17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2250 í B-deild Alþingistíðinda. (2418)

140. mál, afsals og veðmálabækur Mýra og Borgarfjarðarsýslu

Flm. (Pjetur Þórðarson):

Eins og kunnugt er, skeði það mikla slys 12. nóvember síðastliðinn í Borgarnesi, að hús það, er sýslumaðurinn bjó í, brann til kaldra kola, svo skyndilega, að sama sem engu varð bjargað, og brunnu margskonar skjöl og bækur, og þar á meðal afsals- og veðmálabækur sýslunnar. Þó mun hafa bjargast registur yfir skjöl, sem venjulega eru færð í slíkar bækur, að því er Borgarfjarðarsýslu snertir.

Þetta er mjög bagalegt fyrir sýsluna, því nú eru fasteignir þar ekki veðhæfar og vantar allar sannanir fyrir eignarrjetti eða öðrum umráðarjetti þeirra.

Til þess að ráða bót á þessu fór viðkomandi lögreglustjóri þess á leit við mig, að jeg flytti þetta frv. hjer á Alþingi, og það þarf helst afgreiðslu þegar á þessu þingi. Frv. er samið af ágætum lögfræðingi fyrir tilstilli stjórnarinnar, og vona jeg því, að það þurfi lítilla breytinga við. Ef nokkru þyrfti að breyta, væru það tölustafir, sem má breyta í prentuninni.

Jeg vona, að hið háa Alþingi taki þessu frv. með snarræði og lofi því að ganga með óvenjulegum hraða með afbrigðum frá þingsköpum, svo að það geti orðið á þessu þingi lög frá Alþingi.