16.04.1921
Neðri deild: 45. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (2318)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. (Jakob Möller):

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) virðist hafa misskilið, eð.i að minsta kosti ekki lagt alveg rjettan skilning í orð mín um samband veðdeildarinnar og bankans. Hann virtist skilja þau svo, að jeg teldi stjórn bankans óvinveitta veðdeildinni. Það hefi jeg ekki sagt. En hitt sagði jeg, að það væri ekki nema eðlilegt, að bankastjórarnir ljetu sig aðalbankann mestu varða, en veðdeildin sitji þar af leiðandi nokkuð á hakanum.

Jeg held því enn fram, að veðbankinn eigi að verða óháður Landsbankanum, en þó hefi jeg ekki þar með sagt, að hverskonar samband hljóti að vera stórskaðlegt veðbankanum í byrjun.

Og jeg get vel fallist á það, að eitthvert samband við hinn bankann hafi einhver þægindi í för með sjer fyrir veðbankann fyrst framan af, meðan ekki er kleift að fá honum forstjóra, sem ekki þurfi um annað en hann að hugsa, því jeg læt mjer ekki koma til hugar, að meðstjórnendur veðbankastjórans, bankastjórar Landsbankans, muni leggja stein í götu hans. En svo má nokkuð í milli vera, hvort veðbankinn er algerlega undir sömu stjórn og Landsbankinn, eða algerlega slitinn frá honum. Og nú gerir frv. ekki ráð fyrir því að slíta sambandinu algerlega fyrst í stað, og þarf þá engin grýla að vera að svo komnu.

Þar sem háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) vjek að því, að hjer á landi væri alveg sjerstakur markaður fyrir jarðræktarvaxtabrjef, þá held jeg, að því sje frekar slegið fram sem líklegri tilgátu, vegna þess, að háttv. þm. (J. Þ.) hyggur, að menn vilji kaupa þessi brjef sjerstaklega vegna velvildar til jarðræktarinnar. Jeg hefi ekki eins mikla trú á þessari velvild. Það kann að vera, að einhverjir kaupi slík brjef fyrst í stað, sjerstaklega með það fyrir augum að styðja að lánveitingum í þessa átt, en jeg hefi heldur litla trú á því til frambúðar. Þessari „almennu velvild“ eru oftast takmörk sett.

Það hefir verið fundið að því, að brtt. á þskj. 258 sje óhönduglega orðuð, þar sem sagt sje að „bankinn hafi takmarkað fje til umráða“. Hæstv. fjrh. (M. G.) segir, að þetta sje lokleysa, því að vitanlega geti bankinn aldrei haft ótakmarkað fje. Jeg get þó ekki sjeð, að það sje nein vitleysa að komast svo að orði, því það er vitanlegt, að eftirspurnin er takmörkuð, því að bankinn má aðeins veita lán gegn 1. veðrjetti í fasteignum, eða álíka öruggum tryggingum. Ef hann hefir nægilegt fje til að fullnægja þessari eftirspurn og meira, þá má vel segja, að hann hafi ótakmarkað fje til umráða. En þá hefir hann takmarkað fje, ef hann getur ekki fullnægt eftirspurninni. En jeg viðurkenni, að háttv. tillögumenn hefðu getað orðað þetta betur; en ekki ættu menn að setja það svo mjög fyrir sig, að þeir þess vegna samþ. fremur till. á þskj. 320.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði, að það stafaði af ónógri athugun hjá mjer, að jeg áleit, að bankinn mundi standa ekki lakar að vígi til að veita jarðræktarlán, þó brtt. hans ekki yrðu samþyktar. En jeg held, að þessum háttv. þm. (J. Þ.) hafi orðið það á að gera aukaatriði að aðalatriðum, einmitt af því, að hann hafi ekki athugað málið nógu vandlega. Ákvæðið, sem hann vill koma að um virðingamar, er að mínu viti algert aukaatriði. Það getur aldrei orðið neinn þröskuldur á vegi manna, sem þurfa að fá lán, að þeir verða að láta nýja virðingu fara fram á eign sinni. Og auk þess hygg jeg, að ákvæði frv. sje alveg fullnægjandi. Það getur engu máli skift, hvort fyrirhugaðar jarðabætur á að vinna á 4–5 árum eða alt að 10 árum; því að þær má ,eins meta fyrirfram, hvort sem er, og ákveða lánsupphæðina eftir því.

Jeg sagði nú að vísu við 1. umr., að jeg hefði athugað frv. svo vandlega, að jeg þættist geta fullyrt, að á því þyrfti engar breytingar að gera. En þar með sagði jeg auðvitað ekki, að það væri loku skotið fyrir það, að aðrir gætu sjeð betur og fyndu eitthvað, sem ástæða væri til að breyta. Og þannig gæti jeg, háttvirtum sþm. mínum (J. Þ.) til þægðar, vel fallist á slíka breytingu, sem hjer um ræðir, ef sjerstök tillaga kæmi þar að lútandi til 3. umræðu. En eins og hún er, er ekki hægt að samþykkja hana.

Þá er það fullkominn misskilningur hjá háttv. samþm. mínum (J. Þ.), að ekki sje hægt samkvæmt frv. óbreyttu að gefa út sjerstaka brjefaflokka til styttri tíma en gert er ráð fyrir, að vaxtabrjefin sjeu yfirleitt í umferð. Það er að vísu svo fyrirmælt, að ekki megi vera nema tveir flokkar (seríur) opnar í einu, en innan þeirra flokka geta verið sjerstakar deildir til mislangs tíma.

Þá vjek háttv. samþm. minni (J. Þ.) að leiguliðalánum. Jeg sje ekki, að betur sje sjeð fyrir þeim með till. hans heldur en í frv. sjálfu. Það þarf talsvert meira til þess, að slík lán verði veitt, en í hans tillögum felst. Það er rjett, að í frv. er ekki gert ráð fyrir því, að lán sjeu veitt út á jarðabætur aðskildar frá jörðu. Það er heldur ekki í brtt., og það verður aldrei gert, því að jarðabæturnar verða aldrei frá skildar, jafnvel þó að leiguliði hafi lífstíðarábúð. Því ef leiguliðinn deyr áður en lánið er endurgreitt, þá er tryggingin þar með farin, því jarðabótin verður ekki skilin frá jörðinni, en hún er annars manns eign. Til þess að bæta úr þessu, þarf að setja sjerstök lög, og þá á þá leið, að jörð skuli vera að veði fyrir slíkum lánum, þó að lántakandi sje ekki eigandi jarðarinnar. En til þess að það verði gert, þarf ekki brtt. háttv. samþm. míns (J. Þ.) með.

Háttv. frsm. minni hl. (J. A. J.) talaði í svipaða átt og áður. Hann þóttist ekki vera skyldur til að sanna, að staðhæfingar sínar um, að brjefin væru óseljanleg, væru rjettar, en kvaðst hafa leitt sterkar líkur að því. Jeg neita því, að þær líkur sjeu svo sterkar, að þær ósanni reynslu allra annara þjóða. Það má vel vera, að þau seljist illa í byrjun, því alt nýtt mætir venjulega mótspyrnu og ótrú. Líkt má segja um sölu ríkisskuldabrjefa. Þau hafa aldrei verið seld fyr hjer á landi, og þess vegna get jeg neitað því, að sala þeirra hafi gengið hrapallega. Það seldist af þeim fyrir miljón króna, og jeg get ekki sagt annað en að það sje ágæt útkoma í fyrsta sinni. Meira átti aldrei að selja almenningi, og þó að salan gengi seint, verður að taka tillit til þess, hvað lítið var gert til þess að fá menn til að kaupa þau. (Fjrh.: Þess þurfti ekki, þau seldust samt). Það er rjett hjá hæstv. fjrh. (M. G.), þau seldust samt, og jeg verð að halda því fram, að sú sala gefi mikið fremur góðar vonir um sölu slíkra brjefa í framtíðinni.

Háttv. frsm. (J. A. J.) heldur, að fasteignavextir sjeu og eigi að vera óbreytanlegir. En þetta er vitleysa. Fasteignalánavextir hljóta að hækka og lækka með öðrum vöxtum. Í öðrum löndum mun þeim að vísu hafa verið haldið óhreyfanlegum, víðast hvar að minsta kosti. En af því leiðir auðvitað að sjálfsögðu verðfall á vaxtabrjefunum, þegar almennir vextir hækka. Eru menn nú alment farnir að viðurkenna það, að hitt muni heppilegra, að hafa vextina breytilega.