28.04.1921
Efri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2283 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Sigurður Eggerz:

Jeg vil hefja mál mitt með því að svara hæstv. fjrh. (M. G.) nokkrum orðum frá því í gær. Annars var nú ræða hans mest almenns efnis, og kom hvergi við frv., sem hjer liggur fyrir. Er það undarlegt, að stjórnin skuli ekki segja álit sitt um þetta frv., þar sem hún hefir þó lagt annað frv. um sama efni fyrir þingið. Annars virðist nú svo, að stjórnin telji það frv. hafa heldur lítið fylgi, því að nú hefir hún látið taka það út af dagskrá hvað eftir annað.

Þá sný jeg mjer að ræðu hæstv. fjrh. (M. G.).

Fyrst vil jeg geta þess, að jeg hefi aldrei kent stjórninni um fjárkreppuna. Jeg benti einmitt á ýmsar ástæður þess að hún skall á. En hitt hefi jeg sagt, og stend við, að stjórnin hefir ekkert gert til þess að bæta úr fjárkreppunni. Eina færa leiðin var að taka lán, en þá leið má stjórnin ekki heyra nefnda. Og jeg verð að segja það, að mjer finnast varnir stjórnarinnar fyrir því, að hún tók ekki lánið, heldur einkennilegar. Eina og aðalástæðan er sú, að bankastjórar beggja bankanna hafi ekki viljað lán. Hæstv. fjrh. (M. G.) kvaðst hafa talað við sinn bankastjórann frá hvorum bankanum úti í Kaupmannahöfn og fengið þessi svör.

Það er nú vitanlega ekki á mínu færi að dæma um, hvað þeim hefir farið á milli. En svo mikið hefi jeg heyrt hjá hinum bankastjórum Landsbankans, að þeir töldu lánleiðina líklega. Og jeg álít ekki rjett af stjórninni að skjóta ábyrgðinni af sjer yfir á bankana. Stjórnin á þó að standa yfir bönkunum, en ekki öfugt. Og það, að bankarnir þóttust ekki þurfa lán, er engin afsökun. Svo framarlega, sem stjórnin gat útvegað lánsfje mitt í peningakreppunni, þá var engin hætta á, að ekki væri hægt að verja því í þarfir landsins. Þetta minnir mig á annað, sem gerðist hjer á Alþingi 1915. Þá var borin fram tillaga frá Sjálfstæðisflokknum um það, að draga kornforða að landinu. Þá kom fram sú mótbára, að ekki væri til hús að geyma kornið. Þessi mótbára er eins.

Hæstv. fjrh. (M. G.) skaut því fram, að stjórninni hefði ekki dottið í hug að fá Íslandsbanka slíkt lán. En má jeg spyrja: Hví ekki þá að fá Landsbankanum það til forráða og ráðstöfunar? Jeg trúi því ekki, að Landsbankinn hefði drepið hendi við því. Og ef hann hefði gert það, hefði áreiðanlega komið þungt hljóð úr mörgu horni. Og það hefði mátt vera meira en í meðallagi máttlaus stjórn, sem ekki hefði fundið einhverjar leiðir, til þess að láta þjóðbankann lúta vilja sínum, ef hann hefði þannig ætlað að gera henni alt ófært, þegar velferð landsmanna lá við. En það er sá stóri sannleikur í þessu máli, að stjórnin, seni við höfum nú, er jafnan máttlaus, þegar til stórræðanna kemur.

Þá vil jeg leyfa mjer að minna hæstv. fjrh. (M. G.) á það, að það var ekki fyrst hjer á Alþingi í vetur, að stjórninni var bent á, að lán þyrfti að taka, heldur var það gert í blöðunum í sumar. Það var því ekki „forsjálni eftir á“.

Og þegar svo hæstv. fjrh. (M. G.) kom með þá broslegu yfirlýsingu, að hann vildi yfirleitt ekki taka lán, þá er mjer óhætt að segja, að það sló undrun á menn. — (M. G.: Það var ekki skilyrðislaust). Ja, það kom eitthvert yfirklór á eftir, en hann sýndi viljann í verkinu í utanför sinni. Við danska blaðamenn sagði hann, að við vildum engin lán taka í Englandi. Jeg efa ekki, að þeim orðum hefir fylgt sannfæring, en það sýnir aðeins þröngsýni hans. Og jeg tel engan efa á því, að ef stjórnin hefði tekið gjaldeyrislán, þá hefði hún verið lofuð nærri jafnalment og hún nú er löstuð, og það jafnvel af þeim, sem eru að verða kunnir landshornanna milli fyrir það, hve mikið þeir hafa getað fyrirgefið stjórninni.

Það er annars nokkuð einkennileg skoðun hjá hæstv. fjrh. (M. G.), að ekki megi með nokkru móti minnast á lánstraust þjóðarinnar hjer inni í þingsalnum. Hvar á þá að ræða um slík mál, ef fulltrúum þjóðarinnar er bannað að tala um þau á sjálfu Alþ.? Ættu þm. ef til vill að draga ráðherrana út í horn og hvísla að þeim áhyggjum sínum í þessu efni? Það dugir sannarlega ekki að hvísla að þessari stjórn, því þó það sje hrópað til hennar um þau mál, sem rjettmæt eru, þá heyrir hún ekki.

Það var ekki rjett hjá hæstv. fjrh. (M. G.), að jeg hefði sagt, að lánstraust landsins væri farið. Jeg mælti ekki einu orði í þá átt, en hitt sagði jeg, að lánstraustið væri dýrmætur höfuðstóll, sem þjóðin með miklum erfiðismunum hefði dregið saman, og þeim höfuðstól væri nú hætta búin. Annars má hæstv. fjrh. (M. G.) og hæstv. stjórn — því vitanlega á öll stjórnin hjer jafnt hlut að máli, þótt hæstv. fjrh. sje jafnan nefndur — vera viss um það, að það eru ekki umr. hjer á Alþ. sem rýra lánstraust þjóðarinnar, heldur hitt, hvernig vjer stöndum í skilum. Þetta er hið órjúfanlega lögmál viðskiftalífsins, og gildir jafnt fyrir þjóðir og einstaklinga. Og stöndum vjer þá ef til vill í skilum? Eru ekki fjöldamargir erlendir skuldeigendur að krefja okkur, svo að segja daglega? Og er ekki svarið altaf það sama: „Við getum ekki borgað“. Fjöldi skilvísra manna stendur nú sem óskilamenn gagnvart erlendum lánardrottnum sínum, bara sökum þess að bankarnir geta ekki yfirfært fje þeirra. Það eru þessar erlendu skuldakröfur, sem naga ræturnar undan lánstrausti landsins og ógna þeim dýrmæta höfuðstól, sem jeg hefi verið að minnast á.

Og ef svo heldur áfram, að þessum kröfum verði ekki sint, hefir þá hæstv. stjórn og Alþingi gert sjer í hugarlund, að hverju stefnir? Með þeim hætti glatast lánstraustið smátt og smátt að fullu og öllu, ef ekki er bætt úr í tíma. Og lítið mun það duga, þótt stjórnin biðji menn að hafa hljótt og breiði huliðsblæju yfir hættuna, sem á ferðum er. Það er sjaldnast, að sjúklingnum verði það að aldurtila, þótt læknirinn segi, hvað að honum gengur og hvernig ráðin verði bót á meini hans, heldur hitt, ef ekkert er aðgert til að ráða bót á því.

Mjer hefir fundist með köflum eins og hæstv. stjórn væri að reyna að loka skilningi þeirra manna, sem eru þó að reyna að rýna eftir rjettri leið út úr þessum torfærum. Jeg held, að þeim starfa fylgi sú ábyrgð, sem hæstv. stjórn gerði rjettast í að taka ekki á sínar axlir. Jeg hefi heyrt hæstv. fjrh. (M. G.) bera því við, oftar en einu sinni, að ástandið væri svipað í öðrum löndum. Eftir því, seni jeg veit best, þá yfirfæra bæði pósthús og bankar nágrannalandanna fje á milli ríkja, og það þótt um miklar upphæðir sje að ræða. En hvernig er það hjer hjá oss? Aðeins örsmáar upphæðir fást fluttar gegnum pósthúsið, og það þegar vel lætur, því stundum er því lokað með öllu. Íslandsbanki yfirfærir ekkert í bili og Landsbankinn sáralítið. Það er hjer hætta á ferðum, sjúkdómur í þjóðlífinu, sem þarf endilega að lækna. Og sú lækning verður að koma sem allra fyrst.

Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði í sambandi við lántökuna, að það væri öðru máli að gegna um lántöku Dana; því fje hefði verið varið til að kaupa land fyrir. Það er ekki rjett hjá hæstv. ráðherra, að hjer sje alt öðru máli að gegna, því þótt vjer höfum ekki í hyggju að kaupa nýtt land, þá ætlum vjer að verja þessu fje til að verja það land, sem við eigum, og tryggja okkur þann rjett, sem vjer að guðs og manna lögum eigum yfir því.

Hæstv. fjrh. (M. G.) hneykslaðist mjög á því, sem jeg sagði um fjárlögin og tekjuhallann, og kvað mjer ekki farast að tala mikið um þær sakir, því jeg hefði ekki barist svo hraustlega gegn tekjuhallanum í minni tíð. Það er hreinasta misminni hjá hæstv. fjrh. (M. G.), því það var einmitt þetta, sem jeg gerði. Jeg barðist af öllum mætti gegn tekjuhallanum, og gaf út fjölda af tekjufrv., í því skyni að draga úr honum. Og þó stóð öðruvísi á þá en nú, Þá voru menn vongóðir um, að stríðsjelin væru að stytta upp og sýndist bjartara í lofti, en nú sjest ekkert nema sortinn, hvert sem horft er. Þá vonuðust menn eftir, að tekjur landssjóðs mundu aukast, en nú geta menn ekki vonað neitt í því efni fyrstu árin. Þvert á móti, því horfurnar fyrir atvinnuvegi vora eru ekki glæsilegar í bili.

Gjaldeyrislán það, sem hjer er um að tala, er einmitt ætlað til þess að bjarga atvinnuvegunum. Og þótt það verði ekki tekið, þá er það fjarstæða að ímynda sjer, að hjá því verði komist að taka lán. Munurinn verður aðeins sá, að í stað eins stórláns af ríkisins hálfu, þá kemur mesti fjöldi smálána hjá ótal erlendum skuldhöfum, sem verða að lána okkur nauðugir viljugir. Nú sem stendur eru innstæður erlendar í Íslandsbanka um 8–9 milj. kr., sem yfirfæra þarf.

Hæstv. stjórn hefir tekið það óstint upp, sem jeg sagði í gær um afstöðu bankastjóra Íslandsbanka til frv. stjórnarinnar, sem er nú á ferðinni í háttv. Nd.

Hæstv. fjrh. (M. G.) kannast nú þó við, að annar bankastjóri Íslandsbanka sje andvígur frv., og það eitt sýnir, hvort jeg hefi farið með staðlausu stafi, í brjefum til peningamálanefndanna sjást einnig athugasemdirnar, sem hinn bankastjórinn hefir gert við frv.

Um afstöðu Landsbankastjórnarinnar nægir að vísa til nefndarálits meiri hl. og þess, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni. Bankastjórar Landsbankans komu á fund hjá undirnefnd peningamálanefndar, og ræddu málið þar. Að vísu var jeg ekki á þeim fundi, en upplýsingarnar hefi jeg frá mönnum úr undirnefndinni, sbr. og nál., er jeg vísaði til áðan.

Meiri hl. peningamálanefndar var, eftir rannsókn þá, sem nefndin gerði í málinu, fullkomlega sannfærð um, að þó frv. stjórnarinnar yrði samþykt, þá yrði með engu móti með því greitt úr peningavandræðunum. Og víst er um það, að Íslandsbanki hefir ekki á neinn hátt treyst sjer til að lýsa því yfir, að hann fengi nægilegt lánstraust hjá „Privatbankanum“, þó stjórnarfrv. yrði samþykt; þvert á móti hefir hann sagt, að hann vissi ekki um, hvað lánstraustið yrði mikið fyr en hann færi suður til K.hafnar að leita fyrir sjer um það.

Það er rjett, að hæstv. fjármálaráðherra gaf nefndinni í skyn í byrjun þings, svo jeg tali mjög varlega, að ef frv. stjórnarinnar yrði samþ., þá mundu yfirfærslurnar lagast. því þá mundi Íslandbanki fá lán hjá „Privatbankanum“. En þegar spurt hefir verið um, hvað mikið lán hann mundi fá, þá hafa svörin jafnan verið á reiki. Og í hinni síðustu tíð hefir hæstv. fjármálaráðherra mjög lagt áherslu á þá visku, sem hann hefir eftir Privatbankanum, að á þessum tímum geti enginn banki sagt við annan, að hann geti veitt honum eins mikið lán og hann þurfi. Þetta vil jeg ekki rengja. En hitt þykir mjer harla ótrúlegt, að bankinn geti ekki nefnt einhverja lágmarksupphæð, sem hann undir öllum kringumstæðum vill lána. En svo lítur út, sem stjórnin hafi verið lítið áköf í að ganga eftir greiðum svörum.

Annars skal jeg taka það fram, að jeg er sannfærður um, að þetta spursmál um yfirfærsluna verði aldrei leyst með neinum lögum um seðlaaukningu, heldur einungis með lánum í einhverri mynd.

Hæstv. fjrh. (M. G.) hefir misheyrst, þar sem hann segir, að jeg í ræðu minni í gær hafi látið í ljós efa um það, að þetta frv. stjórnarinnar fengi samþykki hluthafafundar. Jeg sagði ekki eitt orð um það, en í öðru sambandi talaði jeg um það, hvort hluthafafundur mundi ganga að hlutafjárkaupunum, og kvaðst jeg búast við, að hluthafar gerðu það, þar sem hlutum þeirra með því móti yrði best borgið.

Þá barmaði hæstv. fjrh. (M. G.) sjer sáran yfir því, að sjer hefði verið alveg ómögulegt að vita það fyrir fram, hvað ofan á yrði á þingi í bankamálunum. Þessu trúi jeg vel. Og má þó ekki gera lítið úr þeim áhuga, sem stjórnin hefir sýnt í því að grenslast eftir, hvað ofan á yrði í hverju máli hjer á þingum. Því meiri áhuga í því efni býst jeg aldrei við að nokkur önnur stjórn sýni.

Þá vjek hæstv. fjrh. (M. G.) að því í ræðu sinni, að hann væri fús á að afhenda mjer völdin, ef jeg gæti sannað, að jeg hefði meiri hluta að baki mjer. Jeg skal nú alveg sleppa að ræða um mig í því sambandi, því að fleiri eru til á þingi en jeg, sem við stjórn gætu tekið. En mig langar til að spyrja hæstv. fjrh. að því, hvers vegna stjórnin lagði þá ekki niður völdin, þegar traustsyfirlýsingin á hana var feld í háttv. Nd.? Um leið og það var gert, þá hætti hún að vera þingræðisstjórn. Hvers vegna skyldi hún þá ekki hafa sagt af sjer, nema af því, að hennar eina áhugamál er það að hanga? Annars væri hún fyrir löngu farin frá. Jafnvel gamlir aldavinir hennar, trygglyndu öldungarnir úr Framsókn, sem eru alt annað en byltingagjarnir, hafa ráðlagt henni að fara, því þeir hafa ekki talið það fært, að hún sæti, eftir að hún hætti að vera þingræðisstjórn. Þetta er tekið skýrum orðum fram í blaði þeirra, „Tímanum“. En stjórnin situr enn. Og ef einhver bendir henni á, að hún ætti helst að fara, þá er svarið jafnan: „Ef þú getur sannað, að þú hafir stuðning meiri hlutans til að mynda stjórn, þá skal jeg fara“. Eins og nokkur fari að brjótast í því að mynda nýja stjórn, meðan sú gamla situr, og það þó hún sitji í trássi við þingið.

Jeg ætla að spá því, að þegar þessar aðfarir hæstv. stjórnar verða athugaðar í næði, þá muni verða tekið mjög hart á þeim, í löndunum kringum okkur er þessu þannig varið, að ef nokkur vafi leikur á um fylgi stjórnanna, þá heimta þær sjálfar traustsyfirlýsingu, og neita ella að fara með völdin; en hjer situr stjórnin róleg, þó enginn greiði atkvæði með trausti til hennar.

Jeg skal geta þess, að það var hæstv. fjrh. (M. G.), sem gaf mjer tilefni til að hreyfa nú þessu máli, og úr því jeg 144 á annað borð gerði það, þá hefi jeg orðið að segja hæstv. stjórn sannleikann, þó bitur sje. En það má jeg fullyrða, að þessi stjórn hefir komið málum vorum í það horf, að hvorki mig eða annan mun langa til þess að taka nú við af henni, og fyrir mitt leyti segi jeg það, að jeg mundi ekki gera það, nema það væri hrein „pólitisk nauðsyn“.

Háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.), sem er einn af litlu góðu börnum stjórnarinnar, afsakaði lánleysi hæstv. stjórnar með því, að hún hefði verðlagt of hátt um 15 miljónir króna þær vörur, sem óseldar hefðu verið árið 1920. Nú, — en maður hefði þó getað vænst, að þegar þessi mistök urðu augljós, að þá hefði stjórnin fengið sjónina aftur. En það sorglega er, að stjórnin hafði aldrei opið auga fyrir, hvað var að gerast í þessum málum.

Sami hv. þm.(S.H.K.)sagði líka, að annað væri ekki lagt í hendur stjórnarinnar en lántakan. En henni hefir nú, eins og kunnugt er, orðið helsti bumbult við að taka lán, og býst jeg við, að vel mætti svo fara, þótt reynt yrði á ný, að hana brysti huginn til. Annars er alls ekki víst, að verð hlutanna verði ákveðið á þann hátt, sem stendur í frv. Það getur vel verið, að bent verði á aðrar leiðir til að ákveða verð hlutanna.

Mjer fanst annars ræða háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) snúast aðallega að hlutabrjefakaupunum.

Hv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) leit svo á, að með hlutabrjefakaupunum væri bankanum rjett hendin. Jeg er því fullkomlega samþykkur. En svo sagði hann, að það, sem Alþingi biði þannig fram með annari hend inni, tæki það með hinni, ef það skipaði seðlaútgáfu bankans aðeins til bráðabirgða til eins árs, eins og meiri hl. peningamálanefndar vill.

Mjer skildist á ræðu þessa háttv. þm. (S. H. K.), að hann teldi skipun seðlaútgáfurjettarins þýðingarmikla fyrir „kredit“bankans. En gleymir þá ekki hv. þm. (S. H. K.) því, að verði frv. þetta samþykt, en hluthafar vilja svo ekki ganga að hlutafjáraukanum, þá fellur skipun seðlaútgáfunnar um leið burtu, og í því tilfelli verður hún því ekki „kredit“-auki. En ef hlutabrjefakaupin takast, þá er lánstraust hans trygt og það fengið, sem bankinn hugðist að fá með endanlegri skipun seðlaútgáfunnar, að friður yrði um bankann og ekki þyrfti á hverju þingi að verða umtal um hann. Ákvæðin í þessu frv. um endanlega skipun seðlaútgáfu bankaus til ársins 1933 eru því óþörf, hversu sem á er litið, og undir öllum kringumstæðum mjög óheppileg, þar sem þau eru sett í svo miklu flaustri. Fái landið yfirráðin yfir bankanum, þá er hagur landsins og hluthafanna í bankanum hinn sami um að bankastarfsemin gangi sem best. Í því er fólgin besta trygging fyrir því, að einnig seðlaútgáfunni verði á eftir sem haganlegast skipað. Allir sjá líka, að engin trygging er fyrir, að þessi flaustursskipun seðlaútgáfunnar, þó samþykt yrði, hjeldist, því þegar landið er orðinn aðalhluthafinn, með fullu atkvæðamagni í samræmi við hluti sína, þá getur hann breytt skipulaginu síðar eins og honum þóknast. Og þó þessi skipun verði gerð, að því er hlutabankann snertir, nú, þá er seðlaútgáfunni að öðru leyti ráðstafað. Svo mikið er flaustrið; enda auk þess ekki hægt að gera út um þetta á tryggilegan hátt, fyrr en það er sjeð, hvort úr hlutafjárkaupunum verður.

Leið sú, sem meiri hl. vill fara, er þess vegna áreiðanlega rjettari. Hann vill láta ákveða skipun seðlaútgáfunnar aðeins til bráðabirgða til eins árs. En að þeim tíma liðnum láta gera eins fljótt endanlega skipun á henni og tök eru á, enda býst meiri hlutinn við, að þá verði landið búið að eignast meiri hluta af hlutafjenu. Þá er kominn tími til að athuga alla seðlaútgáfuna frá rótum, og ákveða með aðstoð fagmanns, hvernig henni skuli háttað í framtíðinni.

Ef sú skyldi nú aftur verða raunin á, að hluthafarnir vildu ekki ganga að hlutafjáraukningunni, sem jeg áleit óheppileg, fyrir þá, og í raun og veru fyrir alla, — hvernig skilur þingið þá við þetta mál, ef engar aðrar ráðstafanir verða gerðar en þær, sem felast í þessu frv.? Jeg sje ekki betur en þegar haustið kemur, yrði ekki til nein skipun um seðlaútgáfuna, ef bankinn vill ekki ganga að hlutafjáraukningunni.

Það má segja, að stjórnin geti þá gefið út bráðabirgðalög. En eins og jeg hefi áður tekið fram, er slíkt með öllu óviðeigandi. Ef farið verður að ráðum meiri hl. og bráðabirgðafyrirkomulagið samþykt, þá er einnig í þessu tilfelli sjeð fyrir öllu til næsta þings.

Jeg skildi ekki, hvað háttv. 2. þm. S.- M. (S. H. K.) meinti, er hann í ræðu sinni var að tala um hengingaról, í sambandi við till. meiri hlutans. Jeg skildi það ekki sökum þess, að fyrir meiri hl. var sú eina hugsun vakandi, að gera það skipulag á málum þessum, sem bjargaði bæði þjóð og banka. Ef nota má orðið um nokkuð, sem þessu máli við kemur, þá má nota það um viðaukann í þessu frv. um seðlaútgáfuna, því hann gæti orðið hengingaról á hið góða samkomulag í þinginu um þetta mál.

Jeg verð að taka í sama strenginn og háttv. þm. Snæf. (H. St.), að ummæli háttv. aðalframsögumanns glöddu mig. Hann sagði, að þetta frv. bæri að skoða sem samningsgrundvöll. Þessi ummæli hans, sem jeg álít, að hann hafi ekki aðeins talað fyrir sinn munn, heldur flokks síns, gefa mjer von um, að hægt verði að breyta frv. þannig, að kjörin um hlutafjelagskaupin megi haldast, með nauðsynlegum breytingum, en endanleg skipun á seðlaútgáfunni verði feld, en bráðabirgðaskipun komi í staðinn.

Háttv. 1. landsk. (S. F.) þarf jeg ekki að svara mörgum orðum. Hann er einn af átta feðrum þessa undrabarns. Jeg verð að skjóta því inn, að þótt feðurnir sjeu átta, þá kvað þó enginn þeirra eiga það, heldur háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.). Þetta skiftir nú í sjálfu sjer ekki miklu máli. En einn misskilning vil jeg leiðrjetta, sem kom fram hjá þessum háttv. þm. (S. F.). Hann. virtist álíta, að aðalfv. meiri hl. peningamálanefndarinnar væri frv. það, sem mi liggur fyrir Nd. Þetta er misskilningur hjá mínum góða vini. Þetta frv. er algert bráðabirgðafrumvarp. Aðalfrv. er um hlutakaupin. Og eins og háttv. þm. Snæf. (H. St.) tók fram, þá mundi það nú komið fram, ef þetta frv., sem hjer liggur nú fyrir, hefði ekki komið, og við hefðum enn von um að fá því breytt í það form, sem við getum unað við.

Jeg verð að afsaka við háttv. þingmenn, að jeg hefi orðið nokkuð langorður, en það hefir orsakast af því, að jeg hafði margt að segja, og varð að segja það alt nú, þar sem þetta er í annað og síðasta sinn, sem jeg tek til máls við þessa umr.