10.05.1921
Efri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2247 í B-deild Alþingistíðinda. (2407)

128. mál, útflutningsgjald

Fjármálaráðherra (M. G.):

Mál þetta er flutt af fjárhagsnefnd Nd., samkvæmt minni beiðni. Ástæður til þess voru þær, að svo mikið er víst, eftir hækkun gjaldahliðar fjárlagafrv. og af meðferð tekjufrv. stjórnarinnar, að fyrirsjáanlegur er tekjuhalli 1922, og átti þetta að vega nokkuð á móti. Háttv. deild er kunnugt um, að útflutningsgjaldsfrv. var ekki meðal tekjufrv. stjórnarinnar, og var það af því, að hún er mótfallin þessu gjaldi, nema bráðnauðsynlegt sje, til að halda jafnvægi gjalda og tekna eða draga úr tekjuhalla, og nú er einmitt sú nauðsyn fyrir hendi; og jeg vona, að háttv. deild verði eins vel við þessari nauðsyn og háttv. Nd. Ef þess er ekki kostur að láta þetta mál ganga fram nema það fari til nefndar, þá óska jeg, að það gangi til fjárhagsnefndar.