04.05.1921
Efri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (2466)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Forseti (G. B.):

Jeg hefi tvisvar sinnum tekið mál þetta af dagskrá áður. Fyrst var það gert af því, að þess var óskað, til þess að hægt væri að koma að brtt. við það. (S. E.: Jeg hefi aldrei viljað láta taka það af dagskrá. Jeg mótmæli því). Jeg vitna undir skrifarana, hvort eigi sje rjett frá skýrt. Í gær tók jeg málið af dagskrá sökum þess, að fundur hafði staðið alllengi, er að því kom, og jeg vildi ekki seinka fyrir störfum fjárveitinganefndar, með því að láta það koma til umræðu þá, því að búast hefði þá mátt við, að fundur hefði orðið að standa mikinn hluta dagsins.

Nú legg jeg það því í deildarinnar vald, hvort hún vill láta taka málið af dagskrá eða ekki, og mun jeg að sjálfsögðu verða við þeirri ósk, að um það fari fram nafnakall. En jeg tek það fram strax, að jeg skorast undan að greiða atkvæði sjálfur, því að þetta lýtur að fundarstjórn.