19.04.1921
Neðri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2185 í B-deild Alþingistíðinda. (2334)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg vil aðeins svara háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) nokkrum orðum, og er það ekki vanþörf, því að hann hefir algerlega misskilið, hvað hjer er á ferðinni. Hann sýnist ekki vita það, að vextir ræktunarsjóðsins og kirkjujarðasjóðsins eru notaðir til árlegra gjalda ríkissjóðs, svo að það hefir sannarlega mikið að segja fyrir hann, hvaða vexti þessir sjóðir gefa. Þjóðjarðasala og kirkjujarða heldur áfram fullum krafti, og engar líkur til þess, að frá þeirri stefnu verði horfið, heldur er þvert á móti ýmislegt, sem bendir til þess, að kauptúnin verði einnig seld, og þá kemur stórfje í þessa sjóði. Og jeg veit það og sje vel, að það er ekkert vit í að festa þetta fje alt í þessum banka, því að það er líka rangt, að hægt sje að breyta þessu þegar vill, því að það væri að rýra tryggingu fyrir bankavaxtabrjefunum, og það er ekki hægt, nema samþykki eigenda þeirra komi til, en slíkt samþykki er ómögulegt að fá, þegar af þeirri ástæðu, að enginn veit, hvar eigendur eru, nema lítill hluti þeirra.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) þótti það smámunasemi af mjer að láta mig skifta 60–100 þús. kr. á ári. Hann um það, en jeg skammast mín ekki fyrir það, og það man jeg, að í gær barðist hann á móti 50.000 kr. árlegum skatti (bifreiðaskattinum), af því að hann hjelt, að hann mundi eyðileggja landið. Jeg ann háttv. þingmanni vel þessarar sanngirni, sem hjer kemur fram.