27.04.1921
Efri deild: 53. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2273 í B-deild Alþingistíðinda. (2444)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg hefi ekki búið mig undir neina framsöguræðu í þessu máli, eins og aðrir þeir, sem hjer hafa tekið til máls. En mjer þykir ástæða til að biðja mjer hljóðs, af því jeg er einn af flm. frv. og einn af þeim, sem hafa unnið að samningu þess. Mjer þykir og rjett að geta þess, að þriðji maðurinn í nefndinni, sem ekki er talin meðal flm., á meiri þátt í þessu frv. en nokkur annar. Jeg á við hv. 2. þm. G.-K. (B. K.). Þótt það hafi atvikast þannig, að hann er ekki meðal flm., þá veit jeg ekki betur en hann sje því fullkomlega samþykkur og geti talist meðal flm. frv. hjer í deildinni.

Það hefir verið rætt hjer um fjárhagsvandræðin. Allra hugur hefir snúist um það, hvernig ætti að bjarga sjer úr þeirri þröng, sem þjóðin er í. En það spursmál getur þó tæplega orðið leyst, nema menn geri sjer grein fyrir, hvernig á þessu stendur. Orsökin er fyrst og fremst sú, að áætlun sú, er bankarnir gerðu um hlutfallið milli útfluttrar og aðfluttrar vöru. reyndist ekki rjett. Verð útfluttu vörunnar árið 1920 reyndist 16 milj. lægra en við var búist, og sjá allir, að okkur munar um minna. Og síðan er hagað sjer eftir þessari áætlun af bankastjórunum og atvinnurekendum landsins, þangað til fjötrarnir eru komnir á alla, bæði bankana og atvinnurekendurna.

Jeg er samdóma þeim háttv. deildarmönnum, er tekið hafa til máls um frv., að aðalkjarni þess sje í 5. gr., þeirri ráðstöfun, að auka hlutafje Íslandsbanka um 100% og láta ríkissjóð leggja fram þann hlutaauka eins fljótt og unt er. Því að jeg hefi þá trú, að ef þetta ákvæði kemst í gegn í þinginu, þá muni að einhverju leyti rakna úr þeirri kreppu, sem nú þjáir alla okkar atvinnuvegi; ekki kannske að öllu leyti, en landið getur að sumu leyti betur greitt úr henni, þegar það hefir fengið þessa aðstöðu.

Ef fjárhagslegt traust ríkisins er nokkuð — og það vona jeg að sje — þá getur ríkið ekki betur gert en að bjóða það fram í því skyni að auka með því lánstraust bankans. Þetta er þýðingarmesta atriðið og kjarni málsins.

Það má ef til vill deila um það, hvort rjett sje að ganga í fjelag við bankann á þessum tíma, en jeg veit ekki, hvaða tími er hentugur, ef það er ekki þegar bankinn er í þröng. Frá landsins sjónarmiði ætti ekki að líta óvænlega út um hlutakaupin nú. er hlutabrjefin hafa lækkað í verði á kauphöllinni, jafnvel óeðlilega mikið, og líkur eru til, að sú lækkun hafi nokkur áhrif á mat brjefanna.

Til þess er ætlast, að skipaðir verði 5 menn, 2, er sameinað Alþingi kýs, 2 valdir af hluthöfum Íslandsbanka og 1, er hæstirjettur tilnefnir, til þess að meta hlutabrjef bankans.

Sjálfsagt er að taka til greina þau andmæli, er fram kunna að koma gegn þessu skipulagi, og vil jeg því segja: Bjóði aðrir betur. En jeg efast um, að rjettlátari leið verði fundin.

Jeg get ekki skilið háttv. 2. landsk. (S. E.) þegar hann er að tala um það vald, sem ríkisstjórninni er fengið með þessu. Stjórnin fær ekkert vald í hendur með þessu; hún á ekki að ákveða verð hlutabrjefanna. Hluthafarnir, Alþingi og hæstirjettur velja þá menn, er fara með þetta mál.

Stjórnin fær ekkert vald í málinu. nema til þess að útvega peninga til þessa fyrirtækis. Og jeg hugði eigi, að eftir allar þær ávítur, utan og innan þessara veggja, sem stjórnin hefir fengið fyrir að hafa ekki tekið lán, þá reyni þeir menn, sem mest hafa átalið hana fyrir þetta, að aftra því, að hún taki lán, er hún sjálf vill gera það.

Annað höfuðatriði frv. er seðlaútgáfurjetturinn. Honum er skipað að nokkru, en ekki til frambúðar, aðeins fyrir þann tíma, sem leyfistími bankans nær yfir, til 1933, og aðeins að því, er tekur til Íslandsbanka, því á þessu tímabili til 1933 á bankinn að afhenda seðlaútgáfuna. Frambúðarskipulagið verður þá ákveðið síðar. En það skipulag, sem nú er, er ekki viðunandi.

Þegar svo er, að aðalseðlabanki landsins hefir ekki rjett til að gefa út meira en 2% miljón kr., en seðlafúlgan í landinu er komin upp í 11–12 miljónir, þá verður að gera á þessu einhverja betri skipun, þegar þessi banki hefir jafnframt að lögum rjett til þess að banna, að aðrar stofnanir en þessi banki gefi út seðla í ríkinu, meðan leyfistími hans stendur. Hjer er því einungis verið að skipa seðlaútgáfurjettinum fyrir þann tíma. Hvernig farið verður með seðlana eftir 1924, er enn óráðið, hvað gert verður við seðlana jafnóðum og Íslandsbanki dregur þá inn. Það er því villandi að halda því fram, að hjer sje verið að gera endanlega skipun um seðlaútgáfuna.

Deiluatriðið er hjer að öðru leyti það, að nokkrir vilja láta Íslandsbanka einungis fá seðlaútgáfurjettinn til eins árs — til bráðabirgða, — en aðrir vilja láta hann fá þennan rjett til 1924. Þetta er það mikla atriði, sem sumir gera hjer að svo miklu kapps- og deilumáli.

Mjer þykir undarlegt þetta deiluefni, því vitanlegt er, að það er bankanum til stórra óþæginda að vita aldrei, hvernig seðlaútgáfurjetti sínum er hagað, nema fyrir eitt og eitt ár í senn. Það hlýtur að spilla lánstrausti bankans og gera honum enn ógreiðara fyrir á þessum fjárkrepputímum.

En mjer finst fyrra átriðið, sem jeg nefndi. kaupin á hlutabrjefum bankans, og þetta standa í nánu sambandi hvort við annað. Jeg vil, að um leið og landið leggur stórfje í Íslandsbanka, að það fje komi að fullu gagni; vil ekki, að tekið sje af honum með annari hendinni það, sem rjett var að honum með hinni; vil ekki rjetta honum aðra hendina, en smeygja hengingaról um háls honum með hinni.

Jeg get ekki sjeð, hver áhætta er í því fólgin, þótt bankinn fari með seðlaútgáfurjettinn til 1924, við höfum öll tök á honum.

Eitt ákvæði þessa frv., sem vel mætti telja 3. höfuðatriðið, er um eftirlitið. Það er gert ráð fyrir því, að eftirlitið af hálfu ríkisins verði skerpt að miklum mun. Jeg skil ekki annað en að rjett sje, að eftirlitið sje sem best, þegar landið tekur bankann að sjer á þennan hátt.

Jeg get skilið það, að menn deili á um það t. d., hvort seðlaútgáfan eigi að vera 5 eða 6 miljónir 1924, en hitt skil jeg ekki, að menn geti deilt um það, að banki, sem landið á að hálfu leyti, megi fara með seðlaútgáfurjettinn til l. jan.1925.

Jeg verð að segja það, að eftir 10 vikna sorglegt starf í þessari sælu peningamálanefnd hugsa jeg með óhug til þess, ef við nú þyrftum að setjast á rökstóla aðrar 10 vikur á næsta þingi. til að ráða fram úr þó ekki stærra máli en þessu. Jeg verð því að álíta, að best sje að ráða þessu máli til lykta nú, því eigi bætir það vinnubrögðin, þó það sje látið flækjast fyrir fleiri þingum.

Þess hefir verið getið til, að hluthafar Íslandsbanka myndu ekki vilja taka í hönd ríkisvaldsins, þegar það rjetti hana fram. Slíkt er ef til vill hægt að hugsa sjer, en þá ber ríkisvaldið ekki ábyrgðina, heldur hluthafar bankans. En nú hefir fjármálaráðherra lýst því yfir, að miklar líkur sjeu til þess, að bankinn muni ganga að þessu, og sama segir sá bankastjórinn, sem farið hefir með umboð hluthafa á fundum bankans; auk þess liggur þetta beinlínis í hlutarins eðli, því þó að þeir vildu neita, þá geta þeir það ekki. Hin eina breyting, sem hugsanleg er, er sú, að hluthafarnir sjálfir treystu sjer til að leggja fram fje, til þess að bjarga bankanum. Um það er ekkert að segja, því þá björguðu þeir sjálfir sínum eigin banka, og þá væri heldur engin ógæfa skeð.

En ef þeir höfnuðu tilboði ríkisvaldsins. Hvar væri þá komið’ Þá væri líklega ekkert úrræði annað en vandræðaráðstöfun, sem sje sú bráðabirgðaráðstöfun til næsta þings, sem meðnefndarmenn mínir hafa verið að burðast með í vetur, og viljað láta gera. Þá gerði stjórnin það, sem meiri hl. peningamálanefndar vill láta gera, það er að segja, ef það er hægt að tala um nokkurn vilja hjá þeim, því mjer finst hann vera nauðalítill. (H. St.: Hvað vilja flutningsmennirnir?). Þeir vilja hjálpa bankanum, og með því hjálpa atvinnuvegum þessa lands. (S. E.: Bestu hugmyndirnar eru frá okkur, en ekki þeim). Þeir hafa ekkert borið fram hjer í deildinni og bíða enn eftir aðgerðum annara.

Það er vitanlegt, að þetta skipulag á seðlaútgáfunni, sem hjer er gert ráð fyrir, styrkir betur lánstraust bankans en bráðabirgðafyrirkomulag, og það er einmitt það, sem við þurfum að gera, og auka hlutafjeð og gera meira en 1 árs ráðstöfun með seðlaútgáfurjett bankans.

Þessar tvær ráðstafanir, lántaka til hlutafjáraukningar og ákvörðun um seðlaútgáfurjettinn, ættu að verða til þess að útvega bankanum það rekstrarlán, sem hann þarfnast svo mjög, en allur atvinnurekstur þessa lands er svo mjög við bundinn.