04.05.1921
Neðri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2245 í B-deild Alþingistíðinda. (2402)

128. mál, útflutningsgjald

Fjármálaráðherra (M. G.):

Háttv. samþingismanni mínum (J. S.) er kunnugt um það, að jeg er ekki, frekar en hann sjálfur, meðmæltur gjaldi þessu í sjálfu sjer. En nauðsyn brýtur lög. Það er knýjandi nauðsyn að afla einhvers tekjuauka, til að hamla á móti tekjuhalla þeim, sem fyrirsjáanlegur er 1922. Þess vegna var þessi leið valin í þetta skifti. Og jeg verð að halda því fram, að hún sje, þrátt fyrir alt, eftir atvikum, heppilegri og sanngjarnari. en t. d. sú leið, sem háttv. þm. (J. S.) benti á, sem sje hækkun tekju- og eignarskattsins, því hann þyrfti að hækka alment um 40–50%, og mundi mönnum þykja það koma hart niður, enda þykir ýmsum sá skattur þegar orðinn nógu þungbær. En hvað svo sem úr þessu kann að verða, vona jeg að málinu verði leyft að ganga til 3. umr.