14.05.1921
Efri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2225 í B-deild Alþingistíðinda. (2347)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg geri ekki ráð fyrir að koma með mikið nýtt fram í þessu máli, enda virðist það nú vera talsvert rætt orðið, eftir því sem hægt er við að búast að svo stöddu og á svo naumum tíma, sem því er afskamtaður.

Jeg vil þá fyrst láta þá skoðun mína í ljós, að jeg hygg það ofætlun háttv. deild að taka við svo miklu vandamáli og hafa ekki meiri tíma til sinna umráða en nú er eftir. Og mjer finst það ganga ósvífni næst að ætla sjer að hrapa að því að samþykkja slíkt frv. sem þetta, eins og nú er í ráði, án þess að ganga inn á nokkrar brtt., sem við það eru gerðar. Jeg skal líka geta þess, að jeg er og hefi verið mótfallinn þessu frv. Jeg get ekki með nokkru móti sjeð, að það sje nokkur bót á bráðri þörf. Jeg sje ekki heldur, að það gangi í sömu stefnu og þál. sú, sem samþykt var 1919 og það stafar frá. — Banka þann, sem þar var talað um, átti að miða við lán til landbúnaðar. En hjer er að ræða um allskyns fasteignaveðslán, þar á meðal lán til langs tíma út á ótryggar fasteignir, sem fara mjög illa saman við lán til landbúnaðarfyrirtækja. Þó væri ekkert á móti þessu að segja, ef þetta fje væri ekki einmitt tekið frá landbúnaðinum, sem með þessu átti þó að vinna fyrir.

Þá get jeg ekki sjeð, að bankinn hafi nokkurt rekstrarfje — aðeins 3 miljónir kr. í eintómum pappírslöppum. Jeg hygg, að hann verði fyrst um sinn að mestu veltufjárlaus, þrátt fyrir þá. Að vísu geta þessar miljónir komið að liði sem trygging, en þó því aðeins, að þær sjeu ekki líka notaðar sem veltufje.

Háttv. frsm. minni hl. (S. E.) komst svo að orði, að þetta væri ábyggileg stofnun og myndi verða til blessunar fyrir þjóðina, ef nægur markaður yrði fyrir brjefin. En það er einmitt þetta, sem jeg er vantrúaður á. Jeg get ekki sjeð, að nokkrar líkur sjeu til þess, að þessi bankavaxtabrjef seljist nokkru hóti betur en veðdeildarbrjefin, úr því ekki tekst lengur að selja þau. Óttast jeg, að hjer gæti heldur mikillar bjartsýni hjá háttv. frsm. minni hl.

Þá sagði háttv. sami þm., að óskiftur áhugi væri hjá þjóðinni á þessu máli. Jeg get gengið inn á, að háttv. þm. hafi þar sagt rjett, ef hann telur áhuga einstöku þjóðmálagasprara óskiftan þjóðarvilja og þeirra, sem hugsa sjer að fá eitthvað upp úr fyrirtækinu fyrir sig og sína. Jeg held að það sje hjá fáum landbændum áhugi fyrir því að fá svona lög í stað þess, sem þeir hafa. Jeg skal samt vitaskuld ekki þvertaka fyrir það, að ekki verði hægt í þessu máli, eins og stundum í öðrum, að fá þjóðina upp með duglegri „agitation“, til að skifta um skoðun. En jeg þori að fullyrða, að eunþá er þetta ekki orðin þjóðarósk. Hitt skal jeg aftur fúslega játa, að fjöldi manna, sem gjarna vilja fá lán, er þess mjög fýsandi, að veðdeildin gæti staðið betur í stöðu sinni en nú er.

Hv. 2. landsk. þm.(S. E.) sagði lakara, að brjefin væru með svo miklum afföllum, enda þótt vextir væru lágir. Hitt væri betra, að hafa hærri vexti, en minni afföll. Þessu er jeg alveg sammála. En hv. frsm. meiri hl. (B. K.) hefir bent á, hvernig hægt væri að bæta úr ástandi því, sem nú er, með því að hætta að selja brot það, sem eftir er af 4. deildinni, og stofna nýja með hærri vöxtum, og þar af leiðandi minni afföllum. Þetta ráð kostar lítið, að minsta kosti þyrfti ekki að setja nýjan bankastjóra, þann 4., í Landsbankann, þótt þetta væri gert, því af því mundi ekki leiða mikinn verkauka.

Stofnun þessa banka virðist ekki muni vera hreinn ágóði fyrir landbúnaðinn, þar sem gert er ráð fyrir, að inn í hann renni tveir sjóðir, sem hafa verið notaðir til styrktar landbúnaðinum næstum eingöngu. Kirkjujarðasjóðurinn veitti minsta kosti sveitaprestum lán, en sjerstaklega er það þó ræktunarsjóðurinn, sem eftirsjón er í. Getur verið, að mig taki sjerstaklega sárt til þess sjóðs, sökum þess, að hann hefir verið mitt óskabarn, eins og hann hefir alt frá fyrstu verið óskabarn allrar þjóðarinnar. Og jeg get meira að segja kallað hann mitt einkabarn, því að hugmyndin um að stofna slíkan sjóð er runnin frá mjer einum. Árið 1897 fekk jeg landbúnaðarnefnd, sem jeg átti þá sæti í, til þess að flytja frv. um stofnun þannig lagaðs sjóðs. Var sjóðurinn þá kallaður Búnaðarsjóður Íslands. Frv. dagaði uppi 1897. En 1899 varð frv. að lögum, en nafninu á sjóðnum var þá breytt, og eftir uppástungu búfræðingafundar í Borgarfirði var sjóðurinn nefndur „Ræktunarsjóður Íslands“. Fleiru var breytt frá frv. 1897. Aðalbreytingin kom frá 1. þm. Skagfirðinga, sem þá var Ólafur Briem. Eftir hans uppástungu var ákveðið, að andvirði seldra þjóðjarða skyldi renna í sjóðinn, en áður hafði verið ætlast til, að gjaldstofnarnir yrðu aðrir. Frv. varð að lögum 3. mars 1900, og í þessi 20 ár, sem ræktunarsjóðurinn hefir starfað, hefir hann verið óskabarn allra landbúnaðarmanna þessa lands. Upphaflega var sjóður þessi eingöngu verðlaunasjóður og til að styrkja menn til jarðabóta. En 1905 var honum breytt. Var þá ákveðið, að úr honum skyldi lána fje til jarðabóta og ábýliskaupa. Síðan þessi breyting var gerð, hefir sjóðurinn lánað mikið. Hann hefir styrkt bændur og hreppa mjög til ýmissa nytsamra framkvæmda, með því að lána þeim. Þannig hefir hann t. d. gert ýmsum mögulegt að ráðast í samgirðingar, sem að öðrum kosti mundu ekki hafa getað ráðist í þær. Til ábýliskaupa hefir sjóðurinn líka lánað. Oft hafa þau kaup komið miklu góðu til leiðar, aukið endurbætur og framfarir á jörðum. Loks setti þingið 1917 inn í lögin þá breytingu, að ræktunarsjóðurinn mætti einnig lána til verkfærakaupa, einkum til að kaupa ný verkfæri, sem líklegt þætti, að reynast mundu vel hjer. Allar 3 brtt. við hið upphaflega frv., hafa farið í þá átt að gera sjóðinn æ gagnlegri landbúnaðinum.

Raunar sagði háttv. frsm. minni hl. (S. E.), að sjóðir þessir væru svo litlir, að lítið sem ekkert gagn væri að þeim. Þó er ætlast til, að 1 milj. kr. verði tekin úr hvorum sjóð og lagt í hinn nýja banka, og 1 milj. kr. höfum við nú hingað til kallað peninga.

Þar sem jeg er í stjórn Búnaðarfjelags Íslands, get jeg veitt upplýsingar um lánbeiðnir, sem nú komu til ræktunarsjóðsins, og hversu mikið fje var veitt, sökum þess, að það er stjórn Búnaðarfjelagsins, sem gefur tillögur um þær lánveitingar. Lánbeiðnir komu upp á samtals um 200 þús. kr., og yfir 150 þús. kr. voru veittar. Meira hefði sjóðurinn getað veitt, ef ekki hefði stjórn Búnaðarfjelagsins dregið úr lánveitingum, sökum þess, að það býst sjálft við að þurfa að taka lán í sjóðnum, vegna búnaðarsýningarinnar í sumar.

Lán þessi voru flest veitt til samgirðinga og stærri jarðabóta. Lánað var og til að kaupa 1 jörð.

Ætli ekki sje nú ástæða til að efast um, að hinn fyrirhugaði banki geti lánað meira en 150 þús. kr. til landbúnaðarframkvæmda fyrstu árin? En það er nokkuð sem víst er, að stór breyting verður hvað kostnaðinn snertir, verði bankinn stofnaður, því að nú er lítill kostnaður, sem hvílir á sjóðnum. En við Ríkisveðbankann verður stofnað sjerstakt embætti Og það hygg jeg ráða miklu um áhuga sumra með frv. þessu, að með því er verið að stofna nýtt embætti handa sjerstökum manni.

Mjer finst talsvert athugavert að kippa alt í einu að sjer hendinni, er þingið hefir einu sinni ákveðið, að þessu fje skuli varið til verfærakaupa og verðlauna. Jeg kann eigi við að taka aftur það, sem þingið hefir einu sinni veitt. En það verður minsta kosti gert með verðlaunin, verði þetta samþykt, því að ekki mun ætlast til, að Ríkisveðbankinn veiti verðlaun.

Þeir, sem vilja taka ræktunarsjóðinn og slengja honum saman við þennan banka, þeir eru að taka óskabarn landsins og kasta því í ljónagröf. Þeir eru að taka það fje, sem varið hefir verið til jarðabóta, og verja því í óþörf laun til manns, sem hefði átt að geta unnið eitthvað þarfara.

Að minni hyggju er best að vísa máli þessu til stjórnarinnar, til frekari undirbúnings. Því þótt jeg hafi verið harðorður um málið, eins og það liggur nú fyrir, þá er allhugsanlegt, að hægt verði að breyta frv. svo, að jeg geti samþykt hverja grein í því. En til þess þarf að athuga frv. betur en svo, að ein deildarnefnd geti gert það. Jeg mun því greiða atkvæði með dagskránni, og nái hún ekki fram að ganga, þá með brtt.