19.04.1921
Neðri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2172 í B-deild Alþingistíðinda. (2326)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg skildi ekki hvað háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) átti við með því, að þeir sem ætluðu sjer að fylgja frv., „yrðu að byggja trú á að koma málinu í gegn“.

Jeg er ekki eins hræddur og háttv. meiri hluti við það, þó bankinn þurfi að greiða fulla vexti af því fje, sem honum er fengið. Arður bankans á vitanlega að geta borgað meira en rekstrarkostnaðinn, og bankinn á ekki að lifa á hlunnindum á ríkissjóðs kostnað. í öðrum löndum, þar sem heilbrigðara skipulag er á bankamálum en hjer á landi, er slík aðferð ekki við höfð. En með hinu fyrirhugaða skipulagi er sýnilegt, að bankinn verður að fá fleiri tugi þúsunda króna styrk frá stofnsjóðunum eða ríkissjóði, til þess að geta borgað rekstrarkostnaðinn. Ef þetta er ekki tómthúsmenskustimpill á peningastofnun, veit jeg ekki, hvernig markað verður skýrara.

Jeg skil vel stefnu hæstv. fjrh. (M. G.) og annara gætinna manna, sem vilja ekki binda alt þjóðjarðafje fyrir fram. Og það þarf engan að undra, að minni hlutinn, háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) og jeg, getur fallist á þessa skoðun, þar sem við álítum, að bankinn muni ekki koma að neinum verulegum notum í fyrirsjáanlegri framtíð.

Háttv. frsm. meiri hl. (Jak. M.) segir, að það gildi einu, í hvorn vasann er látið, ríkissjóðs eða veðbankans. Sá er þó munurinn, að vasi veðbankans er með einu meinlegu gati, og út um það gat fer alt, sem ríkissjóður leggur fram af vöxtum stofnsjóðanna, og skilar því í vasa bankastjórnarinnar, sem að óþörfu gleypir tugi þúsunda á ári hverju.

Jeg bjóst við því, að flytjendur frv. myndu jafnhliða því flytja frv. til breytinga á þeim lögum, sem ríða í bág við veðbankafrv. Jeg vil þar benda á 16. gr. laga nr. 50, 1917, og lesa hana upp, með leyfi hæstv. forseta.

Hún hljóðar svo:

„Eign kirkjujarðasjóðsins skal ávaxta sem óskerðanlegan höfuðstól, og skal árlega leggja við innstæðuna 5% af árstekjunum, en að öðru leyti ganga vextirnir í prestlaunasjóð, til að launa sóknarpresta þjóðkirkjunnar“.

Þetta og fleira nægir til að benda á undirbúningsleysið og flaustrið í þessu máli.

Annars er málið svo lítt undirbúið, að jeg tel það hrapallegt að samþykkja það á þessu þingi. Það er líka afaróheppilegt að ráðast í bankastofnun þegar lánsvextir eru með hæsta móti. Það hlýtur að verða til þess að minka traust bankans hjá lántakendum, þegar bankinn byrjar með svona háum vöxtum. Og ekki verður það til að auka traust þeirra, sem eiga að kaupa bankavaxtabrjefin. Það er ekki hægt að sauna, að við höfum á rjettu að standa í þessu, en allar líkur benda til þess.

Jeg hefi heyrt því fleygt, að forlög frv. muni vera ráðin hjer í deildinni. Jeg vil því ekki draga tímann til einskis, en læt þá, sem rjeðu því, að frv. kom fram, ráða úrslitum þess. Vegna þekkingar minnar á þessum málum, hefi jeg ekki getað látið frv. ganga fram mótmælalaust.