19.04.1921
Neðri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (2323)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. (Jakob Möller):

Það er algerlega misskilningur hjá hæstv. ráðherra (M. G.), að jeg hafi sagt, að bankinn gæti ekki starfað, ef brtt. hans yrðu samþ. Bankinn starfar jafnt fyrir því. En ef halli verður á rekstri hans, þá á ríkissjóður að borga það fje, samkvæmt frv. En jeg vil ekki, að þannig sje um hnútana búið, að bankinn þurfi að leita styrks til ríkissjóðs, svo að segja til daglegra þarfa. Jeg held að það væri miklu hollara fyrir þessa stofnun, að geta orðið sjálfstæð, og það sem fyrst.

Hins vegar finst mjer, að hæstv. fjrh. (M. G.) geri helsti mikið úr því, hve erfitt sje að ná í fje í ríkissjóðinn. Og jafnvel þó erfitt sje um fjárhaginn í bili, þá má þó gera ráð fyrir því, að úr þessum vanda rakni aftur, áður en langt líður, og er því rangt að miða svo mjög við það í þessu sambandi.

Þetta bankamál er framtíðarmál, og jeg sje ekki, að það sje rjett að skera öll framlög til hans við neglur sjer, þó að nú sje hart í ári fyrir ríkissjóðinn.