19.04.1921
Neðri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2187 í B-deild Alþingistíðinda. (2336)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Jón Þorláksson:

Jeg veit, að maður verður að venja sig á það í allri þolinmæði að hlusta á rangfærslur og útúrsnúninga, án þess að taka til máls, en mjer fanst hv. þm. Dala. (B. J.) ganga svo langt í þessu, að jeg get ekki þagað við því. Hann hafði eftir þm. N.-Ísf. (S. St.) tvö atriði, og rangfærði bæði.

Fyrst var það, að háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sagði, að verðbrjef þessa banka mundu ekki seljast, og það hefir verið gerð grein fyrir því, að brjef, sem miðuð væru við hæstu útlánsvexti, sem mega vera á fasteignaveðlánum, mundu ekki seljast. Úr þessu gerði hv. þm. Dala. (B. J.) það, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefði sagt, að íslensk verðbrjef gætu alls ekki selst. Það sjá allir, að þetta er alt annað en sagt var.

Hitt atriðið voru þau ummæli háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að fjárhagur landsins væri nú svo erfiður, að varhugavert væri að festa sjóðina, þar eð svo gæti farið, að til þeirra þyrfti að grípa. Þetta skyldi hv. þm. Dala. (B. J.) svo, að sjóðina ætti að uppeta. Jeg held, að allir sjái, að með þessu frv. er verið að taka mikið verðmæti af ríkissjóði og setja það sem tryggingu fyrir nýjum skuldbindingum. Það er auðsætt, að tryggingar ríkissjóðs eru skertar með þessu, og það er mjög varhugavert. Ríkissjóður skuldar nú á annan tug miljóna. Háttv. þm. Dala. (B. J.) vill nú láta ríkissjóð taka enn lán og auka skuldirnar. Og ef til lántöku kemur fyrir ríkissjóð, býst jeg við, að lánveitendur líti fyrst og fremst á það, hvaða eignir ríkissjóður eigi, eða með öðrum orðum, að þá þurfi að taka til þessara trygginga. Það er því ekkert undarlegt. þótt varhugavert þyki að láta þessar eignir ríkissjóðs til trygginga annara framkvæmda. Og það er ekki annað en skilningsleysi þm. Dala. (B. J.), sem birtist í ummælum hans um að taka sjóðina til þess að eta þá upp.