28.04.1921
Efri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2280 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Halldór Steinsson:

Jeg ætlaði ekki að taka til máls við þessa umr., en það voru nokkur ummæli, sem fjellu hjá nokkrum háttv. þdm., og sjerstaklega hjá hæstv. fjrh. (M. G.), í gær, sem komu mjer til að standa npp. Ennfremur finn jeg mig knúðan til að skýra nokkuð frá gangi málsins í peningamálanefndinni og því, hvernig þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er orðið til.

Jeg hafði í fyrstu vonað það og treyst því, að þessu stærsta vandamáli þingsins yrði haldið utan við pólitískan reipdrátt og flokkadrætti, og skoðað í ljósi almenningsheilla og þarfa þjóðarinnar, en ekki gegnum þröngsýnisgleraugu pólitískra skoðana. En sú von hefir ekki ræst. Nefndin er klofin, og við því er nú raunar ekkert að segja, ef það væri á heilbrigðum grundvelli, að hún hefði klofnað. Það getur verið eðlilegt, að ekki hafi allir sömu skoðun um aðalatriðin. En svo er ekki hjer. Allir nefndarmenn voru sammála um það, að ráða þyrfti fram úr vandamálinu og reyna að ráða bót á fjárkreppunni. Allir voru þeir sammála um það, að eina leiðin væri að taka lán, og allir, að ef til vill einum undanskildum, voru sammála um, að því láni væri best varið til þess að kaupa hluti í Íslandsbanka, svo að meiri hluti hans yrði innlendur, og jafnvel fá bankanum nokkurt fje að láni til starfsins.

Í fullu samræmi við þetta er það, að álit meiri hluta peningamálanefndar er komið fram. Meiri hlutinn leit svo á, að beinasta leiðin væri sú, að framlengja seðlaútgáfunni um 1–2 ár, og í öðru lagi að koma fram með frv. um lántöku og þátttöku ríkisins í Íslandsbanka. Það frv. er ekki komið fram, en það stafar eingöngu af þeim býsnum, sem skeð hafa í þessari háttv. deild. Jeg segi býsnum, því að svo má vel nefna það, er nokkrir þm. taka traustataki á frv., sem annar þingmaður, sem þó er ekki flm., hefir samið, og bera það fram. Jeg veit ekki, hvort höfundinum hefir verið sýnd sú kurteisi, að bjóða honum að vera meðflm., eða hvort hann hefir ekki viljað kannast við faðernið. En hitt veit jeg, að það var vendilega forðast að sýna það öðrum í peningamálanefnd en þeim, sem eru meðflytjendur þess. Þetta sýnir hversu hjer er unnið í myrkrum og forðast að láta verk sín koma í dagsljósið. Jeg hefi getið þessa, til þess að menn sjái, hverjar krókaleiðir eru farnar í þessu stórmáli, sem öllum öðrum fremur þarf að ganga hreint og beint að. Jafnframt vil jeg nota tækifærið til þess að láta þessu ekki ómótmælt, en hversu þinglegt það er, læt jeg aðra dæma um.

Út í einstakar greinar frv. ætla jeg ekki að fara, heldur geyma það til 2. umr. Kjarni frv. er góður, en utan um hann er vafið ýmsu óþörfu og ýmsu, sem spillir málinu. Frv. þarf því eigi alllítillar lagfæringar við, ef hægt á að verða að notast við það.

Háttv. 1. flm. frv. (E. Á.) talaði stilt og öfgalaust, eins og hans var von og vísa. Hann benti á, að frv. gæti orðið samkomulagsgrundvöllur í málinu. En hann ætti að þekkja svo vel skoðanir manna í peningamálanefndinni, að hann ætti að hafa meðvitund um það, að til þess að ná samkomulagi, þarf frv. að taka allmiklum breytingum. En jeg efast ekki um, að hann fyrir sitt leyti sje fús til að ganga inn á þær breytingar á frv., er gerðu það aðgengilegt.

Hæstv. fjrh. (M. G.) fór óvirðulegum orðum um peningamálanefndina. Sagði hann, að hún hefði setið að störfum í 10 vikur, væri þríklofin og málin kæmu frá henni í brotum. Þetta kann rjett að vera, en mjer virðist ekki tiltökumál, þótt hún hafi setið í 10 vikur, nje heldur hitt, þótt ekki sjeu allir nefndarmenn sammála. En þeir eru nú einmitt sammála um aðalatriðin, svo að málin koma hrein frá nefndinni, en ekki í brotum. En það er til önnur nefnd og heitir landsstjórn. Hún hefir ekki setið 10 vikur, heldur bráðum 7 sinnum 10 vikur, og þykir henni víst síst of lengi, þótt flestum öðrum þyki fullnóg. Hún er líklega ekki altaf þríklofin, því að oftlega virðist hún þríein í þeim störfum, sem til lítilla þjóðheilla horfa. Og þó að málin komi óneitanlega í brotum frá henni inn á þing, þá fá þau þar helst þá áheyrn, að þau eru möluð mjölinu smærra.

Háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) sagðist efast um að þeir, sem ekki fylgdu frv., hefðu nokkurn vilja, en þó komst hann að þeirri niðurstöðu, að þeir vildu framlengingu seðlaútgáfunnar til bráðabirgða. Þessa ályktun virtist hann draga af því, að við bárum ekki fram enn eitt frv. Við litum nú svo á, að laga mætti þetta frv., og því bárum við ekki fram annað. En gagnvart hinu er það að athuga, að ef ekki næst samkomulag við hluthafana um hlutakaup ríkisins, þá verður óhjákvæmilegt að gefa út bráðabirgðalög, hvort sem er, þegar í sumar. En þá litum við svo á, að heppilegra yrði að framlengja strax um eitt ár.

Annars vona jeg, að laga megi þetta frv. svo, að flestir í þessari hv. deild sætti sig við.