04.05.1921
Neðri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2245 í B-deild Alþingistíðinda. (2401)

128. mál, útflutningsgjald

2401Einar Þorgilsson:

Háttv. 1. þm. Skagf. (J. S.) hefir tekið fram ýmislegt, sem jeg vildi sagt hafa við þessa umræðu, svo að jeg get verið því stuttorðari. Að vísu viðurkenni jeg fyllilega tekjuþörf ríkissjóðs, til þess að jafna fyrirsjáanlegan tekjuhalla, og skýldu þá, er hinu háa Alþingi ber til þess að reyna til þess að ráða bót á því, ef nokkur vegur sæist. En hinsvegar get jeg ekki viðurkent það, að sú leið, sem í þessu frv. er ráðgert, að farin verði, geti talist svo heppileg eða sanngjörn, að rjett væri af háttv. deild að fallast á hana. Ástand framleiðslunnar er alkunnugt, bæði til sjós og lands, og er það því hreinasta neyðarúrræði að hallast að því ráði, er hjer fyrirliggjandi frv. fer fram á, enda það og viðurkent af öllum, og nú síðast af háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.). Jeg verð því að líta svo á, að sanngjarnara — og jafnvel tryggara fyrir ríkissjóð — mundi vera að taka þessa umræddu upphæð með t. d. auknum skatti á eign og tekjur. Jeg mun því greiða atkvæði á móti frv.