02.05.1921
Neðri deild: 60. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2241 í B-deild Alþingistíðinda. (2397)

128. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Frv. þetta flytur fjárhagsnefnd eftir ósk hæstv. fjrh. (M. G.), sem hefir samið það eins og það er lagt fram. Í því eru samskonar ákvæði og í gildandi stimpilgjaldslögum, sem gera allar útfluttar afurðir stimpilgjaldsskyldar. Nefndin hafði hugsað sjer að framlengja stimpilgjaldslögin um eitt ár. En hún fjell frá því, og leggur í þess stað til, að útflutningsgjald komi fyrir stimpilgjald af afurðunum, sem gildi aðeins eitt ár.

Það var samt ekki með fúsum vilja gert, að nefndin tók að sjer flutning þessa frv., og einn nefndarmanna var því algerlega andvígur. Þó var það ekki af þeim ástæðum hvað gjaldið snerti í sjálfu sjer, heldur af hinu, að takmörk væru fyrir gjaldþoli þjóðarinnar. Nefndin vill ógjarnan leggja skatta á framleiðslu landsins, og var öll sammála um, að slíkt er ekki gerlegt, nema þegar sjerstaklega stendur á. En nú sýnist henni sú sjerstaka þörf vera fyrir hendi. Þörfin á tekjuaukanum er nú svo brýn, eins og fram vindur um fjárframlög úr ríkissjóði, að það verður að leggja skatta á þjóðina, jafnvel hvort sem gjaldþoli hennar er misboðið eða ekki.

Frv. á því að bæta dálítið úr þeirri rýrnun, sem orðin er og fyrirsjáanlega verður á tekjuaukafrv. stjórnarinnar og gjaldaaukningunni í fjárlögum og fjáraukalögum, ef gengið er út frá því, að tekjuaukafrv. stjórnarinnar hafi átt að jafna hallann á fjárlagafrv., eins og það var lagt fyrir þingið. Samtals má gera ráð fyrir, að sá tekjuhalli nái upp undir 11/2–2 milj. á árinu 1922; svo má gera ráð fyrir allmiklum halla, sem flyst frá þessu ári. Hvað þessi halli verður mikill samtals, er ekki unt að segja um, en hræddari er jeg þó við þetta yfirstandandi ár en árið 1922, hvernig sem reynslan verður.

Útflutningsgjaldið er að vísu nokkuð hátt. En bæði er það, að fasta útflutningsgjaldið frá 1919 er felt úr gildi með frv. um útflutningsgjald af síld, og með því frv. fylgir líka endurgreiðsluheimild, sem er svo víðtæk, að það er ómögulegt að segja, hve mikill tekjuhalli getur hlotist af henni. Þess vegna hefir nefndin gengið inn á að flytja frv. Hve mikið frv. gefur í ríkissjóð, fer eftir því, hvernig afurðirnar seljast. Það má búast við, að það verði upp undir 400 þús., og er óhætt að fullyrða, að það verði ekki undir 300 þús. kr. Er þá gengið út frá, með þeirri upphæð, að afurðir landsins seljist meira en helmingi lægra en árið 1919. Það hefir ekki verið enn gert upp, hvað mikið megi bjóða gjaldþoli þjóðarinnar. En eins og sakir standa nú, er ekki hægt að nema staðar með skattaálögur, ef þjóðarbúskapurinn á ekki að fara í strand.