27.04.1921
Efri deild: 53. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2259 í B-deild Alþingistíðinda. (2442)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Sigurður Eggerz:

Við þessa 1. umræðu verður óhjákvæmilegt að minnast alment á nokkur atriði, sem snerta peningamálin, og býst jeg við, að hæstv. forseti hafi ekkert við það að athuga.

Fjárhagskreppan er nú búin að standa í heilt ár. Orsakir hennar eru taldar ýmsar. Eitt af verkefnum peningamálanefndarinnar var að rannsaka orsakimar. En um það atriði hefir ekki birst neitt álit frá nefndinni ennþá, enda hygg jeg, að hugur hennar hafi nær eingöngu snúist að því, hvernig hægt væri að komast út úr fjárkreppunni. Ein ástæðan til þessarar kreppu, sem allir telja aðalástæðuna, er mismunurinn á innfluttum og útfluttum vörum, eða að meira hefir verið flutt inn en út. En ástæðurnar til þessa mismunar geta aftur verið ýmsar. Því miður vantar verslunarskýrslur fyrir árin 1919 og 1920. En að þessu leyti voru stríðsárin 1914, 1915 og 1916 hagstæð. Þá var útflutningur mikill. Og ef sjerstakt gengi hefði þá verið á íslenskri krónu — en enn höfum vjer ekki sjerstaka íslenska krónu — þá hefði það áreiðanlega verið töluvert yfirgengi, að minsta kosti yfir danska krónu.

Árið 1917 er aftur flutt út fyrir 14 milj. kr. minna en inn. Stafar þetta ekki beint af því, að á því ári hafi verið sjerstaklega lítil framleiðsla, heldur af því, hversu samgöngum var farið þá. Kafbátahernaðurinn stóð sem hæst, menn gátu ekki sent vörurnar út. Þetta kemur að sjálfsögðu fram á næsta ári, og verður útkoman það ár því mikið betri; hallinn 1918 er um 5 miljónir. Frá 1919 vantar skýrslur, en jeg hefi spurt hagstofustjóra hvernig hann haldi, að hlutfallið hafi verið það ár milli útflutnings og innflutnings. Sagði hann, að á því ári hefði verið flutt út fyrir um 68 milj., en inn vissi hann til, að búið var að flytja fyrir 60 miljónir, en sagði, að innflutningurinn gæti verið meiri, en bjóst við, að undir öllum kringumstæðum yrði jafnvægi á árinu. Um árið 1920 kvaðst hann ekkert geta sagt. En út frá því má ganga, að á því ári muni hafa verið flutt út stórum minna en inn, og af þeim mun muni kreppan fyrst og fremst stafa. En ástæðurnar til þessa mismunar munu vera ýmsar. Fyrst og fremst verðfallið á íslensku afurðunum, og svo hitt, að verðfallið kom að mönnum óvörum. Það kom að mönnum jafnsofandi og verðhækkunin á stríðsárunum. Upp á það, hvað verðhækkunin kom mönnum að óvörum, get jeg nefnt eitt dæmi. Á þinginu 1915 bar sjálfstæðisflokkurinn fram þingsályktunartill. um að kaupa miklar vörubirgðir fyrir landið, vegna væntanlegrar hækkunar. Þetta náði ekki fram að ganga, sökum þess, að meiri hluta þingmanna var ekki ljóst, að nokkur hækkun væri í aðsigi. Jeg nefni þetta dæmi, til að sýna, hve erfitt menn áttu með að átta sig á því, hvaða áhrif stríðið hefði á verðlagið. Að sínu leyti eins áttu menn bágt með að átta sig á, hvaða áhrif stríðslokin mundu hafa á verðlagið. Margir bjuggust við áframhaldandi hækkun, og drógu því á langinn að selja vörur sínar. Af þessu, meðal annars, stafar kreppan. Hún stafar einnig af því, að menn voru farnir að treysta of mikið á sjálfa sig. Ýms höpp, sem þeir urðu fyrir, og sem í raun og veru voru að þakka stríðstímunum, þökkuðu þeir fyrirhyggju sinni. Af þessu leiddi of mikið sjálfstraust, og menn fóru að ráðast í ýms stór, en vafasöm fyrirtæki. Þar á meðal má nefna hin miklu botnvörpungakaup á hinum allra óhentugasta tíma. En þau kaup hafa auðvitað reynt mikið á þolrif bankanna; því auk kaupverðsins, sem var fram úr hófi, þá þarf feiknafje til rekstrar hverjum botnvörpungi. Og því er ver, að efni þau, sem söfnuðust fyrir hjá ýmsum einstökum mönnum á stríðsárunum, munu nú horfin, einmitt sökum þess, að menn hafa ekki kunnað sjer hóf. Ástæðurnar til fjárkreppunnar eru sjálfsagt fleiri en jeg hefi nú talið upp, en jeg skal ekki fara lengra út í það mál.

Aðalatriðið er það, að fjárkreppan stendur enn, og er altaf að versna. Allir þeir, sem stunda útgerð eða verslun, og standa þar, sem viðskiftaöldurnar skella fastast á, hljóta að standa á öndinni.

Fjárkreppan kemur, eins og eðlilegt er, fyrst í ljós út á við. Yfirfærslan stöðvast. Nú er mjög lítið hægt að færa yfir. Þeir, sem versla, verða því að taka lán erlendis, eins og menn urðu að gera í gamla daga. Þeir, sem komast að bestum kjörum, mega borga skuldina hjer inn í banka, og er sú innborgun skoðuð endanleg greiðsla, en flestir komast ekki að þeim kjörum, því þeir verða flestir ekki aðeins að borga peningana inn í banka eða setja tryggingu fyrir þeim, heldur einnig að ábyrgjast gengismun, sem sumir í einfeldni sinni eru farnir að halda fram, að muni reynast okkur til happs.

Í Ísl.banka hafa safnast fyrir stórupphæðir; munu þær nú nema samtals 8–9 miljónum. Þessar upphæðir, sem fjöldi erlendra skuldhafa eiga í bankanum, og vitanlega eru stöðugt að kalla eftir, hljóta að veikja lánstraust landsins dag frá degi, lánstraust landsins, sem er dýrmætasti höfuðstóll þess, sem safnað hefir verið saman fyrir atorku og óþreytandi elju bestu manna þessarar þjóðar. Þessar mörgu erlendu upphæðir naga lánstraustið eins og rottur nótt og dag. Það er ekki út í bláinn, að jeg kalla lánstraust landsins höfuðstól, því jeg hefi sjeð, að hjá vísindavinum er lánstraustið „teoretiskt“ nefnt svo. En því miður hlýtur þessi höfuðstóll að vera farinn að eyðast, þótt jeg hafi heyrt fullyrðingar frá stjórninni um, að þessum höfuðstól sje óhætt. Aðeins ein leið var og er til að bjarga þessum höfuðstól, eins og nú stendur, og það er lánsleiðin. Eins og kunnugt er, heyrðust, þegar áður en þing kom saman, raddir um, að einasta leiðin til bjargar væri að taka lán. Og bent var á að fara í þeim erindagerðum til þess lands, sem bæði lánaði Dönum og Norðmönnum, nefnil. Ameríku, og ekki síst sökum þess, að gengið var þar þá mjög hátt. Ef lánið hefði verið tekið þar, og hver efast um, að lánið hefði fengist, mundi hafa græðst mikið á gengismismun. En eins og jeg hefi oft sagt áður, þá var það ekkert aðalatriði, að vinna á gengismuninum, heldur hitt, að bjarga aðalhöfuðstól landsins — lánstraustinu. En því er ver og miður, stjórnin tók ekkert lán, og heldur ekki er kunnugt um, að hún hafi neitt leitað fyrir sjer um lán, sem þingið gæti gripið til, ef því hefði virst lántaka nauðsynleg.

Jeg minnist þess, að hæstv. fjrh. (M. G.) talaði um margskonar lán í þingbyrjun, er hann lagði fram fjárlögin. Hann nefndi þá ýms lán, sem hann áleit óheppilegt að taka. Jeg játa, að til eru þau lán, sem mjer er illa við að taka. Það eru þau lán, sem tekin eru til að bjarga jafnvæginu milli árlegra tekna ríkissjóðs og útgjaldanna; þau lán eru beinlínis tekin til að eta þau upp, og slík lán eru, í raun og veru, hreinasta neyðarúrræði. Hefði stjórnin sett það á oddinn, að þingið skildi svo við fjárlögin nú, að slíkt lán þyrfti ekki að taka, hefði jeg verið henni þakklátur. En jeg játa, að til þess hefði þurft karlmensku, sem jeg vænti ekki af þessari stjórn.

Nú kem jeg að aðalatriðinu. Hvað á að gera, til þess að kippa þjóðinni upp úr þeirri óláns fjárkreppu, sem hún er nú komin í? Það er vitanlega aðalatriðið. En áður en jeg svara þessari spurningu, verð jeg að Víkja ögn að peningamálanefndinni. Jeg játa, að langur dráttur hefir orðið á því, að nefndin skilaði áliti sínu. En ástæðurnar til þess hafa verið ýmsar. Fyrst og fremst sú, að málið var illa undirbúið af stjórnarinnar hálfu. Frv. það, sem hún lagði fyrir Nd., gat þannig ekki verið nein lausn á þessu máli. Jeg býst við, að stjórnin hafi trúað því og búist við, að ef frv. þetta yrði samþykt, mundi það styrkja svo lánstraust Íslandsbanka, að það hjálpaði bæði honum og landinu. En eins og tekið er fram í nefndaráliti meiri hl. peningamálanefndar, er engin von um, þó þetta frv. yrði samþ., að það gæti á nokkurn hátt bjargað því, sem bjarga þarf. Það er nú líka síður en svo, að samkomulag sje hjá bönkunum um þetta frv. Í ástæðunum fyrir stjórnarfrv. er sagt, að samkomulag sje um flest aðalatriðin. Og þó er svo langt frá, að sá bankinn, Íslandsbanki, sem frumvarpið á að bjarga, sje ánægður með það. Annar bankastjóri Íslandsbanka er algerlega mótfallinn frv., en hinn hefir ýmislegt við það að athuga. Bankastjórar Landsbankans eru heldur alls ekki ánægðir með frv. Einkanlega sjá þeir ýms vandkvæði á að taka við aukinni seðlaútgáfu. meðan ekki er leyst úr yfirfærsluvandræðum Íslandsbanka. Og auk þess gerir Landsbankinn ákveðna kröfu til þess að hafa seðlaútgáfuna, og Íslandsbanki gerir hina sömu kröfu, og hefir væntanlega rjett til þess samkvæmt stjórnarfrv. Þetta mál er því í sannleika með öllu óundirbúið af stjórnarinnar hálfu, og þetta var þó einmitt mál, sem stjórnin átti að undirbúa.

Annað er það, sem hefir orsakað hve peningamálanefndin hefir verið seinvirk, og það er viðfangsefni hennar, áreiðanlega erfiðasta málið á þessu þingi. Takist Alþingi að greiða úr því, hefir það unnið mikið og þarft verk fyrir þjóðina, en takist því það ekki, þá verða eftirmæli þingsins ófögur, og það þótt hinum mikla frumvarpasæg stjórnarinnar verði hroðað af, því mörg þeirra hefðu í raun og veru gott af að hvíla sig, og sum þeirra mættu gjarnan sofna hinum langa svefni. En eins og jeg tók fram áðan, hin mikla alvara, sem hvíldi yfir þessu máli, gerði það að verkum, að nefndin þaulreyndi að ná samkomulagi um úrlausn þess, því að líkur voru til, ef samkomulag fengist, að þá mundu tillögur nefndarinnar komast í gegnum þingið. En samkomulagið brast á endanum; en þó er vonandi, að upp úr þessu starfi nefndarinnar fáist lausn, sem að gagni megi koma, og á jeg þar við tillögur meiri hl.

Nú er þá svo komið, að meiri hl. þessarar nefndar hefir skilað af sjer nefndarálitinu, og gert þar grein fyrir þeim tillögum ýmsum, sem hann vill gera í málinu, og borið fram nú þegar eitt frv. í Nd.

Hjer er nú komið fram annað frv., og er einn af þeim mönnum, sem var í minni hl., meðflm. að því. Eins og nefndarálit meiri hlutans ber með sjer, ætlaði meiri hl. að bera fram sjerstakt frv. um hlutafjárkaup í Íslandsbanka, og þungamiðjan í því frv. átti að vera sú, að landið eignaðist meiri hlutann af öllu hlutafjenu. í þessu frv. er nú eitt atriði, sem einmitt fer í þá átt; aðeins er ekki lögð, eftir orðalaginu, næg áhersla á, að landið eignist meiri hluta hlutafjárins, en orðalagið má altaf laga í þessu efni, ef meiningin er hin sama.

Það er nú gleðilegt, að samkomulag skuli nú verða um þetta verulega atriði í málinu. Og þetta atriði hefir nú raunar frá byrjun sýnst sjálfsagt, því að um leið og landið tekur á sig byrðar, til þess að hjálpa bankanum, þá er ekkert eðlilegra en að það um leið fái öll yfirráðin yfir bankanum. Um leið og þetta að sjálfsögðu styrkir lánstraust bankans, og kemur þannig atvinnuvegum landsins að notum, þá eykur það um leið verðgildi hluta hinna erlendu hluthafa, og ættu þeir því ekki síður að hafa áhuga á þessari lausn á málinu.

Ef landið eignast meiri hluta brjefanna, þá skapast fullur friður um bankann, en allir sjá, hve miklu máli það skiftir fyrir hverja peningastofnun sem er.

En til þess að hlutafjárkaupin komist á, þá þarfnast samþykki hluthafanna. En samkvæmt því, sem jeg tók fram áðan, geri jeg ráð fyrir, að ekki standi á því.

En það þarfnast meira. Það þarfnast lán. Og ber þá alt altaf að sama brennideplinum. Fram hjá honum verður ekki komist. En þótt meiri hlutinn sje ánægður yfir, að minni hlutinn hefir getað fallist á þetta verulega atriði í málinu, þá er ágreiningur um fyrirkomulag seðlaútgáfunnar. Meiri hlutinn vill nú sem sje skipa seðlaútgáfunni til bráðabirgða til eins árs, en eftir að hlutafjárkaupin hafa farið fram, þá vill hann gera endanlega skipun á seðlaútgáfunni. Þegar ófriðnum er lokið um bankann, þá er fyrst í alvöru tími kominn til þess að leysa seðlaútgáfuspursmálið og láta fagmennina ráða þar.

Það getur verið, að Íslandsbanki eigi að vera seðlabanki áfram, en það getur líka verið, að Landsbankinn eigi að vera það. Einmitt af því að meiri hlutinn hefir ákveðið hallast að þessari bráðabirgðalausn, þá er frumvarpið í Nd. borið fram að tilhlutun hans. En það er aðeins bráðabirgðaráðstöfun á seðlaútgáfunni, sem felst í því frv., en aðalatriðið er hlutafjárkaupin.

Og í sambandi við þau vil jeg þá, í tilefni af því, sem hátfv. 2. þm. Eyf. (E. Á.) sagði, taka fram, að auðvitað verði hlutirnir ekki teknir í bankanum, nema að allur hagur hans sje áður athugaður.

Jeg spyr nú, ef búist er við þessari lausn á undan hlutafjártökunni, hvaða ástæða er til að koma með ráðstafanir um endanlega lausn á seðlaútgáfu bankans nú þegar, að lítt athuguðu máli í hinu mesta flaustri? Er það af því, að búist sje við að það auki lánstraust bankans, ef þessi skipun kemst á? Jeg get varla búist við, að hinum erlenda lánveitanda. Privatbankanum, sem Íslandsbanki hefir haft fyrir aðalviðskiftabanka, muni þykja nokkuð aðgengilegra að lána bankanum, þótt seðlaútgáfunni sje skipað á þann hátt, sem hjer er farið fram á, því 1. janúar 1925 á seðlaútgáfan að vera komin niður í 5 miljónir kr., og eftir þann tíma, til loka einkaleyfisins, verður seðlaútgáfan að jafnaði ekki meiri en heimilað er í hinum upprunalegu lögum um Íslandsbanka. Menn gleyma því, að Íslandsbanki hefir lagt eða leggur áhersluna á, að fá seðlaútgáfunni skipað til lengri tíma, til þess að fá frið um bankann. En nú er sá friður trygður, ef hlutafjárkaupin takast, trygður á þann eina varanlega hátt.

Það er því víst, að skipun seðlaútgáfunnar nú til lengri tíma hefir engin áhrif á lánstraustið. í því efni eru hlutafjárkaupin aðalatriðið. En svo er annað. Ef nú ekkert verður af hlutafjárkaupunum, hvar stöndum við þá að hausti, eftir þessu frumvarpi? Á þá bankinn að leysa inn þá seðla, sem eru fram yfir 21/2 milj.? Ákvæðið um skipun seðlaútgáfunnar er fallið burt, ef hlutafjárkaupin takast ekki, og þá verður, ef svo tekst, að leggja alt í hendur stjórnarinnar og ákveða alt með bráðabirgðalögum. Því þá ekki að aðhyllast frv. í Nd., og skipa málinu til eins árs?

Það hefir verið sagt í sambandi við hlutafjárkaupin, að ef landið kaupir hlutabrjefin, muni þau hækka í verði. Jeg geri ráð fyrir, að brjefin verði keypt eftir því, hvers virði þau eru, að undangenginni rannsókn, en ekki eftir því, hvað þau standa þann og þann daginn á markaðinum.

Það gladdi mig að heyra, að háttv. 1. flm. (E. Á.) lagði aðaláhersluna á, að landið næði yfirráðum yfir bankanum. Hitt taldi hann aukaatriði, um skipun seðlaútgáfunnar. Þetta orð skildi jeg svo, að hann gæti gengið inn á það fyrirkomulag, að seðlaútgáfunni yrði skipað til bráðabirgða. Jeg verð nú að segja, að þó hlutafjárkaupin sjeu auðvitað aðalatriðið, til þess að greiða úr fjárkreppunni, þá er skipun seðlaútgáfunnar í sjálfu sjer vandasamt atriði og snýr aðallega að framtíðinni, og þarf því að leysast eftir ítarlega rannsókn og af fagmanni. Og því er jeg bráðabirgðalausninni svo mjög fylgjandi.

Eitt atriði er ennþá, eins og háttv. 1. flm. (E. Á.) gat um, sem hefir mikla þýðingu, og það er, hvernig framkvæmd þessa máls verður. Málið er ekki hægt að leiða til lykta án þess að leggja allmikið vald í hendur stjórninni. En jeg verð að segja — því er ver og miður — að mjer er illa við að leggja svo mikið vald í hendur núverandi stjórnar. Það verður að halda á þessu máli með festu, og stjórnin verður að hafa traust í þinginu. En þessi stjórn hefir það ekki. Og eins og tekið hefir verið fram, þá verður stjórnin að hafa dug í sjer til þess að taka lán. Allir eru nú að verða saminála um það, bæði vinir og óvinir stjórnarinnar, að fram hjá lántökunni verði ekki komist.