14.05.1921
Efri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2220 í B-deild Alþingistíðinda. (2345)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Sigurður Eggerz):

Háttv. frsm. meiri hl. (B. K.) endaði ræðu sína á því, að ekki væri hnekt rökum hans. Það er nú von, að honum finnist svo, því að hverjum þykir sinn fugl fagur. En háttv. deild verður nú að dæma um það.

Hann mintist á verð brjefanna og hneykslaðist á því, er jeg sagði, að þau yrðu að hlýða lögmálum viðskiftalífsins. En jeg verð að halda fast við það. Hvort sem það er Landsbankinn eða annar banki, sem heldur verði brjefanna hærra en þau ganga á almennum markaði, með hliðsjón af vaxtahæð þeirra og almennum vaxtakjörum á hverri stundu, þá er það ekki venjuleg bankastarfsemi, heldur stuðningur. Hann sagði, að bankinn hefði þau hlunnindi á móti, að hafa ca. 1 milj. kr. af fje veðdeildarinnar með lágum vöxtum mikinn hluta ársins. En sá vaxtasparnaður mundi lítt hlíta, til þess að það borgaði sig fyrir bankann að halda uppi verði brjefanna.

Jeg sýndi rækilega fram á, hvers vegna menn geta nú ekki tekið lán, þegar afföll brjefanna eru svo mikil. jafnvel þótt vextirnir, að meðtöldum afföllum, yrðu ekki hærri en svo, að lánið mætti teljast sæmilegt, eftir núverandi peningamarkaði. Ef svo færi, að bankavextirnir lækkuðu innan skamms, þá yrðu þeir að sitja með háu vextina allan tímann, því að ekki dygði að taka nýtt lán til að greiða hið gamla. Þá kæmu afföllin á fá ár, og þá yrðu vextir þeirra ára alveg óbærilegir. Annað mál væri, ef veðbankinn kæmi og gæfi út brjef með hærri vöxtum, sem hægt væri að selja með minni eða sama sem engum afföllum. Þá væri hægt að taka nýtt lán, til að greiða hið gamla, ef vextir lækkuðu. Það mundi borga sig, og þá þyrfti ekki að dragast með háu vextina marga tugi ára, þótt vaxtakjör hafi batnað.

Jeg vík aftur að því, sem háttv. frsm. meiri hl. (B. K.) sagði, að ekki væri heimilt að afhenda veðdeildina. Þar er því til að svara, að allar reglur um veðdeildarbrjefin og vaxtakjör haldast óbreytt, þótt þetta sje fengið í hendur veðbankanum. Breytingin er ekki meiri en þótt Landsbankanum væri breytt, og enginn mundi þá telja, að það mætti ekki gera vegna veðdeildarinnar.

Í sambandi við þetta er annað atriði, sem jeg gleymdi að minnast á áðan. Hv. frsm. (B. K.) spurði, hvað Landsbankinn mundi segja um afhendingu veðdeildarinnar. Jeg hefi nú engin tök á að svara því ákveðið, því jeg náði ekki í bankastjórnina í hljei því, sem varð á umræðunum, en jeg veit, að bankastjórn Landsbankans fylgist svo vel með því, sem hjer gerist, að hún hefði hreyft mótmælum, ef henni hefði þótt þetta athugavert.

Þá mintist háttv. frsm. meiri hl. (B. K.) á sjóðina. Það er satt, að úr þeim hafa verið veitt ódýr lán, en þau hafa náð altof skamt. Nú á að taka þessa dreifðu krafta og sameina þá alla, svo að meira gagn verði af. Sameina þá, svo að lán geti orðið veitt langtum fleirum en áður, löng lán, auðvitað með sem hagfeldustum kjörum og hægt er. En þá kemur spurningin: Getur bankinn fengið peninga til þess? Það er aðalatriðið. Og þar veltur alt á sölu vaxtabrjefanna. Hið fyrsta af höfuðhlutverkum bankans er að vinna upp markað fyrir þau. Og það getur maður, sem gengur óskiftur að starfi, betur en bankastjórn, sem er önnum kafin við ýms önnur aðalhlutverk. Hvort þetta tekst eða ekki, er ekki hægt að segja með fullri vissu; úr því verður að skera með tilraun, en jeg vona alls hins besta. Á næsta þingi er ekkert fremur hægt að sjá þetta fyrir. Það sjest ekki nema með reynslu. Nú veltur á því, hvort Alþingi vill gera slíka tilraun. Jeg vil það, og jeg veit, að margra augu hvíla á gerðum þingsins í þessu máli. (B. K.: Og stofna 3 ný embætti við tilraunina). Það er nú ekki nema 1 embætti, sem stofnað verður í bráð, því að tveir af bankastjórum Landsbankans eiga að gegna störfum aðstoðarbankastjóra fyrst um sinn, og það endurgjaldslaust.

Jeg vildi annars óska, að þessi banki gæti sem fyrst staðið á eigin fótum, en jeg lít svo á, að í bili sje ekkert á móti því sambandi, sem hjer er gert ráð fyrir. Háttv. frsm. meiri hl. (B. K.) furðaði sig á því, að jeg teldi landbúnaðinum meiri styrk í stórum banka, þótt lánin þar yrðu dýrari, en smásjóðum, sem veittu ódýr lán og fá. Jeg ætla að standa við það, að þetta sje svo. Þótt lánin úr þessum sjóðum, sem gert er ráð fyrir að myndi stofnfje bankans, hafi jafnan verið mjög ódýr, þá hafa þau komið altof fáum að liði, sökum þess, hve sjóðirnir voru smáir.

Jeg ætla því, að sú verði raunin á, ef þessi banki nær að eflast, að landbúnaðinum verði drjúgum meiri stuðningur að honum.

Þá sagði háttv. þingmaður, að jeg vildi gefa í skyn, að ríkissjóður væri óskertur, þótt úr viðlagasjóði væri tekin ein miljón og lögð í stofnsjóð bankans. Já, í raun og veru. Hjer er ekki um annað að ræða en að taka úr öðrum vasanum og láta í hinn.

Að því er snertir það, hve mikinn hluta af virðingarverði fasteignanna skuli lána út á þær, þá býst jeg við, að lengi megi deila um það atriði. Eru fordæmin þar sjálfsagt jöfnum höndum, ýmist ½ eða 3/5 hlutar. Er mjer vel kunnugt um það, að víða er hámarkið 3/5 hlutar, og hefir þó ekki komið að skaða.

Háttv. frsm. meiri hl. (B. K.) vefengdi þau orð mín, að sjá mætti óskiftan áhuga landsmanna á því, að slíkur banki sem þessi verði settur á stofn, og benti hann á dagblöðin sínu máli til sönnunar. En jeg verð nú að benda háttv. þingmanni á það, að vilji landsmanna kemur víðar í ljós en í blöðunum. Í þessu máli hefir hann lýst sjer á undanförnum þingum, með almennum áhuga þm. á því, og vitaskuld eru þingmenn oft, bæði í þessu og öðrum málum, ímynd þjóðarinnar,

Þá er jeg kominn að brtt., og skal jeg þar fara fljótt yfir sögu, og ekki þreyta háttv. deild lengi úr þessu. Um 1. brtt. skal jeg taka það fram, að verði hún samþykt, þá er það sama sem sú rökstudda dagskrá, sem hjer liggur fyrir, væri samþykt, því að ríkissjóður gæti ekki með nokkru móti lagt fram fje með svo ódýrum kjörum, sem þyrfti fyrir bankann.

Þá vil jeg minnast lítið eitt á brtt., sem háttv. þm. sagði, að mjer hefði gengið verst að verja. Það er brtt. við 7. gr. Viðvíkjandi henni vil jeg halda því fram, í fyrsta lagi, að hún þýðir það sama, sem hún á að breyta, og í öðru lagi, að ef hún gerir á nokkra breytingu, þá muni rjettara að hafa þetta eins og það er í frv., því þar sem starfi bankans er þannig farið, að um skiftistarfsemi er að ræða, þannig að bankavaxtabrjef eru seld og lán veitt, þá væri eðlilegast, að fyrst væri gengið að skuldabrjefunum.

Viðvíkjandi brtt. við 25. gr. skal jeg taka það fram, að jeg tel ekki rjett að hafa ákvæðið um árstillagið í varasjóð hærra en frá 1/4 til 3/4%. Reynslan hefir orðið sú, að það tillag hefir ekki einasta orðið nóg til að borga með kostnaðinn, heldur hefir og orðið afgangur til að leggja í sjóð. Ekki veit jeg heldur til þess, að annarsstaðar hafi farið verið langt fram úr þessu.

Að aukaafborgununum mætti verja til nýrra lána, hefi jeg gert grein fyrir áður, og skal ekki fara frekar út í það. Jeg hefi einnig minst á það, hve varhugavert það sje og óviðeigandi, að endurskoðandi bankans „fungeri“ einnig sem bankastjóri, þegar um stærri lántökur er að ræða. Með því móti yrði hann endurskoðandi sinna eigin gerða, en það telja fæstir heppilegt fyrirkomulag. Þætti mjer hitt þá eðlilegra, að hafa bara einn aðalbankastjóra með 2 aðstoðarmönnum, eins og hjer er farið fram á, og er það einnig altítt í fasteignabönkum erlendis.

Að því er snertir laun þessa bankastjóra, þá skal jeg geta þess, að mjer finst ekki ástæða til að hafa þau lægri en laun bankastjórnar Landsbankans.

Háttv. frsm. meiri hl. (B. K.) tók bókara veðdeildar Landsbankans sem dæmi því máli sínu til sönnunar, að heppilegra væri, að bankastjórnin skipaði bókara og gjaldkera en landsstjórnin. En jeg vil nú halda því fram, að slíkt einstakt dæmi segi hvorki af eða á um þetta, því auðvitað er það oft undir sjerstökum atvikum komið, hvort vel tekst eða illa til með val slíkra manna.

Þá álítur háttv. frsm. meiri hl. (B. K.) það nauðsynlegt að taka fram, að með lögum þessum sjeu úr gildi numin eldri lög, sem eru í ósamræmi við þau. En jeg tel það með öllu óþarft, því að það liggur í hlutarins eðli, að þegar árekstur verður milli lagaákvæða, þá falla eldri lög úr gildi fyrir þeim, sem nýrri eru.