28.04.1921
Efri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2296 í B-deild Alþingistíðinda. (2451)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg mun verða að svara hinni löngu ræðu háttv. 2. landsk. þm. (S. E.). En fyrst vil jeg fara nokkrum orðum um ræðu háttv. þm. Snæf. (H. St.). Hann sagði, að jeg hefði farið niðrandi orðum um nefndina. Jeg sagði ekkert annað um hana en að hún væri minst þríklofin, en slíkt er engin niðrun. En það átti víst að vera niðrun um stjórnina, þar sem hann sagði, að hún væri þríein eins og guð. Jeg tel það nú reyndar frekar hól en niðrun að líkja henni, að þessu leyti, við guð. Og jeg býst við, að hún muni einnig líkjast guði almáttugum í því, að hún geti ekki, frekar en hann, gert öllum til hæfis, jafnvel ekki háttv. þm. Snæf. (H. St.).

Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) sagði undarlegt, að jeg hefði ekkert talað um frv. það, sem hjer liggur fyrir, í ræðu minni í gær. En það er alls ekkert undarlegt, því bankamálin heyra ekki undir mig, heldur atvinnumálaráðherra. Jeg svaraði eingöngu sökum árása hans á mig fyrir það, sem jeg hefði gert og ekki gert.

Þessi háttv. þingmaður (S. E.) sagði, að stjórnin hefði flúið frá sínu frv. En það er alls ekki satt, þó hún hafi tekið það af dagskrá, þar til sjeð eru forlög hinna bankamálafrumvarpanna. Henni fanst nefnilega nægilegt, að tvö frumvörp lægju fyrir sama daginn um sama efnið í sömu deild, þótt ekki bættist við það þriðja.

Háttv. þm. (S. E.) sagði, að stjórnin hefði ekkert gert til að ljetta kreppuna. Þetta segir hann, þótt jeg hafi margsinnis lýst því yfir hjer í þinginu, að Landsbankinn hafi, með tilstyrk stjórnarinnar, tekið meira lán en nokkumtíma fyr, síðan hann var stofnaður. Þingmaðurinn fer því hjer með rangt mál. (S. E.: Ríkið sjálft tók ekki lánið, heldur bankinn). Bankinn tók lánið, en með ábyrgð ríkissjóðs. Kannske háttv. þm. (S. E.) meini það, að stjórnin eigi altaf að standa með lánsfjeð í höndunum og kalla til allra: Viltu fá lán, hjer eru nógir peningar.

Háttv. þm. bar brigður á, að jeg hefði skýrt rjett frá því, sem fór á milli mín og bankastjóranna utanlands í sumar. Háttv. þingmenn verða að ráða því sjálfir, hverjum þeir trúa betur, háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) eða mjer.

Háttv. þm. (S. E.) sagði ennfremur, að jeg vildi skjóta ábyrgðinni yfir á bankastjórana. Jeg er fús til þess að bera sjálfur alla ábyrgðina. En jeg skammast mín ekkert fyrir að hafa leitað ráða bankastjóranna, en fyrir hitt mundi jeg skammast mín, hefði jeg orðið að segja, að jeg hefði ekki leitað ráða þeirra um slíkt mál. Lítið kemur sagan, sem háttv. þm. sagði um tillögu sjálfstæðisflokksins 1915, þessu máli við. Ekki minnist jeg þess, að mótstöðumenn þeirrar tillögu hafi barið því við, að hús mundi ekki fást undir vörur þær, sem sjálfstæðisflokkurinn vildi láta kaupa. En hinu man jeg eftir, að aðeins fáir dagar eru liðnir, síðan maður úr sjálfstæðisflokknum, sem sje þingmaðurinn sjálfur (S. E.), bar það fram sem eina aðalástæðuna gegn tóbakseinkasölunni, að ekki mundi verða hægt að fá hús undir tóbakið, og þarf þó ólíkt minna húsrúm fyrir það en kornið.

Jeg vil spyrja þessa lánspostula um, til hvers stjórnin hafi átt að nota lánið. Nú er komið á daginn, að lánið á að nota til þess að kaupa hluti í Íslandsbanka. En eins og jeg sagði í gær, er ómögulegt að ætlast til þess, að stjórnin taki lán til að styrkja þann banka. Sumir hafa sagt, að stjórnin hefði átt að taka lán og láta það liggja í Ameríku, til að græða á kúrsmismun. En jeg hefi oft sagt, og segi enn, að út í slíkar kúrsspekulationir fyrir ríkissjóð mun jeg aldrei leggja, og álít slíkt ekki sæmandi nokkurri stjórn.

Þm. (S. E.) gat um, að talað hefði verið um lántöku löngu fyrir þing. Blöðin hefðu talað um það. Ef maður ætti að hlaupa eftir öllu, sem blöðin tala um, getur maður komist langt; en jeg hygg, að þm. (S. E.) fái ekki marga til að taka undir með sjer um það, að frekar eigi að fara eftir blöðunum en bankastjórunum í þeim efnum. Hann skýrði rangt frá því, hvað jeg hefði sagt í blöðunum, er jeg kom heim í haust, og kallaði leiðrjettingu mína yfirklór, og hann vildi auðsjáanlega ekki leiðrjetta þetta ranghermi sitt. Hann gat þess ennfremur, að stjórnin hefði mikið verið lofuð, ef hún hefði tekið lán. Það getur verið. En stjórnin hefir ekki verið að leita lofs, heldur reynt að gera það, sem var rjett. Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) finst það nú ef til vill þröngsýni, að reyna frekar að gera það, sem er rjett, heldur en að afla sjer lofs.

Hann undraðist, að þingmenn mættu ekki tala um, að lánstraustið væri á förum, og tók til dæmið um sjúklinginn og læknirinn. Læknirinn hrópar ekki upp hvað að sjúklingnum gangi, heldur reynir hann að lækna hann. Það er heldur ekki besta ráðið til að bæta lánstraustið, að þingmenn baði út öllum öngum í þingsalnum og hrópi, að lánstraustið sje farið.

Hann fjölyrti mjög um það, að nauðsynlegt væri að standa í skilum. Þar erum við sammála. En jeg held samt, að ekki ríki svo heimskuleg skoðun erlendis, að Ísland geti ekki staðið í skilum, þó einstaka menn geti það ekki, og jeg vona, að mönnum skiljist, að þótt banki geti ekki útvegað „valuta“ erlendis, þá þurfi landið ekki að vera „insolvent“. Það er því einber heimska að álíta bankann sama og landið. Íslandsbanki hefir orðið að láta sína viðskiftamenn vita, að hann geti ekki yfirfært. (S. E.: Landsbankinn getur það ekki heldur). Það er ósatt, Landsbankinn getur það víst og hefir getað það. Jeg veit vel, að alt þetta er einungis gert til þess að ráðast á stjórnina, gert til þess að sverta hana, en höfundar árásarinnar skirrast ekki við að leggja lánstraust landsins í sölurnar. Jeg veit ekki hverju þeir hlífðu, ef þeir gætu komið stjórninni frá.

Hann (S. E.) sagði, að pósthúsið væri því nær lokað; jeg þykist vita að hann meini að því er kemur til póstávísana til útlanda. Er það svo undarlegt, þótt haft sje eftirlit með greiðslum í póstávísunum, þareð annar bankinn getur ekki yfirfært, og skyldur, sem á bankanum hvíla, mundu falla á herðar ríkisins? Þm. (S. E.) vildi láta taka lán til þess að borga skuldir einstakra manna. Stjórnin átti að ganga fyrir Pjetur eða Pál og segja: „skuldar þú? Ef svo er, þá skal jeg borga fyrir þig“. (S. E. : Hæstv. ráðherra er nú reiður). Jeg er ekki reiðari heldur en háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) þegar hann talaði; það þori jeg óhræddur að leggja undir dóm áheyrendanna. Hann hældi sjer mjög yfir því, að fjárlögin hefðu verið hallalaus 1919, þegar hann var ráðherra, en jeg get fullvissað háttv. þingmenn um það, að það eru þau hallamestu fjárlög, sem samþykt hafa verið. Ekki er samt svo að skilja, að jeg sje að ásaka hann fyrir það; jeg bendi honum að eins á þetta, en hann ásakaði mig um, að jeg gerði það að engu kappsmáli að fá fjárlögin samþykt hallalaus nú. en það er nú vafasamt að dæma þannig fyrirfram, því það er ekki ennþá búið að ganga frá þeim.

Um það, hvort Íslandsbanki væri samþykkur stjórnarfrumvarpinu eða ekki, má geta þess, að í athugasemdunum við frv. stóð ekki annað en að hann væri samdóma í flestum aðalatriðum. Auðvitað getur það ætíð orkað tvímælis, hvað eru aðalatriði og hvað ekki. Hitt er rjett, að það var einungis samið við einn bankastjórann. en það var sá, sem fer með atkvæði erlendra hluthafa og hafði meiri hlutann að baki sjer, en einn bankastjórinn var veikur og fjarverandi. Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) virtist rengja sögusögn mína um, hvað hefði farið á milli mín og Privatbankans í Höfn. Jeg gat þess nú áðan, og tek það fram aftur, að jeg legg það hverjum og einum á vald að gera það upp við sjálfan sig, hvorum okkar hann trúir betur. Ennfremur sagði háttv. þm. (S. E.), að stjórnin hefði verið þefvís á að finna það út, hvað ofan á mundi verða í þinginn; hann segir þetta víst vegna þess, að honum finst fylgi stjórnarinnar of mikið; jeg lái honum það ekki, en jeg vil, í þessu sambandi. undirstrika orð hæstv. forsætisráðherra (J. M.) um vantraust á stjórnina í sameinuðu þingi, og jeg skora á háttv. þm. (S. E.) að gera það, ella mun jeg líta svo á, að hann sjái sjer það ekki fært. Það er næsta barnalegt hjá honum að halda því fram, að stjórnin vilji hanga og hanga, og einnig að traustsyfirlýsingin hafi fallið í Nd.-Hann gleymir því alveg, þessi háttv. þm. (S. E.), að til þess að fella mál þarf meira en helmingur deildarmanna að taka þátt í atkvæðagreiðslu. Í því tilfelli, er hjer ræðir um, tóku 12 þátt í atkvæðagreiðslunni, en 15 ekki, svo að engin ályktun er tekin. Einnig hafa stjórnarandstæðingarnir breitt það út, að allir prófessorar lagadeildar Háskóla Íslands væru þeim samdóma, að traustsyfirlýsingin væri feld. En það er ekki rjett. Jeg hefi talað við einn þeirra, og hann var ekki þeirrar skoðunar, og sennilega ekki hinir heldur.

Jeg er allsóhræddur við dóm þjóðarinnar fyrir þrásetu stjórnarinnar. Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) hefir ekki endanlegan dóm um það mál, og jeg beygi mig ekki fyrir hans dómi, en fyrir dómi þjóðarinnar beygi jeg mig, og bíð hans óhræddur.