28.04.1921
Efri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2303 í B-deild Alþingistíðinda. (2453)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Sigurður Eggerz:

Jeg er nú dauður eftir þingsköpunum, en hæstv. forseti hefir leyft mjer að gera athugasemd, með því skilyrði, að jeg verði mjög stuttorður, og verð jeg að sjálfsögðu að beygja mig undirskilyrðið. Jeg get því ekki svarað hæstv. fjrh. (M. G.) nú, en geymi það til 3. umr. Aftur á móti örfá orð út af ræðu hæstv. forsrh. (J. M.). Ráðherrann beindi þeim tilmælum til mín, að jeg bæri fram vantraustsyfirlýsingu á stjórnina í sameinuðu þingi. Jeg veit, að jeg þarf ekki að fullvissa um það, að jeg er, hvenær sem er, reiðubúinn að greiða stjórninni vantraustsyfirlýsingu. Hæstv. stjórn veit og, að í þeim flokki, sem jeg er í, var samþykt að bera fram vantraustsyfirlýsingu á stjórnina snemma á þinginu, og kom hún fram í háttv. Nd., enda ætti að vera nægilegt fyrir hæstv. stjórn að heyra vilja neðri málstofunnar í þessu efni. Örlög þessarar vantraustsyfirlýsingar urðu þau, sem nú er kunnugt. Einn af þingmönnum Framsóknarflokksins kom með traustsyfirlýsingu á stjórnina. Átti Sjálfstæðisflokkurinn engan þátt í því, en fyrir háttv. þingmanni mun hafa vakað, að hann vildi knýja fram atkvæðagreiðslu um traust eða vantraust á stjórnina, en koma loðnu dagskránum, sem á leiðinni voru, fyrir kattarnef. Auk þess mun hann hafa viljað innleiða sið nágrannaþjóðanna, að stjórnin leitaði sjer traustsyfirlýsingar, þegar tvísýnt væri um fylgið. Traustsyfirlýsingin fekk nú ekkert atkvæði, og tók þá háttv. þm. Dala. (B. J), sem af hálfu Sjálfstæðisflokksins flutti vantraustsyfirlýsinguna, hana aftur, og þóttist þá, sem vonlegt var, hafa fengið fulla sönnun fyrir fylgisleysi stjórnarinnar. Á því augnabliki hætti stjórnin að vera þingræðisstjórn. Við þetta bættist svo, að gömlu trúu öldungarnir í Framsókn rjeðu stjórninni að segja af sjer, eftir því sem blað þeirra skýrir frá. Jeg get því ekki eftir þetta búist við því, þó vantraust yrði samþykt á stjórnina, að hún segði af sjer. Enda mætti altaf búast við því, að því vantrausti yrði snúið upp í traust, sem svo auðvitað yrði felt. (Forseti: Þetta kemur ekki málinu við.) Jú, það kemur málinu við, því jeg fekk leyfi til að svara hæstv. forsrh. (J. M.), og þá verð jeg að svara því, sem hann sagði.

Skörungur einn á Vesturlandi, sem var mikill dýravinur — jeg ætla að kalla hann Pjetur — innleiddi þá reglu að rota kindurnar, því að honum þótti slátrunin svo ómannúðleg. Fátækur bóndi á Skarðsströndinni, sem þótti vænt um Pjetur, frjetti þetta, og varð honum þá að orði, að hann skildi ekki í jafngóðum manni og honum Pjetri, að hann skyldi vilja láta tvídrepa skepnurnar. En stendur ekki eitthvað líkt á hjer? Ef jeg nú færi enn að koma með vantraustsyfirlýsingu. væri það ekki tilraun til að vilja „tvídrepa“?