27.04.1921
Efri deild: 53. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (2445)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Sigurjón Friðjónsson:

Því hefir verið haldið fram frá upphafi þessa þings af háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) o. fl., að stjórnin hefði átt að taka lán, til þess að greiða úr viðskiftakreppunni. Við þetta er í sjálfu sjer ekkert að athuga. En hitt er athugaverðara, að þeir hafa ekki komið með nein ráð um það, hvernig láninu ætti að verja. Jeg hygg, að því verði best varið þannig sem hjer er ætlast til. Því að tæplega getur það komið til mála, að ríkið taki lán til að lána aftur einstökum mönnum.

Annar vegur er auðvitað til, og hann er sá, að taka lán og láta Landsbankann hafa það, og mjer væri það í rauninni geðfeldast. En jeg hefi heyrt, að bankinn vildi ekki og gæti ekki tekið að sjer þær skyldur, sem af því myndu leiða, því að þá þyrfti hann að taka að sjer viðskiftamenn Íslandsbanka. Það virðist því eina leiðin, að styrkja Íslandsbanka. En á hvern hátt það verði heppilegast, geta auðvitað orðið deildar skoðanir um.

Jeg tel það heppilegast, að ríkið styrki hann einungis á þeim grundvelli, að það nái á einn eða annan hátt valdi yfir honum. Þess vegna er það, að mjer og fleirum hefir sýnst það tiltækilegast, að ríkið kaupi svo mikil hlutabrjef í bankanum, að það ráði mestu um bankann eftirleiðis.

Mjer skilst háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) vera þessu samþykkur. (S. E.: Er það frá okkur, að kaupa bankann?). Það veit jeg ekki, en jeg hygg, að það sje frá engum, er sitja hjer, því að það er gömul hugmynd.

Niðurstaða okkar er því sú, að rjettast sje að styðja Íslandsbanka á þennan hátt, og að af því mundi leiða, að ríkið kæmist þá af með minni lántöku en á nokkurn annan hátt. Því að lánstraust bankans mundi batna, svo að hann gæti bjargað sjer sjálfur. Og undarlegt er, ef menn vilja ekki fremur aðhyllast þetta frv. en frv. Nd., sem stefnir ekki að öðru en velta því ástandi, sem nú er, enn þá áfram um eitt ár.

Um seðlaútgáfurjettinn er það að segja, að úr því bankinn nú hefir þennan rjett, er ekki rjett, nje heppilegt, að taka hann af honum sviplega; fyrir því er slegið föstu, að hann hafi hann enn um stundarsakir, og sleppi honum síðan smátt og smátt.