14.05.1921
Efri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2200 í B-deild Alþingistíðinda. (2343)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Sigurður Eggerz):

Eins og háttv. frsm. meiri hl. (B. K.) tók fram, var ágreiningur innan nefndarinnar um þetta mál. Meiri hl. vill fresta málinu: en minni hl. ræður eindregið til, að málið nái fram að ganga og frv. verði samþ., helst án brtt. Enda er það svo, að verði frv. breytt hjer, mun tæplega vinnast tími til að afgreiða málið á þessu þingi.

Vil jeg þá fyrst víkja að nefndaráliti meiri hl. og svo að brtt.

Háttv. meiri hluti talar um, að minsta kosti fram til 1919 hafi veðdeildin verið ódýrasta lánsstofnunin, sem kostur var á, og það af því, að þangað til hafi Landsbankinn haldið uppi verðinu á bankavaxtabrjefunum. En eftir 1919 hafi þetta breyst og bankinn hætt að halda uppi verði þeirra. Höfuðmisskilningur nefndarinnar er í því fólginn, að hún heldur, að veðdeild eða veðbanki geti sjálfur ráðið því, með hvaða verði menn vilja kaupa vaxtabrjefin, en slíkt fer auðvitað eftir því, hvernig eftirspurnin er eftir brjefunum, en það fer eftir peningamarkaðinum eða almennum peningavöxtum. Í raun og veru er eðlilegt, að Landsbankinn kaupi brjefin með fullu tilliti til hvernig peningamarkaðurinn er; alt það, sem hann gefur fyrir þau þar fram yfir, er í raun og veru gjöf til veðdeildarinnar, en ekki „bankmæssigt“. Nú er enginn markaður fyrir veðbrjefin, því menn geta fengið hærri vexti fyrir peninga sína annarsstaðar. Af því leiðir, að veðbrjefin hafa hækkað. (B. K.: í hvaða verði eru þau nú?). Jeg veit það ekki nákvæmlega. (R. K.: Jeg held þau standi í 74%). Þegar verðbrjefin eru komin svo lágt, veigra menn sjer við að taka veðdeildarlán, jafnvel þótt „effektiv“ vextir af láninu væru á þeim tíma, sem lánið væri tekið, ekki hærri en peningamarkaðurinn er, því bæði kemur sjer illa að missa svo mikinn hluta af láninu strax, betra að missa í hærri vöxtum yfir lengri tíma, og auk þess, þegar lánið er einu sinni tekið, við þessu „kúrs“-falli, þá þýðir ekki að endurgreiða það, þó vextirnir lækkuðu, því kúrsfallið verður að nást upp á löngum tíma. Menn mundu mikið fremur vilja taka lán með hærri vöxtum og litlum afföllum, því ef peningamarkaðurinn lækkar og vextirnir fara mikið niður, þá er hægt að endurgreiða lánið og fá nýtt lán með betri kjörum.

Af þessu sjest, að eins og nú standa sakir, er ekkert gagn að veðdeild Landsbankans, bæði seljast brjefin ekki og afföllin á þeim svo mikil, að menn treystast ekki til að taka lán.

Háttv. meiri hluti efast um, hvort lögum samkvæmt megi leggja veðdeildina undir Ríkisveðbankann. Þetta virðist þó varla geta verið efamál, þar sem allar reglur veðdeildarinnar haldast óbreyttar, að því er þær og brjef þeirra snertir. Eftir sömu reglu mætti þá ekki hagga við stjórn og fyrirkomulagi Landsbankans, frá því, sem var þegar veðdeildin var stofnuð. Rjett er það, að í þingsályktunartillögunni var eingöngu gert ráð fyrir landbúnaðarbanka, en hjer í þessu frv. er bankanum ætlað stærra verksvið. Jeg býst við því, að sökum þess, hve fámennir vjer erum enn, muni ekki hægt að hafa eins margar tegundir banka hjer eins og annarsstaðar.

Þá vík jeg nokkuð að sjóðunum, sem á að nota sem stofnfje. Það er rjett, að sjóðir þessir eru stofnaðir í þeim tilgangi, sem segir í nefndarálliti meiri hlutans, og vafalaust hafa þeir gert mikið gagn, en spursmálið verður, hvort þeir verða ekki að enn meira gagni með því að nota þá sem seglfestu í Ríkisveðbankann. Því meiningin með Ríkisveðbankanum er að byggja hann svo upp, að hann geti bætt úr þeirri brýnu þörf, sem er á því, að geta fengið lán út á fasteignir til lengri tíma.

Háttv. framsögumaður meiri hl. (B. K.) sagði, að það ætti eingöngu að nota þetta fje til tryggingar, en mætti ekki nota það til veltu: en þetta er rangt hjá háttv. frsm. (B. K.), því að í 30. gr. stendur: „Jafnóðum og bankinn innheimtir lán þau, er stofnsjóður verður útlagður með samkvæmt 4. gr., skal ávaxta stofnsjóðinn í íslenskum ríkisskuldabrjefum, bankavaxtabrjefum bankans sjálfs eða öðrum verðbrjefum, er bankastjórn og stjórnarráð telja trygg“. Og seinna í sömu grein stendur: „Má og verja því fje til útlána um stuttan tíma, ekki yfir 6 mánuði, gegn handveði í bankavaxtabrjefum bankans“. Það er nú í þessari grein sagt beinum orðum, að fjenu megi verja til útlána um styttri tíma, og auk þess er sagt, að fyrir stofnsjóðinn megi kaupa bankavaxtabrjef, en bankavaxtabrjefin eru einmitt seld til þess að útvega bankanum veltufje. Þetta sýnir ljóslega og ómótmælanlega, að stofnsjóðurinn hefir fleiri hlutverk en að vera til tryggingar, þar sem bæði má brúka hann til að útvega bankanum veltufje, og svo beint til útlána.

Háttv. meiri hluti heldur því fram, að hlutverk sjóðanna fari að miklu leyti forgörðum, með því að leggja þá inn í bankann, og að þeir komi að meiri notum þar, sem þeir eru nú. En það er efasamt, hvort t. d. ræktunarsjóðurinn kemur að meira haldi nú en hann mundi gera með því að styðja að því, að þessi banki kæmist á fót, sem gera má fastlega ráð fyrir, að nái langtum lengra en smásjóðir með lánum sínum. Einnig segir háttv. meiri hluti, að það sje mjög varhugavert að taka viðlagasjóðinn og binda hann í lánum, því það geti veikt lánstraust landsins. En fyrst er nú það, eins og kunnugt er, að viðlagasjóður er nú aflmjög bundinn í lánum, og svo er á hitt að líta, að Ríkisveðbankinn verður eign landssjóðs, og fer því sú miljón, sem taka á úr viðlagasjóðnum, úr einum landssjóðsvasanum í annan, og verður varla sjeð, að það geti veikt lánstraustið.

Það bergmálar nú í báðum deildum, sem varla mátti nefna í byrjun þingsins, að eina leiðin til þess að losa landið úr þessum vandræðakröggum, sem það nú er í, sje að taka lán. Og víst er um, að þetta er rjett; þarna er bráðabirgðahjálpin, en til þess að tryggja framtíð landsins er ein leið, sú, að styrkja atvinnuvegi vora og styðja alla framleiðslu landsins. Og varla verður sjeð, að annað mundi meira hjálpa annari aðalgrein framleiðslu vorrar, landbúnaðinum, en löng lán, sem banki eins og þessi ætti að geta veitt.

Vitaskuld er það, að aðalskilyrðið fyrir því, að bankinn geti starfað, er, að hægt sje að fá nægilegt veltufje handa honum, með því að útvega markað fyrir bankavaxtabrjefin; og þó þessu máli væri nú frestað til næsta þings, þá er engin ástæða til að ætla, að málið verði betur undirbúið þá en það er nú, og það verður heldur ekki hægt að segja þá með meiri vissu en nú, hvort hægt verður að selja bankavaxtabrjef. Um slíkt er ekki hægt að segja með vissu, fyr en tilraun hefir verið gerð í þá átt. En það vita allir, hve afar þýðingarmikið mál þetta er, og það er því sjálfsagt að gera þessa tilraun sem allra fyrst.

Ákvæðin um lánshæðina út á fasteignirnar telur hv. meiri hl. að sjeu bygð á of mikilli bjartsýni. En eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið um þetta efni, þá mun þessi leið vera sú, sem mest tíðkast erlendis, þó það sje að vísu nokkuð misjafnt; t. d. má geta þess, að „Landmandsbanken“ lánar út á 3/5 virðingarverðs, og svo mun vera um fleiri banka. Einnig ber að gæta þess, að það, sem er sett hjer í frv., er hámarkið, en svo getur reglugerð sú, sem samin verður, sett takmarkanir á því, hve mikið er lánað út á fasteignir. Hitt er annað mál, að virðingar á fasteignum nú eru svo óábyggilegar og ónákvæmar, að ekki er hægt að reiða sig á þær, og meðan þessu er ekki kipt í lag, hjálpa varla nokkur lágmarksákvæði fyrir því, hvað lána megi, ef óheppni er með. Þess vegna verður bankinn að hafa menn í sinni þjónustu, sem treysta megi á, að meti með rjettsýni og samviskusemi, og ef þessu verður kipt í lag, þá mun varla stafa hætta af því, þó hæst megi lána út á 3/5 af andvirði jarðanna. Það má heldur ekki sýna altof mikla hræðslu í lánveitingunum, því þá gæti svo farið, að lánin gætu ekki komið að þeim notum, sem ætlast er til.

Háttv. meiri hluti heldur því fram, að ef útvega ætti markað erlendis fyrir brjefin; þá væri mjög hættulegt að hafa hámarkið svo hátt, sem frv. fer fram á, en jeg get ekki sjeð, að hjer sje um annað en grýlu að ræða, þar sem ákvæði eins og þetta tíðkast einnig erlendis.

Háttv. meiri hluti telur, að rjettara væri að hafa sjerstakar lánsstofnanir fyrir landbúnaðinn, og aðrar fyrir hús og sjávarútveg, í líkingu við „Kreditforeninger“ í Danmörku og Þýskalandi, en jeg held, að of margar lánsstofnanir mundu gera sölu brjefanna örðugri, því altof margar tegundir brjefa mundu fremur flækjast hver fyrir annari.

Böðvar Bjarkan upplýsir í athugasemdum sínum, að í Svíaríki hafi reynslan orðið sú, að lánsfjelögin eyðilögðu hvert annað, og var þess vegna það ráð tekið að sameina þau í einn veðbanka, með víðtæku starfsviði.

Af þessum ástæðum, sem jeg nú hefi tekið fram, þá er jeg eindregið á móti rökstuddu dagskránni, sem háttv. meiri hluti hefir borið fram, og vona jeg, að málið fái jafngreiðan gang í þessari háttv. deild eins og það fjekk í háttv. Nd., og að dagskráin verði því feld. Það er mjög mikil nauðsyn á, að mál þetta nái sem fyrst fram að ganga, og það hefir verið svo að segja óskiftur áhugi fyrir því á Alþingi, og gömul tillaga er það hjeðan frá Alþingi, að bankastofnunin verði bygð á þessum sjóðum.

Jeg leyfi mjer því að hverfa frá þessum almennu athugasemdum við frumvarpið, og vil með nokkrum orðum minnast á brtt. þær, sem háttv. meiri hluti hefir komið fram með, og geri jeg það í því trausti, að rökstudda dagskráin verði feld.

1. brtt. er við 4. gr., að greinin orðist svo: „Stofnfje bankans greiðir ríkissjóður af hendi, þegar ríkisstjórnin sjer það fært“. Þessi breyting er alveg sama sem að drepa málið, eða að minsta kosti að draga það um ófyrirsjáanlega langan tíma. Jeg skil brtt. svo, að það sje gert ráð fyrir, að stofnsjóðurinn sje lagður fram í peningum. En hvenær má búast við því, að ríkissjóður hafi svo mikið fje handbært, að hann geti lagt fjeð fram, eða að hann geti fengið lán með svo vægum vöxtum, að hægt verði að nota það sem stofnfje? Af þessari ástæðu leyfi jeg mjer að mæla á móti brtt., því að samþykkja hana væri sama og fella málið eða samþykkja dagskrána.

2. brtt. fjallar um hverjar tryggingar bankinn skuli hafa, og eru þær þar taldar upp. Þessi breyting er raunar engin efnisbreyting, því að í frv. stendur, að til tryggingar vaxtabrjefum bankans skuli vera: „1. skuldabrjef, er bankinn fær frá lántakendum, 2. varasjóður bankans, 3. stofnsjóður bankans, 4. ábyrgð ríkissjóðs fyrir 121/2% af upphæð bankavaxtabrjefa í umferð, þegar taka þarf til ábyrgðarinnar“, en í brtt. stendur: „Auk veðskuldabrjefa þeirra, sem bankinn fær frá lántakendum, og öðrum kröfum hans, skal trygging fyrir bankanum vera: 1. varasjóður bankans, 2. stofnsjóður bankans, 3. ábyrgð ríkissjóðs“ o. s. frv., svo í raun og veru er röðin sú sama. Það er eðlilegast, að skuldabrjef þau, sem bankinn fær frá lántakendum, sjeu fyrsta tryggingin, en hinsvegar mundi, praktiskt sjeð, fyrst verða gripið til varasjóðsins, ef hann er ekki bundinn. Jeg legg því til, að brtt. verði feld, með því hún er óþörf, og einnig b- og e-liðurinn, sem eru afleiðing af a-liðnum.

Þá er 3. brtt. við 12. gr., um að í stað 1/2 komi Jeg þarf lítið um þessa brtt. að segja, því jeg hefi áður gert grein fyrir afstöðu minni til hennar. Jeg sje heldur enga ástæðu til að hafa þetta öðruvísu heldur en annarsstaðar gerist, t. d. í „Landmandsbanken“ og „Norges Hypotekbank“ og ,.Kreditforeninger“ dönsku og víðar. Að öðru leyti vísa jeg til þess, sem jeg hefi áður sagt um þetta atriði.

B-liðurinn í sömu brtt. er um að síðasta málsgrein 12. gr. falli burt. Þar stendur „— að bankinn geti tekið gildan veðrjett næst á eftir veðtrygðum skuldum eða kvöðum ákveðinnar tegundar, eða til ákveðinna stofnana, þó svo, að lán bankans, að viðbættum eldri skuldbindingum á eigninni, fari eigi fram úr 3/5 af verðgildi hennar“. Satt að segja held jeg, að engin hætta sje á að lána út á annan veðrjett, þegar alt lánið er bundið við 3/5 af virðingarverði eignarinnar, og flestar útlendar lánsstofnanir áskilja sjer heimild til þess að lána út á annan veðrjett í sjerstökum tilfellum, enda ekkert við það að athuga, ef bæði lánin til saman eru innan þeirra takmarkana, sem bankanum er annars heimilt að lána.

Þegar Íslandsbanki var stofnaður, þá var þeim, sem kaupa vildu hluti, gefin heimild til að gefa út skuldabrjef fyrir hlutaupphæðina, og áttu þau að vera trygð með 20% af virðingarverði jarðarinnar. Jeg man ekki betur en að einhver lög sjeu til um það, að veðdeildarlán mætti lána út á þessar jarðir, þrátt fyrir hin á hvílandi 20%, þannig, að tekið var auðvitað tillit til þeirra þegar lánsupphæðin var ákveðin. Það væri of mikill „formalismus“ að banna yrði slík lán, og legg jeg því til, að þessi brtt. sje feld.

Þá er 4. brtt. við 13. gr. Þar er sjerstakt ákvæði um, að eigi þurfi að fara fram virðing, ef lánsupphæðin eigi fer fram úr 1/2 skattvirðingunni. Virðist auðsætt, að þegar svona strangt ákvæði er sett um lánsupphæðina, að skoða megi lánið svo vel trygt, að eigi sje annað en formsatriði að heimta sjerstaka virðing.

Þá koma 5. og 6. brtt. við 14. og 15. gr. Það eru samskonar breytingar og við 12. gr., og get jeg vísað til þess, sem jeg sagði um hana.

Næst er 7. brtt. við 18. gr. Hún fer í þá átt, að orðin „auk sameiginlegrar ábyrgðar lántakenda, fjelagsins“ falli burt. Háttv. frsm. minni hl. (B. K.) skýrði þetta á þann veg, að ákvæðið væri ónauðsynlegt, og benti á að jafnvel gæti komið til mála, að með þessu væri að ræða um persónulega ábyrgð fjelagsmanna. En vitanlega væri persónuleg ábyrgð í þessu sambandi hrein fjarstæða, enda verða orðin ekki skilin á þá leið. Annars þarf jeg ekki að fara fleiri orðum um þetta. því háttv. frsm. (B. K.) lagði litla áherslu á þetta atriði.

Þá er 8. brtt. við 22. gr. Þar stendur, að þegar fasteign er seld, skuli kaupandi tilkynna bankanum eigendaskiftin, að viðlagðri sekt. 1% gjaldi af veðskuldinni, en meiri hl. nefndarinnar vill bæta við: „eins og hún er á þeim tíma“. En það er ekki hægt að misskilja setninguna eins og hún er orðuð, því vitanlega er þar eigi átt við hina upphaflegu lánsupphæð, heldur eins og lánið er á þeim tíma, er sala fer fram. Hver einasti lögfræðingur mundi skilja þetta á þann veg, og brtt. háttv. meiri hl. er því allsendis óþörf.

Þá kemur 9. brtt. við 25. gr., er fer í þá átt, að árstillagið til varasjóðsins skuli vera 3/4%–1%. í frv. er gjald þetta ákveðið 1/4%–3/4%. Satt að segja virðist mjer engin ástæða til að breyta þessu. Veðdeildargjaldið er, eins og kunnugt er, ½% og hefir ávalt verið nægilegt. Hjer er farið fram á, að gjald þetta verði 14% –3/4%, og þar sem 1/2% hefir reynst nóg í veðdeildinni, þá virðist óþarfi að gera ráð fyrir, að 3/4% muni eigi reynast nógu hátt. Jeg held því, að heppilegast sje að halda ákvæðinu. en í reglugerð má ákveða, ef svo sýnist, mismunandi gjald fyrir mismunandi tegundir lána, og ef þörf sýnist, má halda sjer að hámarksgjaldinu.

Þá kem jeg að 10. brtt. við 28. gr. Hún fer í þá átt, að 3. málsgrein falli burt. En svo er ákveðið í 3. málsgrein þeirrar greinar, að „aukaafborgunum og endurborgunum lána, sem greiddar eru í peningum, má verja til nýrra útlána, þó svo, að hin nýju lán endurgreiðist fyrir þann tíma, er önnur lán sama flokks eiga að vera greidd“.

Nú er það svo, að háttv. meiri hluti byggir úrfelling sína á því, að lántakendum sje gert rangt til með því, að þessi upphæð sje eigi notuð; því þetta mundi leiða til þess, að bankavaxtabrjefin yrðu eigi innleyst eins fljótt og annars gæti orðið. En þá má aftur líta á hitt, sem hv. frsm. (B. K.) sagði, að af fje þessu er ekki mikið greitt í peningum, svo miklar vonir geta ekki brugðist í þessu efni hjá eigendum bankavaxtabrjefanna, enda hafa þeir engin loforð fyrirfram fyrir því, að þessar aukagreiðslur komi þeim til góða. En hins vegar getur það verið hentugt fyrir bankann að mega veita ný lán fyrir þessar upphæðir, í stað þess að innleysa brjefin.

10. brtt. b„ við sömu grein, er afleiðing af hinni brtt., svo jeg þarf ekki að fara um hana fleiri orðum.

Þá er það 11. brtt., við 29. gr., um að 3. málsgrein falli burt, en sú málsgrein hljóðar um, að af fje varasjóðs megi veita lántakendum aukalán í peningum, alt að þeirri upphæð, er afföll á bankavaxtabrjefum þeim nemur, er þeir fá lán sín greidd með.

Höf. frv. segir þetta tekið úr þýskum veðlánalögum. Tilgangurinn er, að þessi viðbótarlán greiðist á styttri tíma en hin lánin. Og að því er þessi viðaukalán snertir, sem aðeins eiga að standa stutt, þá getur eignin verið góð trygging fyrir þeim, þó hún sje ekki góð trygging fyrir lánum, sem eiga að standa mjög lengi, því á löngum tíma getur eignin breyst svo mjög.

Þá er önnur brtt. við sömu gr. 4. málsgr., er fer í þá átt að kveða á um, að fje varasjóðs skuli ávaxtað í innlendum ríkisskuldabrjefum, auk bankavaxtabrjefa bankans sjálfs.

En þetta er óþarft ákvæði, vegna þess, að í greininni stendur: „í bankavaxtabrjefum bankans sjálfs, eða á annan tryggilegan hátt“, og undir þetta ákvæði falla auðvitað ávalt ríkisskuldabrjefin, sem vitanlega eru tryggustu verðbrjefin.

12. brtt. er um, að 30. gr. falli burt. Um hana þarf jeg ekki að ræða, því hún er sjálfsögð afleiðing af 1. brtt. háttv. meiri hl., og hlýtur því að verða samþ., gangi hún í gegn, en falla ella.

Þá er 13. brtt. við 38. gr. Hún fer í þá átt, að í stað þriggja bankastjóra skuli þeir aðeins vera tveir, og ef ágreiningur verður um málefni bankans, þá skeri stjórnkjörni endurskoðandinn úr.

Í fasteignabönkum annarsstaðar er venjulega 1 bankastjóri og 2 meðstjórnendur, og svo er gert ráð fyrir hjer. Það þykir jafnan hagkvæmara að hafa bankastjórana 3, til þess að atkvæði verði eigi jöfn, ef bankastjórnina greinir á. Í brtt. háttv. meiri hl. er og gert ráð fyrir, að slíkur ágreiningur geti komið fyrir, og þá er gert ráð fyrir, að „kritiski“ endurskoðandinn ráði úrslitunum. En hvernig á þá endurskoðandinn að koma fram sem gagnrýnandi um störf bankans, þegar hann hefir áður bundið atkvæði sitt sem bankastjóri, og einmitt líklegt, að ágreiningurinn verði ekki nema um stórvægileg atriði í bankanum. Jeg sje ekki betur en þetta ákvæði meiri hl. sje mjög óheppilegt.

Næst er 14. brtt. við 39. gr. Hún kveður á um það, að bankastjórnin skuli ráða alla starfsmenn bankans. Mjer virðist það miklum mun tryggilegra, að stjórnin skipi bæði bókara og gjaldkera. Því hefir verið haldið fram af frsm. meiri hl. (B. K.), að örðugt mundi fyrir bankastjórn að losna við þessa starfsmenn, ef þeir væru stjórnskipaðir.

Jeg verð að líta svo á, að ef þessir starfsmenn gerðu eitthvað verulegt af sjer, þá sje ávalt í lófa lagið að kæra þá, og stjórnarinnar að víkja þeim úr stöðu sinni, ef um alvarlegar sakargiftir væri að ræða. Og svo er annað, sem kemur til greina í þessu sambandi. Við skyldum segja, að í bankastjórastöðurnar veldust varmenni, sem ávalt kemur fyrir víða um heim og getur komið fyrir hjer. Mundi þá eigi vera heppilegra, að stjórnin skipaði menn þessa, en að þessir sömu menn gætu valið þá eftir sínu höfði. Það er meiri trygging í því fólgin bankanum til handa, að stjórnin skipi þessa menn en bankastjórnin. Þeir verða við það óháðir bankastjórninni, en annars gætu þeir átt á hættu, að þeim yrði fleygt úr bankanum fyrir smávegis misklíð, ef við ráðríka bankastjórn væri að eiga.

15. brtt. a. er afleiðing af 14. brtt. um, að bankastjórnin skipi alla starfsmenn bankans, og sama er að segja um 15. brtt. b. Þarf jeg því eigi að ræða sjerstaklega um þær.

Þá kem jeg að 16. brtt. við 41. gr. Hún er um laun bankastjóranna, og er lagt til, að þau sjeu ákveðin 6000 kr. Um það má vitanlega deila, hve há laun skuli vera; en mjer virðist eigi rjett að gera þeim lægra undir höfði en bankastjórum Landsbankans.

Og í frv. er einmitt ákveðið, að aðalbankastjórinn skuli hafa sömu laun og bankastjórar Landsbankans.

Mjer virðist rjett, að tekið sje fram, að menn, sem gegna stöðum eins og bankastjórastöðum, þurfi að vera með öllu fjárhagslega óháðir. Þeir eiga að hafa svo ríf laun, að engin ástæða sje fyrir þá að fást við nein áhættu- eða atvinnufyrirtæki, hverrar tegundar sem er. Með því að skera laun þeirra um of við neglur sjer, er skapaður breiður vegur til margvíslegra gróðafyrirtækja fyrir bankastjórana, er oft getur stórkostlega skaðað álit stofnunar þeirrar, er þeir eru settir yfir.

Mjer virðist sjálfsagt að útiloka þetta, og tel eigi að um minni laun geti verið að ræða en ákveðin eru í frv.

Þá er 17. brtt., við 42. gr. Sú grein kveður á um, að endurskoðunarmenn bankans skuli hafa stöðugt eftirlit með rekstri bankans, og vill meiri hl. bæta þar við: „og stjórn“. En sú viðbót er allsendis óþörf. Því að vitanlega er eigi unt að hafa eftirlit með rekstri bankans, nema jafnframt sje litið eftir gerðum stjórnar hans.

Þá kem jeg að 18. brtt. Þar segir svo: „Með lögum þessum eru úr lögum numin öll lagaákvæði, er koma í bága við þessi lög“. Þessi brtt. er algerlega óþörf, af þeirri ástæðu, að það er lögfræðileg vísindaregla, að þegar eldri lög rekast á ný lög, þá verða eldri lögin að víkja fyrir þeim nýrri, og þarf því ekki að samþykkja þessa brtt.

Jeg hefi nú farið í gegnum allar breytingartillögurnar, og legg nú til, að þær verði allar feldar. Og vona svo, að frv. nái fram að ganga óbreytt. Og jeg er í engum vafa um, að þessi banki á að geta orðið þjóðinni til nytsemdar.