv. þm. (J. Þ.) því fram, að ákvæðin um jarðræktarlánin væru óljós í frumvarpinu, og á þeim væri ekki tekið nægilega föstum tökum. Og það var ekki nema eðlilegt, að háttv. þingmaður teldi till. sínar bæta úr því. Um það vil jeg ekki þrátta, aðeins benda á það, að brtt. háttv. þm. (J. Þ.) eru, að efni til, teknar upp úr samsvarandi grein frv., og jeg fæ ekki sjeð, að orðalag þeirra nái betur þeim tilgangi, sem ætlast er til. Jeg hefi áður sýnt fram á þetta, og tel óþarfa að gera það aftur, en ef háttv. deildarmenn eru enn í vafa, bið jeg þá að lesa saman 15. gr. frv. og brtt., og sannfæra þannig sjálfa sig. Það er á báðum stöðum gert ráð fyrir að veita lán til jarðabóta út á jarðeignir, en þau lán á ekki að greiða fyr en jafnóðum og jarðabæturnar eru gerðar. Samkvæmt frumvarpinu njóta þessi lán sama rjettar, þó að þau sjeu í raun og veru lakar trygð en önnur lán, eða með öðrum veðrjetti. Vaxtabrjefin, sem bankinn gefur út fyrir þessum lánum, verða trygð eins og önnur brjef hans. Tryggingin í heild sinni verður ef til vill rýrari, en með þessu eru þó einmitt jarðabótalánin gerð auðveldari á kostnað annara lána. Ef til væri sjerstök stofnun fyrir þessi lán eingöngu, gæti slíkt ekki orðið, og yrðu því brjef þeirrar stofnunar ver trygð en hin brjefin, og stofnunin stæði ver að vígi. Brtt. háttv. þm. (J. Þ.) geta því ekki orðið til þess að hlaða undir jarðabótalánin, heldur þvert á móti.

Um aðrar brtt. háttv. þm. (J. Þ.) get jeg verið stuttorður. Jeg get fallist á sumar þeirra, þó að jeg sjái ekki sjerstaka ástæðu til þess að samþykkja þær. Helst væri það till. um virðingamar, en hún er í beinu sambandi við tvískiftinguna, og kemur því ekki sjerstaklega til atkvæða. Jeg er heldur ekki á móti brtt. við 16. gr., en þó vil jeg benda á það, að slíkt ákvæði, sem þar er um að ræða, er ekki einsdæmi eða með öllu óþekt í löggjöf. Erlendis er veðbönkum gefin heimild til að hafa hönd í bagga með hvernig sveitar- og bæjarfjelög haga sjer í lántökum sínum, og sje jeg ekki sjerstaka ástæðu til að óttast það.

Brtt. við 22. gr. er ekki stórvægileg, en vera má, að heppilegra sje að taka þetta fram.

Um lántökugjaldið er það satt, sem hv. þm. (J. Þ.) sagði, að það hefir ekki þekst hjer fyr en í 4. veðdeild; en það er ekki eins óskiljanlegt eða óþarft og háttv. þm. (J. Þ.) vill vera láta. Þetta tíðkast annarsstaðar, og er vitanlega til þess eins að efla stofnunina, sem sje, að afla með því varasjóðnum tekna. Sama er að segja um eigendaskiftagjöldin. Bankanum er nauðsynlegt að „fylgjast með“ öllum eigendaskiftum, því að verðmæti veðanna og trygging sú, sem í þeim felst, getur farið eftir því, hver á þau. Þess vegna er sjálfsagt að leggja einhverjar sektir við því, ef bankanum er ekki gert aðvart um eigendaskiftin. En þess er vert að geta, að í 4. flokki veðdeildar er þetta skyldugjald, sem greiða ber við öll eigendaskifti, hvort sem þau eru tilkynt eða ekki.

Þá vill háttv. þm. (J. Þ.), að stjórnin borgi út stofnfje bankans smátt og smátt. Stjórninni er þetta vitanlega í sjálfsvald sett, og gæti hún gert hvort sem hún vildi. En jeg tel óheppilegt að draga úr tryggingunni af ásettu ráði, með því að ákveða þetta. Það þarf ekki að óttast, að ríkisstjórnin eigi erfitt með að greiða þessa tryggingu, því hún getur lagt hana fram í ríkisskuldabrjefum, ef henni líst svo. Þá hefi jeg minst á aðalatriðin úr ræðu háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), og svarað því, sem jeg áleit athugavert.

Jeg sný mjer þá að háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) og till. hans á þskj. 320. Hann gat þess, að það væri á valdi bankastjórnarinnar, hve langt ætti að ganga í því, að láta landbúnaðinn sitja í fyrirrúmi. Þessi ummæli áttu að taka broddinn af till. hans og gera hana aðgengilegri. En jeg hygg, að svo fari, sem hv. þm. (St. St.) benti á, hvaða skorður, sem kunna að verða reistar. Bankastjórnin hlýtur altaf að ráða því, hvað langt skuli ganga í þessu efni, og ómögulegt er að gefa ákveðna reglu um það. Setjum svo, að bankastjórninni berist á einum degi 20 lánbeiðnir úr kaupstöðum, en 10 úr sveitum; hvað á hún þá að gera? Ef hún veitir 9 af kaupstaðabeiðnunum, en 5 af hinum, þá er ilt að segja, hver sitji í fyrirrúmi í raun og veru. Eins geta tryggingarnar verið mismunandi og bankastjórnina vantað fje, þegar lánbeiðnirnar berast t. d. frá sveitunum. Ef setja ætti ströng ákvæði, yrði það engum til góðs; það yrði til þess eins, að komið gæti fyrir, að bankinn lægi með fje sitt og þyrði ekki að binda það.

Hæstv. fjrh. (M. G.) beindi spurningu til nefndarinnar um vextina af fje stofnsjóðsins, eða þeim sjóðum, sem hann verður stofnaður af. Hann sá eftir þeim, og skal jeg ekki lá honum það. Honum þótti óþarfi að ætla varasjóði bankans svo miklar tekjur, og benti á varasjóði veðdeildanna. En þeir eru aðeins til tryggingar veðdeildinni, eins og hún er nú, eða hennar vaxtabrjefum. Við tryggingu þeirra brjefa má ekki hrófla, og verður þessu því ekki breytt. Og þó að ríkissjóður missi vexti af þessum margumræddu sjóðum, þá er þess að gæta, að þeim verður varið til að efla stofnunina, og er þetta því ekki sama sem að kasta þessu fje á glæ. Það getur þó komið til mála, að nefndin geti fallist á, að bankinn greiði hærri vexti en 2% — að þeir hækki t. d. úr 2% í 3%, en jeg tel vafasamt, að það sje til bóta, því ríkissjóð munar þetta ekki miklu, en bankanum er það meira virði.

Þá spurði hæstv. ráðherra (M. G.) hvers vegna ætti að skrásetja vaxtabrjef bankans í stjórnarráðinu. Jeg býst við, að það sje aðeins tryggingarákvæði, en jeg hefi ekki athugað það nánar, hve verulega þýðingu það hefir.

Hæstv. ráðherra kunni illa við það, að svo er fyrir mælt, að bankastjórnin semji, en ráðherra staðfesti reglugerð bankans. En þetta ákvæði er, eins og nú er, í veðdeildarlögunum, og sje jeg ekki ástæðu til að amast við því.

Þá var hæstv. ráðherra (M. G.) eitthvað að amast við ákvæðum 19. greinar frv. En í því sambandi þarf hann ekkert að óttast, því að með þessum ákvæðum er ríkissjóður vitanlega ekki skyldaður til að takast neina ábyrgð á hendur. Ákvæði þessi koma því aðeins til framkvæmda, að þingið taki síðar upp þá stefnu að hlynna að grasbýlarækt á landinu á þennan hátt, með því að ábyrgjast þannig lán til þeirra, eða í öðru lagi getur hjer verið um að ræða húsabyggingar í kaupstöðum o. fl. Hann viðurkendi þó, að vel mætti vera, að farið yrði að vinna að ræktun landsins með grasbýlarækt, en það liggur í augum uppi, að til þess þarf fje, og það fje er tæplega hægt að fá nema með einhverjum tilstyrk ríkissjóðs. Sama er að segja um húsagerð, ef húsnæðisskortur þrengir að, og hefir stjórnin viðurkent það, með því að styðja slík byggingarfyrirtæki, sem hjer er um að ræða, þó ekki hafi það verið í stórum stíl.

Loks taldi hæstv. ráðherra (M. G.) óþarfa að launa bankastjóra og endurskoðendur Landsbankans fyrir störf þeirra við þessa bankastofnun. Við álítum það þó viðkunnanlegra, og það er heppilegra, ef það er rjett, að menn vinni betur það, sem vel er launað. Við gerum þetta ekki að kappsmáli, að minsta kosti ekki hvað endurskoðendurna snertir. Þeirra starf verður væntanlega svipað því, sem verið hefir. Um bankastjórana er nokkuð öðru máli að gegna, því að þeir verða að ætla starfi sínu við veðbankann sjerstakan tíma, og verður starfið þannig beinlínis aukið starf á þeim frá því, sem verið hefir.

Jeg ætla svo ekki að segja fleira að sinni. Jeg get yfirleitt verið þakklátur háttv. þingmönnum fyrir það, að þeir hafa talað vingjarnlega um málið, og jeg vona, að frv. nái fram að ganga með sem minstum breytingum.