19.04.1921
Neðri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2177 í B-deild Alþingistíðinda. (2329)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Gunnar Sigurðsson:

Jeg get lýst því yfir, að mjer er þvert um geð, að veðbankinn sje í nokkru háður Landsbankanum. En jeg ætla mjer ekki að gera það að kappsmáli nú, en jeg álít, að þingið eigi að telja það skyldu sína að gera hann sem fyrst sjálfstæðan.

Þá er það dagskrá háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Mjer finst stundum, að jeg sje ekki staddur á Alþingi þegar jeg er hjer í deildinni; sjerstaklega á þetta sjer stað þegar um stórmál er að ræða. Það er verið að hrúga upp frv. um alt mögulegt, sem engu varðar, en þegar stórmál koma, þá vilja sumir, og þá sjerstaklega háttv. þm.

N.-Ísf. (S. St.), vísa þeim frá með rökstuddri dagskrá.

Jeg held, að ekkert stórmál hafi verið betur undirbúið en þetta. Hæfur maður hefir rannsakað það ítarlega, og stjórnin hefir áður leitað álits fróðs manns erlendis, Krabbe skrifstofustjóra. Hann áleit ekki tiltækilegt að hafa stofnanirnar tvær, enda tíðkast það hvergi. Það væri haganlegast að hafa landbúnaðinn í sambandi við kaupstaðina, og þegar svo er ákveðið, að hann skuli sitja í fyrirrúmi, ætti það ekki að verða til óhagræðis. Það væri til einskis gagns að vísa málinu nú til stjórnarinnar og láta hana grauta í því til næsta þings, því jeg skil ekki, að hún geti mikið um bætt. Málið er orðið svo þaulundirbúið, að varla er þess að vænta, að nokkuð veigamikið komi fram í því, sem nýtt er. Og það þætti mjer lítill sæmdarauki þessu þingi, að fresta þessu frv. og láta stjórnina sitja á því um óákveðinn tíma, þegar það hefir eytt tíma sínum í hjegómleg frumvörp, sem vel hefðu mátt bíða, eða betur væru ófædd. Þetta er ekki sparnaður á starfskröftum þingsins.